Samkvæmt kjarasamningum er yfirvinna sú vinna sem fer fram utan tilskilins daglegs vinnutíma eða vaktar starfsmanns. Einnig vinna sem unnin er umfram vikulega vinnutímaskyldu þótt á dagvinnutímabili sé. Fjallað er um yfirvinnu í kafla 2.3. í kjarasamningi og um yfirvinnukaup í gr. 1.5.
Sveigjanlegur vinnutími hefur áhrif á hvort og hvernig yfirvinna er reiknuð. Þannig er forstöðumanni heimilt að verða við óskum einstakra starfsmanna um sveigjanlegan vinnutíma á tímabilinu kl. 07:00 – 18:00.
Tilgreina skal í ráðningarsamningi hvort greiða eigi fyrir yfirvinnu eða ekki. Ef um sveigjanlegan vinnutíma er að ræða skal einnig tilgreina það í ráðningarsamningi.
Yfirvinna 1 og Yfirvinna 2
Hjá þeim stéttarfélögum er hafa samið um betri vinnutíma er greidd tvenns konar yfirvinna, yfirvinna 1 og yfirvinna 2. Yfirvinna er greidd með tímakaupi, sem skiptist í yfirvinnu 1 og yfirvinnu 2. Tímakaup yfirvinnu 1 er 0,9385% af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og þrepi en tímakaup yfirvinnu 2 er 1,0385% af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og þrepi.
Greiðsla fyrir yfirvinnu skal vera með eftirtöldum hætti:
Tímakaup yfirvinnu 2 greiðist jafnframt fyrir vinnu umfram 38,92 stundir á viku (168,63 stundir miðað við meðalmánuð).
Föst yfirvinna sem er merkt sem slík í launakerfinu verði greidd sem yfirvinna 2.
Starfsmaður er í fullu starfi sem er 40 stundir á viku skv. kjarasamningi. Samið hefur verið um styttingu vinnuviku um 13 mín. á dag eða viðveruskyldu upp á 38 klst. og 55 mín. á viku. Að jafnaði vinnur viðkomandi 2 yfirvinnutíma á dagvinnutíma og 2 yfirvinnutíma utan dagvinnutíma eða alls 4 yfirvinnutíma umfram viðveruskyldu á viku. Heildarvinnuskil eru því 42 klst. og 55 mín.
Yfirvinna 1. Munur á 40 klst. og 38 klst. og 55 mín. eða 1 klst. og 5 mín. greiðist sem yfirvinna 1.
Yfirvinna 2. Vinna umfram 40 klst. eða 2 klst. og 55 mín.
Starfsmaður er í 80% starfi og vinnuskylda því 32 klst. á viku. Samið hefur verið um styttingu vinnuvikunnar í 31 klst. miðað við hans starfshlutfall. Að jafnaði vinnur viðkomandi 2 yfirvinnutíma á dagvinnutíma og 2 yfirvinnutíma utan dagvinnutíma eða alls 4 yfirvinnutíma umfram viðveruskyldu á viku. Heildarvinnuskil eru því 35 klst.
Yfirvinna 1. Þær 2 klst. sem unnar eru innan dagvinnutíma enda er vinnutími innan við 40 klst.
Yfirvinna 2. Þær 2 klst. sem unnar eru utan dagvinnutíma.
Í flestum kjarasamningum er ákvæði um frí í stað yfirvinnu. Samkvæmt ákvæðinu, sem er oftast grein 2.3.8, er starfsfólki heimilt með samkomulagi við stofnun að safna frídögum vegna yfirvinnu á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar og frítöku en yfirvinnuálagið er greitt við næstu reglulegu útborgun. Almennt er ekki um hámarksfjölda daga að ræða en er þó í einstaka kjarasamningum. Hægt er að safna upp eins mörgum dögum vegna yfirvinnu og samkomulag verður um milli stofnunar og starfsmanns en ljúka þarf töku frísins fyrir 15. apríl ár hvert annars er það greitt á dagvinnutaxta enda þegar búið að greiða yfirvinnuálag.
Ef samkomulag er á milli aðila má einnig veita 1,62 klst. í frí í dagvinnu fyrir hvern yfirvinnutíma og fellur þá greiðsla yfirvinnukaups niður enda kemur hún í stað unninnar yfirvinnustundar. Talan 1,62 er fundin með því að margfalda 156 stundir miðað við meðalmánuð (m.v. vikulega vinnuskyldu sem er 36 virkar vinnustundir) með reiknistuðli yfirvinnu 2 sem er 1,0385%.
Það er ekki heimilt að taka út 1,8 klst í fríi á móti hverri yfirvinnustund.
Launakerfið Orri: Yfirvinnuálagið er gert upp á sérstakri launategund Yfirvinnuálag (254) og er 44,44% af yfirvinnutaxta (Yfirvinna 2).