Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Laun og kjaramál

Um stofnanasamninga

Stofnanasamningur er hluti af miðlægum kjarasamningi og er gerður á milli stofnunar og stéttarfélags. Honum er meðal annars ætlað að stuðla að skilvirkara launakerfi sem byggir á mannauðs- og launastefnu stofnunar.

Stofnun getur gert einn stofnanasamning við fleiri en eitt stéttarfélag náist samkomulag þar um og á sama hátt getur hópur stofnana gert sameiginlegan stofnanasamning við tiltekið stéttarfélag.

Þar sem stofnanasamningur er hluti af miðlægum kjarasamningi er ekki hægt að segja honum sérstaklega upp eða beita verkfalli til að þvinga fram breytingar á honum. Komi til ágreinings um túlkun stofnanasamnings sem ekki er leyst úr í samstarfsnefnd er hægt að bera slíkan ágreining undir Félagsdóm á sama hátt og ágreining um ákvæði viðkomandi kjarasamnings.

Markmið stofnanasamninga

Markmið stofnanasamninga er að stuðla að auknum árangri í starfi stofnana til hagsbóta fyrir starfsmenn, stofnun og þá sem nýta sér þjónustu viðkomandi stofnunar. Markmiðið er einnig að efla samstarf starfsmanna og stjórnenda á vinnustað til að auka gæði opinberrar þjónustu, bæta nýtingu rekstrarfjármagns stofnunar og skapa þannig grundvöll fyrir aukinni hagræðingu og skilvirkara launakerfi.

Markmið stofnanasamninga er einnig að færa ákvörðun um launasetningu starfa nær starfsvettvangi þar sem hægt er að bregðast hraðar við breytingum sem eiga sér stað á störfum og skipulagi stofnana og stuðla að árangurstengingu launa í samræmi við markmið og stefnu stofnana.

Stefna stofnunar i ýmsum málum þarf að vera skýr þar sem skilgreint er í hverju árangur stofnunar felst, hvernig stofnun hyggst bæta skipulag, nýtingu fjármuna og auka árangur. Skýr tengsl milli almennrar stefnu stofnunar og mannauðsstefnu hennar þurfa að vera fyrir hendi.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðs- og launasvið Fjársýslu ríkisins.