Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Laun og kjaramál

Stéttarfélagsaðild

Starfsfólk ríkisins er í þeim stéttarfélögum sem hafa gert kjarasamning við ríkið. Starfsfólk getur ekki verið í stéttarfélögum sem ekki hafa samið við ríkið. 

Þegar starfsgreining hefur átt sér stað og starf er auglýst á að koma fram í starfsauglýsingunni eftir hvaða kjarasamningi ráðningarkjör fara. Starfsgreining eða starfslýsing þar sem fram koma helstu kröfur til starfsmanns um þekkingu, hæfni og menntun eru oft leiðbeinandi varðandi hvaða kjarasamningi skal fara eftir. 

Á meðan kjarasamningar eru í gildi ríkir friðarskylda. Í því felst að starfsfólk getur ekki skipt um stéttarfélag nema þegar samningar eru lausir. Það á þó ekki við ef viðkomandi tekur að sér nýtt starf sem tilheyrir öðru stéttarfélagi. 

Aðild og iðgjöld

Samkvæmt kjarasamningum greiðir starfsfólk mánaðarlega félagsgjald af launum sínum til stéttarfélags síns og innheimtir launagreiðandinn félagsgjaldið sé þess óskað skv. kjarasamningi. Yfirleitt er stéttarfélagsgjald ákveðið hlutfall af launum, oft um eða yfir 1%.  

Aðild námsmanna að stéttarfélögum 

Félagsaðild að stéttarfélögum er mjög oft bundin við ákveðið nám, faggildingu eða starfsvettvangi. Í því felst til dæmis að nemar geta ekki verið með aðild að stéttarfélögum sem bundin eru ákveðnu námi eða faggildingu fyrr en að loknu námi. Félagsaðild að aðildarfélögum BHM er til dæmis almennt einungis heimil því starfsfólki sem lokið hefur námi sem skipulagt er að lágmarki sem 180 ECTS eininga nám (BA/BS nám) frá viðurkenndum háskóla. Starfsfólk sem ekki hefur náð þessu lágmarki getur því almennt ekki verið félagsmenn í aðildarfélögum BHM og þar af leiðandi ekki fengið laun samkvæmt kjarasamningum sem aðildarfélög BHM gera fyrir hönd félagsmanna.  

Einstaka stéttarfélög fyrir háskólamenntaða veita félagsmönnum aukaaðild þrátt fyrir að lágmarki eininga sé ekki náð. Það eitt og sér veitir ekki því starfsfólki rétt til að taka laun samkvæmt kjarasamningi þess stéttarfélags. Að öllu jöfnu ættu viðkomandi að taka laun samkvæmt kjarasamningi annars stéttarfélags, eins og til dæmis Sameykis. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga veitir til dæmis nemum eftir fyrsta ár aukaaðild að félaginu en þeir taka samt ekki laun samkvæmt kjarasamningi þeirra. 

Í einstaka kjarasamningum er samið um laun nema. Í kjarasamningum lögreglumanna er til dæmis samið um laun lögreglunema. Í kjarasamningi lækna er samið um laun læknakandidata.  

 Launakerfið Orri: Öll störf eru skráð með viðkomandi stéttarfélagi og lífeyrissjóði.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðs- og launasvið Fjársýslu ríkisins.