Mannauðstorg ríkisins: Laun og kjaramál
Samstarfsnefnd
Hjá stofnunum ríkisins skulu starfa samstarfsnefndir sem annast gerð, endurskoðun og breytingar á stofnanasamningi. Samstarfsnefndir eru skipaðar allt að þremur fulltrúum frá stéttarfélagi eða starfsfólki og þremur frá stofnun. Varafulltrúar eru jafnmargir. Forstöðumaður stofnunar tilnefnir fulltrúa stofnunar og stéttarfélag tilnefnir fulltrúa starfsfólks. Trúnaðarmaður á vinnustað getur ýmist verið fulltrúi í samstarfsnefnd eða henni til aðstoðar.
Viðræður um stofnansamning skulu fara fram undir friðarskyldu og er staða allra fulltrúa í samstarfsnefnd jöfn enda er um gerð kjarasamnings að ræða þar sem stofnanasamningar eru hluti kjarasamninga. Staða fulltrúa stéttarfélaga í samstarfsnefndum er þannig jöfn stöðu fulltrúa stofnana.
Hlutverk samstarfsnefnda er að fjalla um forsendur starfaflokkunar, röðun einstakra starfa í launaflokka og að koma á sáttum í ágreiningsmálum sem kunna að rísa vegna framkvæmdar stofnanasamnings. Sjá nánar 25. gr. laga um kjarasamninga. Samstarfsnefndir taka til umræðu hvaða þættir teljast málefnalegir þegar taka á ákvarðanir um laun og hvaða forsendur þurfa að vera til staðar svo launaákvarðanir teljist hlutlægar og gagnsæjar.
Hvor aðili um sig getur skotið ágreiningsefnum til samstarfsnefndar og kallað hana til starfa. Beina skal erindi til gagnaðila með skriflegum hætti og skal gagnaðili koma á samstarfsnefndarfundi svo fljótt sem auðið er en þó eigi síðar en fjórum vikum eftir að erindið berst. Samstarfsnefnd skal svara erindum innan fimm vikna frá því að þau voru fyrst borin formlega fram á fundi nefndarinnar.
Verði samstarfsnefnd sammála um breytingar á röðun eða öðru því sem til hennar hefur verið vísað, skal sú breyting gilda frá og með næstu mánaðarmótum eftir að erindið var fyrst formlega borið fram í nefndinni nema annað sé sérstaklega ákveðið. Náist ekki samkomulag í nefndinni innan þriggja mánaða frá því að málið kemur til meðferðar á vettvangi hennar, getur hvor aðila um sig óskað eftir því að inn í samstarfsnefnda komi annars vegar fulltrúi frá ráðuneyti viðkomandi stofnunar og hins vegar fulltrúi tilnefndur af stéttarfélagi.
Góðir samningahættir í samstarfsnefndum
Mikilvægt er að viðhafa góða samningahætti sem byggja á jafnri stöðu aðila við gerð stofnanasamnings. Hér eru nokkur atriði sem vert er að huga að:
Sameiginleg markmið leidd fram
Óþvinguð samskipti aðila
Vinnuáætlun skýr og raunsæ
Lausnamiðuð hugsun höfð að leiðarljósi
Vel skilgreindar upplýsingar
Hlutverk aðila utan nefndarinnar ákveðin, hver gerir hvað
Leiðbeiningar nýttar
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.