Mannauðstorg ríkisins: Laun og kjaramál
Laun í verkfalli
Meginreglan er sú að laun falla niður í verkfalli óháð því hvort viðkomandi starfsmaður hafi vinnuskyldu eða ekki. Jafnt dregst af launum allra starfsmanna þess stéttarfélags sem er í verkfalli. Fyrirframgreidd laun skerðast með sama hætti.
Í þeim mánuði sem verkfall hefst eða því lýkur reiknast fastar launa- og kostnaðargreiðslur fyrir þann tíma sem unnin er. Deilt er með 21,67 (meðaltals fjöldi vinnudaga á mánuði) í mánaðarlaunin og margfaldað með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnudaga frá upphafi eða til loka starfstíma. Sjá greinar 1.1.2 eða 1.1.3 í kjarasamningum ríkisstarfsmanna.
Störf á undanþágulista halda óskertum launum
Þeir sem sem sinna störfum sem ekki hafa heimild til verkfalls samkvæmt 19. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna halda óskertum launum.
Greiðslur vegna biðlauna eða lausnarlauna skerðast ekki í verkfalli
Launagreiðslur vegna biðlauna eða lausnarlauna af völdum veikinda eða andláts starfsmanns skerðast ekki enda er ekki vinnuskylda að baki slíkum greiðslum.
Orlof í verkfalli
Um orlof og önnur launuð leyfi gildir að orlofstaka og orlofslaun falla niður í verkfalli og verður því að taka þá daga síðar.
Veikindi í verkfalli
Launagreiðslur vegna veikinda eða slysa falla niður á meðan á verkfalli stendur svo og talning fjarvistardaga. Ríkisstarfsfólk í verkfalli nýtur ekki launagreiðslna í veikindaforföllum, hvort sem veikindin hófust fyrir eða eftir að verkfall kom til framkvæmda.
Starfsfólk kallað til starfa í verkfalli
Starfsfólk sem kallað er til starfa til að afstýra neyðarástandi í samræmi við 20. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna á að fá greitt samkvæmt ákvæði um tímakaupsfólk í viðkomandi kjarasamningi.
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.