Tryggingastofnun: Önnur þjónusta TR
Hvað er athugað við útgáfu A1 vottorðs?
Við mat á umsókn um A1-vottorð skoðar Tryggingastofnun meðal annars eftirfarandi atriði:
Hvort greitt hafi verið tryggingagjald og staðgreiðsla á Íslandi.
Að vinnusamband haldist allan útsendingartímann. Við mat á þessu er tekið mið af atriðum eins og ráðningarsamningi, starfslýsingu, hver beri ábyrgð á ráðningu og uppsögn og fleira.
Að starfsmaður sé undir íslenskri almannatryggingalöggjöf við upphaf útsendingar, þannig að skilyrði um samfellda tryggingu séu uppfyllt. Starfsmaður sem þegar er búsettur eða starfar í öðru EES-ríki við ráðningu getur því ekki fallið undir íslenska löggjöf á útsendingartíma.
Að starfsmaður hafi verið í starfi hjá vinnuveitanda fyrir upphaf útsendingar,
Ef starfsmaður er ráðinn sérstaklega með það að markmiði að verða sendur til starfa erlendis, þá verður vinnuveitandi að reka umtalsverða starfsemi á Íslandi. Við mat á því er meðal annars litið til skráningar starfsemi, fjölda starfsmanna, umsvifa og fleira.
Að starfsmaður sé ekki sendur út í stað annars útsends starfsmanns.
Að umsækjandi sé EES-ríkisborgari. Undantekning er samkvæmt Norðurlandasamningnum, sem einnig tekur til ríkisborgara þriðju landa.
Að starfið sé unnið fyrir vinnuveitandann og á hans kostnað innan EES-svæðisins.
Að áætlað starfstímabil sé ekki lengra en 24 mánuðir.