Mannauðstorg ríkisins: Starfslok
Uppsögn vegna brota á starfsskyldum - almenn störf
Ef brot á starfsskyldum, þar með talinn ófullnægjandi árangur í starfi, er ástæða uppsagnar, þarf jafnan að gæta að ströngum málsmeðferðarreglum sem er að finna í 44. gr. starfsmannalaga.
Hafi starfsmaður brotið starfsskyldur sínar og verið áminntur skriflega þarf að fylgjast að hann endurtaki ekki þá háttsemi sem hann var áminntur fyrir. Bæti starfsmaður ekki ráð sitt í kjölfar áminningar og forstöðumaður getur fært á það sönnur er rétt að huga að uppsögn. Mikilvægt er að athuga hvort ekki sé örugglega tiltekinn uppsagnarfrestur í ráðningarsamningi viðkomandi.
Við uppsögn vegna brota á starfsskyldum þarf að gæta að sérstökum málsmeðferðarreglum sem tilteknar eru í 44. grein starfsmannalaga og í stjórnsýslulögum. Mikilvægt er að atvik séu vel upplýst og að starfsmaður hafi haft tækifæri til að tjá sig um málið áður en ákvörðun um uppsögn vegna brota á starfsskyldum er tekin. Starfsmaður getur jafnframt borið uppsögnina undir hlutaðeigandi ráðherra.
Með broti á starfsskyldum er átt við ástæður sem tilgreindar eru í 21. gr. starfsmannalaga en þær eru:
óstundvísi og önnur vanræksla
óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns
vankunnátta eða óvandvirkni í starfi
ófullnægjandi árangur í starfi
ölvun í starfi eða framkoma eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu.
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.