Mannauðstorg ríkisins: Starfslok
Uppsagnarfrestur
Lengd uppsagnarfrests á að koma fram í ráðningarsamningi. Hann er að jafnaði þrír mánuðir að loknum reynslutíma og einn mánuður á reynslutíma.
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur ótímabundins ráðningarsamnings er að jafnaði:
þrír mánuðir ef sagt er upp að loknum reynslutíma nema kveðið sé á um annað í kjarasamningi, sjá 1. málsgrein 41. greinar starfsmannalaga
einn mánuður ef sagt er upp á reynslutíma
Uppsagnarfrestur miðast yfirleitt við mánaðamót. Ákvæði þessa efnis er í flestum ráðningarsamningum og er að finna í fyrirmynd að ráðningarsamningi.
Lengri eða skemmri uppsagnarfrestur
Uppsagnarfrestur kann að vera lengri eða skemmri í þeim tilvikum þegar kveðið er sérstaklega á um hann í kjarasamningi eða lögum. Á það fyrst og fremst við um kjarasamninga ríkisins við aðildarfélög ASÍ og sum innan BSRB en ekki aðildarfélög BHM eða KÍ.
Við nýráðningar er æskilegt að stofnun tiltaki lengd reynslutíma í ráðningarsamningi. Sé það ekki gert telst reynslutími yfirleitt þrír mánuðir. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á reynslutíma er yfirleitt einn mánuður, miðað við mánaðamót. Hægt er að framlengja reynslutíma og þarf að gera slíkt í samræmi við lengd uppsagnartíma á reynslutíma.
Ef til stendur að segja starfsmanni upp á reynslutíma þarf að gera það áður en reynslutíminn er liðinn. Fram hefur komið í dómaframkvæmd að hægt er segja starfsmanni upp með eins mánaðar uppsagnarfresti, miðað við mánaðarmót, þó svo langt sé liðið á þriðja mánuð reynslutímans.
Rökstuðningur uppsagnar á reynslutíma
Óski starfsmaður eftir rökstuðningi vegna uppsagnar á reynslutíma er talið fullnægjandi að tilgreina að uppsögnin hafi átt sér stað á reynslutíma samningsins og að hún hafi verið í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest.
Setning í embætti fellur úr gildi þegar setningartími viðkomandi embættismanns rennur út. Lausn frá embætti er því óþörf í slíkum tilvikum.
Embættismaður getur beðist lausnar með þriggja mánaða fyrirvara, sjá nánar 37. gr. starfsmannalaga.
Hins vegar framlengist skipun í embætti sjálfkrafa til fimm ára í senn nema embættismanni hafi verið tilkynnt með að minnsta kosti 6 mánaða fyrirvara að til standi að auglýsa embættið laust að loknum skipunartíma hans, sjá nánar 23. grein starfsmannalaga.
Forstöðumanni stofnunar er heimilt að lengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef svo margir innan sömu stofnunar eða í sömu starfsgrein innan stofnunar segja upp um svipað leyti að hann sjái fram á manneklu.
Í þeim tilvikum myndi starfsfólk halda óbreyttum launakjörum og réttindum, þar á meðal viðbótarlaunum.
Forstöðumanni ber að tilkynna slíka ákvörðun eins fljótt og hægt er og eigi síðar en þegar sex vikur eru eftir af upphaflegum uppsagnarfresti. Þegar uppsagnarfresturinn er styttri en sex vikur skal forstöðumaðurinn tilkynna slíka ákvörðun um leið og starfsmaður segir upp störfum.
Á þessi heimild við bæði um almenn störf og embætti. Sjá nánar 2. mgr. 46. gr. starfsmannalaga varðandi almenn störf og 2. mgr. 37.gr. varðandi embætti
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.