Mannauðstorg ríkisins: Starfslok
Starfslok vegna aldurs
Starfsmannalögin gera ráð fyrir að starfsfólki sem náð hefur 70 ára aldri sé sagt formlega upp. Ástæða er til að sýna varfærni og virðingu í hvívetna við þær aðstæður. Æskilegt er að næsti yfirmaður eða forstöðumaður afhendi slíka tilkynningu í eigin persónu, þakki fyrir samstarfið og óski viðkomandi velfarnaðar í framtíðinni.
Almenn störf
Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. starfsmannalaga skal segja starfsmanni upp frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Gæta þarf að ákvæðum í kjarasamningi um lengd uppsagnarfrests. Forstöðumaður stofnunar undirritar uppsagnarbréf eða tilkynningu um starfslok vegna aldurs.
Dæmi: Starfsmaður hefur þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hann verður 70 ára þann 5. maí. Starfslok hans ættu því að verða á mánaðamótum maí - júní. Til þess að tryggja starfslok hans á þessum tíma þarf uppsögn að eiga sér stað í febrúar þannig að uppsagnarfresturinn verði liðinn í lok maímánaðar, að loknum þremur heilum almanaksmánuðum: mars, apríl og maí.
Hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins
Frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2028 er heimilt að ráða heilbrigðisstarfsfólk sem náð hefur 70 ára aldri til starfa við heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir enda felist starfið í beinum samskiptum við sjúklinga, stoðþjónustu eða rannsóknum í tengslum við þjónustu við sjúklinga eða handleiðslu yngra heilbrigðisstarfsfólks eða nema. Slík ráðning á að jafnaði að vara eitt ár í senn og aldrei lengur en tvö ár í senn. Þó aldrei lengur en til 75 ára aldurs. Áfram gilda ákvæði starfsmannalaga um formlega uppsögn í samræmi við 2. mgr. 43. gr.
Auglýsingaskylda á ekki við um þessar ráðningar eftir 70 ára aldur. Sjá nánar lög um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn.
Embætti
Samkvæmt 1. málsgrein 33. gr. starfsmannalaga skal veita embættismanni lausn frá störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri.
Lausn úr embætti þarf ekki að tilkynna með tilteknum fresti. Þegar um lausn úr embætti sökum aldurs er að ræða er þó eðlilegt að hafa sambærilegan frest og almennt gildir um starfsfólk ríkisins, það er með þriggja mánaða fyrirvara.
Dæmi: Embættismaður verður 70 ára þann 5. maí. Lausn hans úr embætti ætti því að verða á mánaðamótum maí - júní. Til að veita þriggja mánaða frest sambærilegan við almenna starfsmenn þyrfti að tilkynna honum um lausn vegna aldurs í febrúar þannig að uppsagnarfresturinn verði liðinn í lok maímánaðar, að loknum þremur heilum almanaksmánuðum: mars, apríl og maí.
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.