Mannauðstorg ríkisins: Starfslok
Biðlaun
Meginreglan er sú að biðlaunaréttur takmarkast við embættismenn. Sjá nánar 34. grein starfsmannalaga.
Í undantekningartilvikum geta almennir starfsmenn átt biðlaunarétt sbr. 5. mgr. ákvæði starfsmannalaga til bráðabirgða.
Embættismenn og almennir starfsmenn sem falla undir ákvæði til bráðabirgða í starfsmannalögum eiga rétt á biðlaunum vegna niðurlagningar starfs.
Um biðlaunarétt embættismanna fer eftir 34. grein starfsmannalaga en um biðlaunarétt starfsmanna fer eftir ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða.
Í 22. grein laganna eru þeir starfsmenn taldir upp sem teljast til embættismanna.
Hverjir eiga ekki rétt á biðlaunum?
Félagsmenn í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands féllu ekki undir eldri lögin og eiga því ekki rétt á biðlaunum.
Ríkisstarfsmenn sem falla undir ákvæði til bráðabirgða sem ráða sig til starfa hjá nýrri stofnun og meira en mánuður líður frá starfslokum þar til ný ráðning tekur gildi.
Ríkisstarfsmenn sem falla undir ákvæði til bráðabirgða sem hafna sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila, eiga þá ekki rétt á biðlaunum. Þegar metið er hvort starf teljist sambærilegt er litið til allra kjaralegra atriða sem og innihalds starfs og stöðu að öðru leyti.
Um sólarlagsákvæðið
Ákvæðið mun með tíð og tíma falla úr gildi þar sem það takmarkast við starfsmenn sem hófu störf í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna þann 1. júlí 1996 og féllu undir eldri lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Biðlaunarétturinn var upphaflega sex mánuðir nema fyrir starfsmenn sem höfðu starfað lengur en 15 ár en var þá tólf mánuðir. Í ljósi þess að um sólarlagsákvæði er að ræða og það starfsfólk sem enn á rétt á biðlaunum hefur að jafnaði allt starfað lengur en í 15 ár er biðlaunarétturinn 12 mánuðir.
Við mat á biðlaunarétti skal telja allan þann tíma sem viðkomandi hefur verið í þjónustu ríkisins og hann talist ríkisstarfsmaður í skilningi gildandi laga á hverjum tíma. Ekki er skilyrði að um samfellda þjónustu hafi verið að ræða nema frá 1. júlí 1996. Tekið skal fram, að við mat á biðlaunarétti ber einnig að telja þann tíma sem viðkomandi hefur verið í þjónustu ríkisins eftir gildistöku núgildandi starfsmannalaga.
Biðlaunaréttur og veikindi
Biðlaunaréttur frestast ekki þó að viðkomandi starfsmaður sé veikur þegar starfið er lagt niður. Staðan er lögð niður og starfsmaðurinn fer á biðlaun þó svo að hann sé veikur og fær greidd biðlaun í sex eða tólf mánuði eftir því hve lengi hann hefur starfað í þjónustu ríkisins.
Við framkvæmd hefur verið litið svo á að með óbreyttum launakjörum sé átt við föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu auk fastrar ómældrar yfirvinnu hafi viðkomandi notið slíkra kjara. Núverandi ákvæði er túlkað með hliðsjón af biðlaunaákvæði 14. gr. eldri starfsmannalaga en í því ákvæði sagði, að við niðurlagningu stöðu skyldi starfsmaður jafnan fá föst laun er starfanum fylgdu, greidd í sex eða tólf mánuði eftir því hvort viðkomandi hafði verið skemur eða lengur en 15 ár samtals í þjónustu ríkisins. Föst laun í 1. mgr. 14. gr. eldri starfsmannalaga hafa verið skýrð svo að þau taki til:
Fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu
Fastrar ómældrar yfirvinnu, sbr. Hæstaréttardóm 1990:452. Það skal tekið fram að hér er einungis um að ræða sannanlega fyrirfram ákveðna fasta yfirvinnu sem yfirmaður staðfestir að greidd sé alla mánuði ársins.
Persónuuppbótar, sbr. Hæstaréttardóm 1995:2342.
Orlofsuppbótar.
Orlofsfé reiknast ekki á biðlaun.
Um vaktaálagsgreiðslur á biðlaunatíma er ekki að ræða.
Taki starfsmaður við öðru starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en tólf mánaða tíminn er liðinn falla launagreiðslur niður ef launin í nýja starfinu eru jöfn eða hærri en þau sem hann hafði áður. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal hann fá launamismuninn greiddan þar til tólf mánaða tímabilinu er náð.
Ef starfsmaður sem á rétt á 12 mánaða biðlaunum ræður sig í vinnu annars staðar í upphafi biðlaunatímans og hættir eftir 4 mánuði, þá á hann rétt á því sem eftir er af biðlaunatímanum. Vinni starfsmaður hluta biðlaunatímans þá fær hann greidd biðlaun þann tíma sem eftir er af biðlaunatímanum.
Tengt efni
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.