Meginreglan er sú að embættismanni verður ekki vikið úr embætti nema honum hafi fyrst verið veitt lausn um stundarsakir og mál hans sent nefnd sérfróðra manna til meðferðar. Sú nefnd er jafnan kölluð nefnd skv. 27. gr. starfsmannalaga.
Nánar um lausn um stundarsakir
Þegar embættismanni er veitt lausn um stundarsakir þarf að gæta að ströngum málsmeðferðarreglum sem er að finna í 26. gr. starfsmannalaga. Samkvæmt þeim verður embættismanni ekki veitt lausn frá embætti um stundarsakir nema um ítrekað brot á starfsskyldum sé að ræða í kjölfar skriflegrar áminningar, sbr. 2. og 4. mgr. 26. gr. starfsmannalaga.
Skrifleg áminning er ekki alltaf nauðsynlegur undanfari lausnar um stundarsakir. Undantekningartilvikin eru tvenns konar:
þegar embættismaður hefur fjárreiður eða bókhald með höndum og ætla má eða víst þykir að óreiða sé á bókhaldi eða fjárreiðum, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga
þegar embættismaður er grunaðar um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Sjá nánar 3. og 4. mgr. 26. gr. starfsmannalaga
Samkvæmt málsmeðferðarreglum 4. mgr. 26. gr. starfsmannalaga á embættismaður almennt rétt á að tjá sig um ástæður fyrirhugaðrar lausnar frá embætti um stundarsakir áður en slík ákvörðun er tekin. Enda þótt ákvæðið kveði ekki á um rétt embættismanns í öllum tilvikum, þykir eftir sem áður rétt að veita embættismanni ávallt tækifæri til að tjá sig sé þess nokkur kostur.
Lausn um stundarsakir skal vera skrifleg með tilgreindum ástæðum. Ef embættismaður óskar, skal rökstyðja ákvörðun um lausn um stundarsakir. Ef annað stjórnvald en ráðherra hefur leyst mann frá embætti um stundarsakir, getur viðkomandi borið hana undir hlutaðeigandi ráðherra. Sjá nánar 4. og 5. mgr. 26. gr. starfsmannalaga.
Meðan á lausn um stundarsakir stendur nýtur viðkomandi helmings af föstum launum sem embætti hans fylgja. Ef honum er falið að taka aftur við embætti sínu, ber að líta svo á að hann hafi gegnt því óslitið og greiða þau laun sem hann var sviptur. Sjá nánar 28. gr. starfsmannalaga.