Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Starfslok

Hópar og einstaklingar sem njóta verndar gegn uppsögn

Einstakir hópar njóta sérstakrar verndar gegn uppsögn samkvæmt lögum:

  • Trúnaðarmenn: Óheimilt er að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Við fækkun starfsfólks skulu þeir að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni, sjá 11. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur og 4. mgr. 30. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Framangreind ákvæði útiloka ekki uppsögn af öðrum ástæðum, svo sem vegna brots á starfsskyldum.

  • Fólk í fæðingar- og foreldraorlofi: Lög um fæðingar- og foreldraorlof veita starfsfólki ákveðna vernd gegn uppsögnum. Þar segir í 50. gr. að óheimilt sé að segja starfsmanni upp vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða sé í slíku orlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skuli þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn.

  • Starfsfólk með sérstaka fjölskylduábyrgð: Óheimilt er að segja starfsfólki upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar þess. Með fjölskylduábyrgð er átt við skyldur starfsmanns gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar, sbr. 1. gr. laga um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna.

  • Á grundvelli kyns: Samkvæmt 19. gr. jafnréttislaga er óheimilt að mismuna starfsfólki við uppsagnir á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að því við uppsögn að einstaklingum hafi verið mismunað á grundvelli kyns skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðunar hans.

  • Aðrir hópar: Samkvæmt 7. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði er hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, bein eða óbein, vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningu, óheimil.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.