Fara beint í efnið

Að eldast

Í dag lifir fólk almennt lengur en áður. Það er líka virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr. Til að styðja við aukin lífsgæði og virkni eldra fólks eru hér upplýsingar um hvað eina sem tengist þriðja æviskeiðinu, svo sem heilsueflingu, réttindamálum og þjónustu.

Farsæl efri ár

Á tímamótum nýs æviskeiðs er mikilvægt að búa sig vel undir það sem koma skal.
Sum kvíða því að láta af störfum á meðan önnur fagna. Gott er að byrja snemma að sjá þetta tímabil fyrir sér og huga að því hvernig best verður að verja tímanum.

Í verkefninu Gott að eldast er gengið út frá því að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og fjölga þeim sem taka virkan þátt í samfélaginu. Vert er að skoða umfjöllun um öldrunarmál á vef Stjórnarráðsins og réttindi eldra fólks á Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Hreyfing í boði

Það hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan allra hópa, á öllum æviskeiðum, að takmarka kyrrsetu og stunda reglulega hreyfingu.

Á efri árum er sérstaklega mikilvægt að varðveita vöðvastyrk og stunda styrktar- og jafnvægisþjálfun. Með reglulegri hreyfingu við hæfi má hægja á áhrifum og einkennum öldrunar og viðhalda getunni til að lifa lengur sjálfstæðu lífi.

Hreyfingin þarf ekki að vera tímafrek eða erfið til að hafa jákvæð áhrif. Öll hreyfing telur og betra er að hreyfa sig lítið eitt en ekki neitt. Opinberar ráðleggingar um hreyfingu eldra fólks

Á vefsíðunni Bjartur lífsstíll er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um hreyfingu.

Sveitarfélög bjóða upp á margskonar hreyfingu og þjálfun. Skoðaðu hvað þitt sveitarfélag býður upp.

Tómstunda- og frístundastyrkir

Sum sveitarfélög veita styrki til heilsueflingar eldra fólks.

Félagsstarf og og virkni

Eldra fólki býðst að sækja félagsskap, þjálfun og dægradvöl í félags- og þjónustumiðstöðvar sem starfa í flestum sveitarfélögum landsins.

Líkamleg, hugræn og félagsleg virkni eru öllum mikilvæg og getur hægt á öldrun og heilabilun.

Margir kvíða því að láta af launuðum störfum og fara að „gera ekki neitt“. Mikilvægt er að undirbúa þetta æviskeið, halda áfram að .

Gaman er að setja saman óskalista fyrir eitthvað sem þig langar að gera næstu árin, svo sem ferðalög, ævintýri og sjálfboðið starf.

Hugræn virkni getur verið að:

  • Læra eitthvað nýtt eins og tungumál eða á hljóðfæri

  • Leysa krossgátur, Sudoku og Orðlu

  • Pússluspil

Tölum saman – Vinnum gegn félagslegri einangrun

Félagsleg einangrun er raunverulegt og alvarlegt vandamál í nútíma samfélögum, vandamál sem veldur jafnt andlegri sem líkamlegri heilsuskerðingu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. Félagsleg einangrun er mun algengari en fólk grunar.

Það er margt hægt að gera til að draga úr einmanaleika, bæði við sjálf sem einstaklingar og sem aðstandendur og nágrannar.

Lesa meira um einmanaleika, misskilning um hann, birtingarmyndir og ráð gegn honum.

Heilsufar eldra fólks

Með hækkandi aldri er eðlilegt að vart verði ýmissa breytinga á heilsufari og hætta á sjúkdómum eykst. Dæmi um slíkt eru sjón og heyrn. Þá geta minnistruflanir farið að gera vart við sig. Samspil aldurstengdra breytinga, sjúkdóma og lyfjanotkunar getur leitt af sér af sér minni færni. Mikilvægt er að bregðast við öllum breytingum og leita sér aðstoðar.

Heilabilun er sjúkdómur sem algengur er hjá eldra fólki. Mikilvægt er að vera vel á verði gagnvart einkennum og hvernig bregðast skal við.

Á Heilsuveru eru yfirgripsmiklar og gagnlegar upplýsingar sem henta öllum eldri en 60 ára.

Gott er að tryggja að aðstandandi sé skráður sem aðstandandi/tengiliður í sjúkraskrá eldri einstaklingsins.

Eftirlaun og lífeyrir eldra fólks

Eftirlaun eða lífeyrir eldra fólks samanstendur af lífeyri lífeyrissjóða, ellilífeyri almannatrygginga, , viðbótarlífeyrissparnaði og öðrum sparnaði. Eftirlaun eru greidd til æviloka.

Greiðslur úr lífeyrissjóði geta skert greiðslur ellilífeyris almannatrygginga, því er mikilvægt að umsækjendur um ellilífeyri leiti ráðgjafar hjá Tryggingastofnun.

Lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar á sama hátt og launatekjur, því má einnig nýta ónýttan persónuafslátt maka.

Nánar má lesa um lífeyrismál og fleira sem gott er að hafa í huga: Að fara á eftirlaun.

Fjármál og sérkjör fyrir eldra fólk

Með aldrinum minnkar færni margra til að sjá um fjármál sín sjálft. Þá er gott að hafa tímanlega gert ráðstafanir svo sem að veita umboð til að sjá um ákveðin mál.

Vert er að hafa í huga að rafræn skilríki þarf að endurnýja á 5 ára fresti

Ýmis sérkjör og afslættir eru í boði fyrir eldra fólk, svo sem lægri gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu, styrki Sjúkratrygginga og afslættir víða, sem vert er að kynna sér.

Algengt er að veittur sé aðgangur að heimabanka viðkomandi einstakling og prókúru á reikninga, skilum á skattaframtali, að mínum síðum hjá Tryggingastofnun og að sækja lyf í apóteki. Sá sem veitir umboð þarf að staðfesta það með rafrænni undirritun

Umboð

Þegar einstaklingur skráir sig inn fyrir hönd annarra skráir hann sig inn með rafrænum skilríkjum sínum og síðan eru umboð hans sótt í kerfið. Einstaklingur er alltaf innskráður sem slíkur til að tryggja öryggi og rekjanleika.

Hér eru nokkur dæmi um slík umboð.

Íbúðir fyrir eldra fólk

Vert er að huga að húsnæði sínu með auknum aldri, breyttum heimilishögum og mögulega minnkandi færni.

Eldra fólk þarf að geta eignast og eða leigt húsnæði eftir þörfum hverju sinni. Fjölbreytt búsetuform eru í boði, en íbúar sem hafa verið metnir í þörf fyrir stuðning eiga rétt á heimahjúkrun og heimastuðningi eða stuðningsþjónustu sveitarfélaga óháð búsetuformi.

Þjónustuíbúðir og aðrar íbúðir fyrir eldra fólk eru ýmist sjálfseignar-, leigu- eða búseturéttaríbúðir.

Fjölbreytt búsetuform eru í boði fyrir eldra fólk.

Góð ráð fyrir eldra fólk

Til eru margar leiðir í dag til að auðvelda sér hin ýmsu verkefni daglegs lífs. Tækni fleygir fram og mikilvægt að þau sem eldast leggi sig fram um að fylgjast með. Meira um góð ráð fyrir eldra fólk.

Aðstandendur

Að vera aðstandandi eldra fólks getur verið flókið hlutverk. Oftast er um að ræða maka, börn eða aðra nána ættingja og vini.

Aðstandendur greina oft frá því að þeir finni fyrir miklu álagi í umönnunarhlutverki sínu. Það getur verið krefjandi að annast t.d. einstakling sem glímir við heilabilun, sérstaklega á seinni stigum sjúkdómsins. Of mikið álag eykur líkur á heilsufarsvanda bæði hjá aðstandendum og hinum heilabilaða.

Það þarf að huga að mörgu sem aðstandandi og oft verður yfirþyrmandi að reyna að muna allt sem þarf að gera.

Búa heima með stuðningi – Endurhæfing heima

Eldra fólki er gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er með heimaþjónustu sem mætir fólki á þeim stað sem það er í lífinu. 

Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á opinberri þjónustu fyrir eldra fólk, annars vegar heilbrigðisþjónustu sem ríkið ber ábyrgð á og hins vegar félagsþjónustu sem er á ábyrgð sveitarfélaga. 

Sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu bjóða nú endurhæfingu í heimahúsi. Í undirbúningi er hjá fleiri sveitafélögum að veita þessa þjónustu.

Þá er hægt að sækja um heimasjúkraþjálfun. Hún er ætluð fólki sem ekki á heimangengt heilsu sinnar vegna. Beiðni þarf að berast frá lækni.

Dagdvalir og dagþjálfun

Mikilvægur liður í því að geta búið áfram heima er að halda sér virkum. Víðast hvar eru reknar almennar dagþjálfanir eða dagdvalir. Þar fer fram fjölbreytt starfsemi en sótt er um til viðkomandi rekstraraðila eða heimilis sem býður úrræðið.

Eldra fólk sem býr heima en þarf reglulega umönnun getur sótt um að komast í dagdvöl eða dagþjálfun í einn eða fleiri daga vikunnar. Meira um dagdvalir og dagþjálfun eldra fólks hér.

Heilbrigðisþjónusta

Með hækkandi aldri aukast líkur á sjúkdómum og hrumleika. Innan heilsugæslustöðva og annarra heilbrigðisstofnana landsins starfa teymi sem styðja og leiðbeina eldra fólki, hjálpa þeim að greina áhættuþætti og veita leiðsögn um þau úrræði sem í boði eru.

Mikilvægt er að kynna sér þau úrræði sem bjóðast. Fyrsti viðkomustaður er alltaf heilsugæslan þín.

Við lífslok

Að leiða hugann að lífslokum sínum er mörgum fjarlægt og jafnvel eitthvað sem vakið getur óþægilegar tilfinningar. Þó svo að lífslokin séu ekki talin vera á næsta leiti getur verið mikilvægt að tekinn sé tími til að íhuga þau. Nánari upplýsingar um lífslok hér.

Þá er mikilvægt að þekkja réttindi tengd fjármálum við andlát maka, Tryggingastofnun | Réttindi við andlát maka

Á Ísland.is er líka að finna viðamiklar upplýsingar um allt sem varðar það að missa ástvin.