Í dag lifir fólk almennt lengur en áður. Það er líka virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr. Til að styðja við aukin lífsgæði og virkni eldra fólks eru hér upplýsingar um hvað eina sem tengist þriðja æviskeiðinu, svo sem heilsueflingu, réttindamálum og þjónustu.
Á tímamótum nýs æviskeiðs er mikilvægt að búa sig vel undir það sem koma skal. Sum kvíða því að láta af störfum á meðan önnur fagna. Gott er að byrja snemma að sjá þetta tímabil fyrir sér og huga að því hvernig best verður að verja tímanum.
Í verkefninu Gott að eldast er gengið út frá því að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og fjölga þeim sem taka virkan þátt í samfélaginu. Vert er að skoða umfjöllun um öldrunarmál á vef Stjórnarráðsins og réttindi eldra fólks á Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Hreyfing í boði
Það hefur jákvæð áhrif á heilsu og líðan allra hópa, á öllum æviskeiðum, að takmarka kyrrsetu og stunda reglulega hreyfingu.
Á efri árum er sérstaklega mikilvægt að varðveita vöðvastyrk og stunda styrktar- og jafnvægisþjálfun. Með reglulegri hreyfingu við hæfi má hægja á áhrifum og einkennum öldrunar og viðhalda getunni til að lifa lengur sjálfstæðu lífi.
Hreyfingin þarf ekki að vera tímafrek eða erfið til að hafa jákvæð áhrif. Öll hreyfing telur og betra er að hreyfa sig lítið eitt en ekki neitt. Opinberar ráðleggingar um hreyfingu eldra fólks
Á vefsíðunni Bjartur lífsstíll er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um hreyfingu.
Sveitarfélög bjóða upp á margskonar hreyfingu og þjálfun. Skoðaðu hvað þitt sveitarfélag býður upp.
Félagsleg einangrun er raunverulegt og alvarlegt vandamál í nútíma samfélögum, vandamál sem veldur jafnt andlegri sem líkamlegri heilsuskerðingu.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. Félagsleg einangrun er mun algengari en fólk grunar.
Það er margt hægt að gera til að draga úr einmanaleika, bæði við sjálf sem einstaklingar og sem aðstandendur og nágrannar.
Með hækkandi aldri er eðlilegt að vart verði ýmissa breytinga á heilsufari og hætta á sjúkdómum eykst. Dæmi um slíkt eru sjón og heyrn. Þá geta minnistruflanir farið að gera vart við sig. Samspil aldurstengdra breytinga, sjúkdóma og lyfjanotkunar getur leitt af sér af sér minni færni. Mikilvægt er að bregðast við öllum breytingum og leita sér aðstoðar.
Heilabilun er sjúkdómur sem algengur er hjá eldra fólki. Mikilvægt er að vera vel á verði gagnvart einkennum og hvernig bregðast skal við.
Á Heilsuveru eru yfirgripsmiklar og gagnlegar upplýsingar sem henta öllum eldri en 60 ára.
Gott er að tryggja að aðstandandi sé skráður sem aðstandandi/tengiliður í sjúkraskrá eldri einstaklingsins.
Greiðslur úr lífeyrissjóði geta skert greiðslur ellilífeyris almannatrygginga, því er mikilvægt að umsækjendur um ellilífeyri leiti ráðgjafar hjá Tryggingastofnun.
Lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar á sama hátt og launatekjur, því má einnig nýta ónýttan persónuafslátt maka.
Með aldrinum minnkar færni margra til að sjá um fjármál sín sjálft. Þá er gott að hafa tímanlega gert ráðstafanir svo sem að veita umboð til að sjá um ákveðin mál.
Vert er að hafa í huga að rafræn skilríki þarf að endurnýja á 5 ára fresti
Ýmis sérkjör og afslættir eru í boði fyrir eldra fólk, svo sem lægri gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu, styrki Sjúkratrygginga og afslættir víða, sem vert er að kynna sér.
Algengt er að veittur sé aðgangur að heimabanka viðkomandi einstakling og prókúru á reikninga, skilum á skattaframtali, að mínum síðum hjá Tryggingastofnun og að sækja lyf í apóteki. Sá sem veitir umboð þarf að staðfesta það með rafrænni undirritun
Umboð
Þegar einstaklingur skráir sig inn fyrir hönd annarra skráir hann sig inn með rafrænum skilríkjum sínum og síðan eru umboð hans sótt í kerfið. Einstaklingur er alltaf innskráður sem slíkur til að tryggja öryggi og rekjanleika.
Hér eru nokkur dæmi um slík umboð.
Á Mínum síðum á island.is, er hægt að veita öðrum umboð og skoða umboð sem aðrir hafa veitt þér. Þar er hægt að veita aðstandendum umboð að þínum síðum á island.is, Landspítalaappinu (bókaðir tímar, niðurstöður rannsókna o.fl.) og Sjúkratryggingum Íslands. Fleiri möguleikar bætast við í framtíðinni.
Hægt er að veita aðstandendum umboð til upplýsingaöflunar og/eða fjárhagslegra aðgerða í bönkum. Bankarnir eru með eyðublöð fyrir slík umboð og best að hafa samband við bankann. Hér eru nokkur dæmi
Á mínum síðum hjá Tryggingastofnun er hægt að veita umboð til að uppfæra tekjuáætlun og hafa yfirsýn yfir greiðslur frá Tryggingastofnun.
Í reglum lífeyrissjóða er gert ráð fyrir að hægt sé að veita aðstandendum umboð.
Hafa þarf samband við þann lífeyrissjóð sem greiðir eftirlaunin.
Í Heilsuveru er að hægt að veita einstaklingum umboð til að sækja lyf í apóteki.
Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði við hjálpar- og stoðtæki, sem og lyf og tannlækningar eldra fólks. Á island.is er hægt að veita aðstandanda umboð til að fylgjast með umsóknum og greiðslum á þínum síðum..
Landspítalaappið er smáforrit þar sem ýmsum upplýsingum úr rafrænum kerfum spítalans er deilt, svo sem tímabókanir og niðurstöður blóðrannsókna. Í innlögn á Landspítala er meiri upplýsingar. Hægt er að ná í Landspítalaappið fyrir Android síma og fyrir Iphone
Á Mínum síðum á island.is, er hægt að veita öðrum umboð að þínum upplýsingum í Landspítalaappinu (bókaðir tímar, niðurstöður rannsókna o.fl.).
Íbúðir fyrir eldra fólk
Vert er að huga að húsnæði sínu með auknum aldri, breyttum heimilishögum og mögulega minnkandi færni.
Eldra fólk þarf að geta eignast og eða leigt húsnæði eftir þörfum hverju sinni. Fjölbreytt búsetuform eru í boði, en íbúar sem hafa verið metnir í þörf fyrir stuðning eiga rétt á heimahjúkrun og heimastuðningi eða stuðningsþjónustu sveitarfélaga óháð búsetuformi.
Þjónustuíbúðir og aðrar íbúðir fyrir eldra fólk eru ýmist sjálfseignar-, leigu- eða búseturéttaríbúðir.
Til eru margar leiðir í dag til að auðvelda sér hin ýmsu verkefni daglegs lífs. Tækni fleygir fram og mikilvægt að þau sem eldast leggi sig fram um að fylgjast með. Meira um góð ráð fyrir eldra fólk.
Aðstandendur
Að vera aðstandandi eldra fólks getur verið flókið hlutverk. Oftast er um að ræða maka, börn eða aðra nána ættingja og vini.
Aðstandendur greina oft frá því að þeir finni fyrir miklu álagi í umönnunarhlutverki sínu. Það getur verið krefjandi að annast t.d. einstakling sem glímir við heilabilun, sérstaklega á seinni stigum sjúkdómsins. Of mikið álag eykur líkur á heilsufarsvanda bæði hjá aðstandendum og hinum heilabilaða.
Það þarf að huga að mörgu sem aðstandandi og oft verður yfirþyrmandi að reyna að muna allt sem þarf að gera.
Hefur þú áhyggjur af færni eldri ættingja þíns?
Viðvörunarmerki um minnkandi færni og aukinn hrumleika eru meðal annars:
Breytingar á persónuleika
Gleymska
Erfiðleikar við að ganga upp stiga
Minni matarlyst eða viðkomandi hefur léttst
Marblettir án áverka
Persónulegu hreinlæti ábótavant
Oftar veikindi
Þú getur leitað til heilsugæslunnar um ráðgjöf, en einnig getur lesið þér til um til um á Heilsuveru og hér á Ísland.is.
Rétt er að spyrja tímanlega hvort aðstandandi þinn vilji þiggja aðstoð með fjármálin. Einnig er gott að ræða hvern hann myndi vilja fá til að sjá um þau EF hann missir getuna til þess.
Ef einstaklingur getur ekki veitt skriflegt umboð um sín fjármál vegna veikinda þá þarf að fara í fjárræðissviptingu og því mikilvægt að ræða þessi mál snemma.
Ef óskað er aðstoðar er hægt að útbúa umboð sem veitir rétt til umsjónar með daglegum fjármálum og samskiptum við ýmsar stofnanir, svo sem Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar og fleiri. Með slíkri umboðsveitingu er viðkomandi að sinna þessum málum með rafrænum skilríkjum sínum og allt er rekjanlegt. Einnig er hægt að veita umboð á mínum síðum á Island.is til ýmissa aðgerða. Æskilegt er að aðrir nánir ættingjar, skrifi undir sem vottar eða hafi vitneskju um umboðsveitingu.
Á Mínar síður (linkur) á island.is er hægt að veita umboð til ýmissa aðgerða.
Vert er að skoða afslætti og sérkjör sem eldra fólki býðst til dæmis er varðar greiðsluþátttöku við heilbrigðisþjónustu, tannlækningar og styrki frá Sjúkratryggingum.
Deilur geta sprottið upp, oftast um fjármál, og þá er gott að hafa gert ráðstafanir snemma á borð við umboð, samkomulag um setu í óskiptu búi, gerð erfðaskráa og fleira.
Ef aðstandandi þinn þarf og vill aðstoð vegna heilsu sinnar eru hér nokkur ráð:
Fáið leyfi til að tala við heilsugæslu eða heimilislækni.
Ganga frá umboðum til að sækja lyf og/eða fletta upp lyfjum í Heilsuveru.
Apótek bjóða upp á lyfjaskömmtun fyrir einstaklinga (7-28 dagar) og sum einnig upp á heimsendingar.
Fylgja ástvini í viðtal og skoðun hjá heilbrigðisstarfsmönnum. Oft fá einstaklingar mikið af upplýsingum og þá er gott að hafa einhvern með sem getur punktað niður. Óska eftir skriflegri niðurstöðu skoðunar og rannsókna.
Fylgist með lyfjagjöf ef mögulegt er, t.d. með lyfjaskömmtun eða lyfjaróbót. Óskið eftir aðstoð heimaþjónustu ef þörf er á.
Fylgjast með samþykktum vegna einnota hjálpartækja inni á mínum síðum hjá Sjúkratryggingum. Samþykktir eru gjarnan tímabundnar (dæmi bleiur).
Almennt er hægt að fá ýmis hjálpartæki niðurgreidd frá Sjúkratryggingum (stuðningstæki, öryggishnappar) og Sjónstöðinni að uppfylltum skilyrðum.
Það getur komið að þeim tíma að einstaklingur þurfi aðstoð heimastuðnings og/eða heimahjúkrunar til að geta búið öruggur heima við. Ástvinur og aðstandandi eru ekki alltaf sammála um hvort hennar er þörf og þá hvenær. Það getur reynst gott að fá starfsmann heimastuðnings eða heimahjúkrunar í heimsókn til að fá upplýsingar um þann stuðning sem er í boði og hægt er að sækja um.
Mikilvægt er að hafa í huga að taka ekki af einstaklingnum það sem hann getur enn gert og frekar koma inn með aðstoð þar sem hennar er þörf. Stundum þarf bara litla breytingu á umhverfinu eða fá inn hjálpartæki til að einstaklingur geti gert sitt verk áfram. Hægt er að fá upplýsingar um slíkt hjá heimastuðningi, heimahjúkrun eða heilsugæslu í sínu sveitarfélagi.
Vefurinn heimsokn.is býður upp á einfalt kerfi sem heldur utan um heimsóknir aðstandenda til vinar eða ættingja sem þarf á sérstakri umhyggju að halda.
Aðgangur að honum er ókeypis.
Ræðið við ástvin um óskir hans og vilja tímanlega. Með þessu getur það reynst aðstandendum auðveldara að fylgja eftir vilja og óskum síns ástvinar ef hann getur ekki gert það sjálfur vegna t.d. veikinda.
Nokkur atriði til umhugsunar:
Hvað er ástvini mikilvægt og hvað vill hann leggja áherslu á?
Hvað óttast ástvinur þinn mest þegar aldurinn færist yfir?
Er lífssagan til á aðgengilegum stað? Með því að aðstandandi þinn fyllir út lífssöguna sína og óskir við lífslok leggur hann sitt af mörkum til að sú umönnun, sem hann mögulega þarf á að halda, verði hagað eftir sínum óskum.
Hver eru lífsgildi ástvinar og óskir varðandi meðferð og takmarkanir á meðferð? Kirkjan hefur gefið út Val mitt við lífslok sem inniheldur spurningar um óskir einstaklinga um hugsanlegar meðferðartakmarkanir og eigin útför.
Hvernig vilja þau að þeirra sé minnst?
Mikilvægt er fyrir aðstandendur að leita sér stuðnings og ráðgjafar.
Of mikið álag á þig sem aðstandanda eykur líkur á heilsufarsvanda hjá þér.
Heilsugæslustöðvar veita aðstandendum eldra fólks ráðgjöf. Einnig bjóða sum sveitarfélög upp á ráðgjöf.
Gott er að finna ættingja eða vin sem er reiðubúinn til að hlusta og veita stuðning. Þá veita mörg sjúklingafélög ráðgjafaþjónustu.
Efri ár – öldrunarráðgjöf veitir persónulega ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna með hagsmuni allra í fjölskyldunni að leiðarljósi.
Alzheimersamtökin veita einstaklingum með heilabilun og aðstandendum þeirra ráðgjöf, öllum að kostnaðarlausu. Hægt er að hringja í ráðgjafasímann 520 1082 eða senda póst á radgjafi@alzheimer.is og panta tíma á staðnum, í fjarviðtali eða síma.
Samskipti fólks eru mismunandi en eru öllum mikilvæg. Félagsleg samskipti eru mikilvæg öllum en með hækkandi aldri og/eða vegna veikinda getur dregið úr þeim. Mikilvægt er því að hlúa að félagslegum samskiptum og margt hægt að gera eins og til dæmis fara í stutta göngutúra, sitja og spjalla yfir kaffibolla eða tala saman í síma.
Samskipti geta breyst með árunum og breytingar geta gerst hraðar hjá öðrum aðilanum en hinum. Ef slíkar breytingar verða þá er gott að hafa í huga að það getur tekið einstaklinga mislangan tíma að tileinka sér ný samskipti. Því getur fylgt pirringur og reiði. Hvernig við tökum á breyttum samskiptum er mismunandi og einstaklingsbundið. Muna að við eigum í samskiptum við aðra manneskju. Stundum felur breyting á samskiptum í sér að setja þurfi mörk og getur það reynst erfitt og flókið. Hægt er að leita aðstoðar hjá t.d. félagsráðgjafa eða sálfræðingi til að bæta samskipti við sinn ástvin.
Löggild skilríki eru vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini. Þörf er á löggildu skilríki til að fá rafræn skilríki, við kosningar, að sækja lyf og fleira.
Vakin er athygli á nafnskírteini sem er nýtt löggilt skilríki. Sótt er um nafnskírteini hjá Sýslumönnum.
Vert er að sækja um nafnskírteini, þegar vegabréf og ökuskírteini eru að renna út og óvíst hvort þau verði endurnýjuð. Þannig styðjum við sjálfsögð mannréttindi.
Mörg félagasamtök halda utan um stuðningshópa aðstandenda. Hér eru nokkrir:
Eldra fólki er hættara við ýmsum óhöppum. Slys hjá eldra fólki hafa oft alvarlegri afleiðingar en hjá þeim yngri.
Nokkur ráð til að auka öryggi:
Færa hluti sem eru notaðir daglega s.s. bolla, diska og skálar, á stað þar sem auðvelt er að ná í þá.
Með því að fjarlægja mottur af gólfum eða skrautmuni sem þar standa er hægt að minnka hættuna á byltum.
Fá lægri sturtubotn til að minnka hættu á byltum.
Fá öldrunarráðgjafa/heilsugæslu til að koma og meta aðstæður á heimili.
Fjárfesta í öryggishnappi. Mikið úrval af slíku er til hjá öryggisfyrirtækjum.
Ýmis gagnleg hjálpartæki eru til og vert að skoða gagnlega tengla undir Hjálpartæki.
Örugg efri ár er bæklingur um hvar og hvernig megi koma í veg fyrir slys hjá eldra fólki.
Búa heima með stuðningi – Endurhæfing heima
Eldra fólki er gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er með heimaþjónustu sem mætir fólki á þeim stað sem það er í lífinu.
Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á opinberri þjónustu fyrir eldra fólk, annars vegar heilbrigðisþjónustu sem ríkið ber ábyrgð á og hins vegar félagsþjónustu sem er á ábyrgð sveitarfélaga.
Sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu bjóða nú endurhæfingu í heimahúsi. Í undirbúningi er hjá fleiri sveitafélögum að veita þessa þjónustu.
Þá er hægt að sækja um heimasjúkraþjálfun. Hún er ætluð fólki sem ekki á heimangengt heilsu sinnar vegna. Beiðni þarf að berast frá lækni.
Heimaþjónusta skiptist í heimastuðning og stuðningsþjónustu (áður kölluð félagsþjónusta) og heimahjúkrun. Samþætt heimaþjónusta er það kallað þegar þessi þjónusta er rekin af einum og sama aðila.
Fjarþjónusta er vaxandi hluti heimaþjónustu og stuðlar að aukinni fjölbreytni eins og með skjáheimsóknum.
Heimastuðningur
Markmiðið með heimastuðningi er að veita þeim sem þurfa aðstoð við daglegar athafnir. Þjónustan getur verið tímabundin eða til lengri tíma eftir aðstæðum. Hún er veitt sem dag-, kvöld- eða helgarþjónusta.
Þjónustan felst meðal annars í sér:
Stuðningi við athafnir dagslegs lífs
Stuðningi við heimilishald
Félagslegum stuðningi
Heimsendum mat fyrir þá sem ekki geta séð um matseld sjálfir
Óski einstaklingur eftir heimastuðningi snýr hann sér til velferðar eða félagsþjónustu síns sveitarfélags.
Gjald fyrir heimastuðning fer eftir gjaldskrá hvers sveitarfélags.
Heimahjúkrun er er ætluð þeim sem búa heima og þurfa reglulega heilbrigðisþjónustu til dæmis vegna sjúkdóma eða í kjölfar veikinda og slysa.
Þjónusta heimahjúkrunar er án endurgjalds og felur í sér:
Almenna aðhlynningu og eftirlit með andlegu og líkamlegu heilsufari
Lyfjagjöf
Sáraumbúðaskiptum
Hafa þarf samband við heilsugæslustöð til að fá mat á þörf fyrir heimahjúkrun og eða heimaendurhæfingu.
Þörf getur verið á aðstoð við að endurheimta og viðhalda virkni, heilsu og lífsgæðum.
Endurhæfing í heimahúsi er fyrir fólk sem hefur sótt um heimastuðning, stuðningsþjónustu eða heimahjúkrun og talið er að endurhæfing sé líkleg til árangurs.
Boðið er upp á endurhæfingu í heimahúsi á nokkrum stöðum, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og Árborg.
Í undirbúningi er hjá fleiri sveitarfélögum að veita þessa þjónustu.
Eldra fólk er hvatt til að nýta sér heitan mat á næstu félagsmiðstöð.
Heimsendur matur stendur eldra fólki til boða hjá mörgum sveitarfélögum. Sótt er um heimsendan mat hjá viðkomandi sveitarfélagi.
Flestir telja akstur á eigin bíl til almennra lífsgæða. Aksturshæfni getur tapast með hækkandi aldri og því gott að vera undirbúin.
Eldra fólk getur átt rétt á stæðiskorti (P-merki) fyrir hreyfihamlaða til að leggja í sérmerkt bílastæði (P-stæði). Þau eru við þá staði sem fólk sækir þjónustu eins og opinberar stofnanir og verslanir.
Akstursþjónusta
Þeir sem ekki geta ekið eigin bíl eru hvattir til að nota almenningssamgöngur. Eldra fólk fær 50% afslátt af fargjöldum. Þegar viðkomandi getur ekki nýtt strætó, þá bjóða sum sveitarfélög upp á niðurgreidda akstursþjónustu.
Rétt er að vekja athygli á því að kostnaður við að eiga og reka lítinn, lítið ekinn bíl í eitt ár er nálægt tveimur milljónum króna á ári samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Fyrir sömu fjárhæð er hægt að fara mjög margar ferðir með akstursþjónustu sveitafélaga.
Sótt er um akstursþjónustu hjá viðkomandi sveitarfélagi.
Ýmis hjálpartæki eru til sem aðstoða fólk við athafnir daglegs lífs, svo sem göngugrind, bað- og salernishjálpartæki og ýmis konar smáhjálpartæki. Úrval hjálpartækja er mikið og vert að skoða úrvalið hjá mismunandi söluaðilum (gagnlegir tenglar) ef þörf er á. Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði hjálpartækja sem falla undir reglugerð um styrki vegna hjálpartækja.
Hjálpartæki sem Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði við er ætlað að:
auðvelda notendum að takast á við athafnir daglegs lífs
auka sjálfsbjargargetu og öryggi
vera til lengri notkunar en þriggja mánaða
vera til þjálfunar og meðferðar í skilgreindum tilvikum
Sjúkratryggingar flokka hjálpartæki í eftirfarandi flokka:
Stoð- og meðferðarhjálpartæki
Stoð- og meðferðarhjálpartæki eru: bæklunarskór og innlegg, gervilimir og aðrir gervihlutir, spelkur, þrýstisokkar og þrýstibúnaður og öndunarhjálpartæki og súrefni. Heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um styrk til kaupa á stoð- og meðferðarhjálpartækjum. Nánar um styrki vegna stoð- og meðferðarhjálpartækja.
Tæknileg hjálpartæki
Tæknileg hjálpartæki eru margvísleg, svo sem hjólastólar, göngugrindur, öryggiskallkerfi, hjálpartæki í bifreið, ýmis hjálpartæki við böðun og salernisferðir, svo sem skolsetur eða skol- og þurrkbúnaður, stuðningsbúnaður ýmiskonar, dyraopnari, skábrautir, loftlyftukerfi, tjáskipta- og umhverfisstjórnunarbúnaður og fleira. Heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um styrk til kaupa á tæknilegu hjálpartæki. Nánar um styrki til kaupa á tæknilegum hjálpartækjum.
Einnota hjálpartæki
Einnota hjálpartæki eru: Bleiur, hlífðarhanskar, hjálpartæki vegna sykursýki, stómahjálpartæki og þvagleggir og þvagpokar. Heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um styrk til kaupa á einnota hjálpartækjum. Nánar um styrki til kaupa á einnota hjálpartækjum.
Sjúkratryggingar niðurgreiða lífsnauðsynleg næringarefni og sérfæði og þegar um langvarandi þörf er að ræða. Heilbrigðisstarfsmaður sækir um styrk til kaupa á næringu og sérfæði. Nánar um styrki til kaupa á næringu og sérfæði.
Mikilvægt er að eldra fólk hugi að öryggi sínu. Öryggi í þeim skilningi snýst meðal annars um að gera heimilið hættuminna.
Mottur þarf stundum að fjarlægja þar sem þær geta valdið falli. Oft dugar að setja límborða undir þær til að koma í veg fyrir að þær renni.
Spam helluborð. Ýmsar hættur leynast á heimilum, sérstaklega hjá þeim sem eru farnir að tapa færni. Mælt er með spam helluborðum sem slökkva á sér sjálf ef það gleymist eða ef pottur er tekinn af hellunni án þess að slökkva.
Huga þarf að lýsingu þegar sjónin daprast.
Handrið og stuðningsstangir gæti þurft að setja upp í sturtum eða við rúm.
Til að minnka hættu á slysum hjá eldra fólki hafa Landsamband eldri borgara, slysafélagið Landsbjörg og öryggisakademían hafa gefið út bækling um Örugg efri ár og hvar og hvernig megi koma í veg fyrir slys hjá eldra fólki.
Öryggishnappar eru mikilvæg hjálpartæki þegar heilsufar versnar. Sjúkratryggingar Ísland niðurgreiða hnappa frá helstu söluaðilum. Margir skynja auk annars, þegar notandi dettur og senda þá frá sér boð.
Ofbeldi
Ofbeldi: Ofbeldi á aldrei að líðast. Oft getur staðan verið viðkvæm, ekki síst hjá eldra fólki sem búið hefur saman lengi. Hér er umfjöllun fyrir þá sem hafa áhyggjur af vini í slíkri stöðu.
Sérstaklega er fjallað um ofbeldi gegn eldra fólki á vef Neyðarlínunar en þar er að finna skilgreiningar á hinum ýmsu birtingarmyndum ofbeldis gegn þessu hópi. Á síðunni er einnig hægt að komast í beint netspjall við þjónustuaðila ef grunur leikur á að einhver sé beittur ofbeldi.
Dagdvalir og dagþjálfun
Mikilvægur liður í því að geta búið áfram heima er að halda sér virkum. Víðast hvar eru reknar almennar dagþjálfanir eða dagdvalir. Þar fer fram fjölbreytt starfsemi en sótt er um til viðkomandi rekstraraðila eða heimilis sem býður úrræðið.
Með hækkandi aldri aukast líkur á sjúkdómum og hrumleika. Innan heilsugæslustöðva og annarra heilbrigðisstofnana landsins starfa teymi sem styðja og leiðbeina eldra fólki, hjálpa þeim að greina áhættuþætti og veita leiðsögn um þau úrræði sem í boði eru.
Mikilvægt er að kynna sér þau úrræði sem bjóðast. Fyrsti viðkomustaður er alltaf heilsugæslan þín.
Heilsugæslustöðin er almennt fyrsti viðkomustaður allra er þurfa aðstoð vegna heilsufars.
Heilsugæslustöðvar bjóða upp á heilsueflandi móttöku fyrir eldra fólk þar sem veitt eru ráð og aðstoð við að takast á við heilsufarsáskoranir efri ára.
HÖR (heilsugæslu- eða heimahjúkrunar öldrunarráðgjafar) starfa víða í heilsugæslu og heimahjúkrun. Þau hafa aflað sér viðbótarþekkingar í samspili langvinnra sjúkdóma og aldurs, öldrunarhjúkrun, öldrunarbreytingum, hrumu eldra fólki og fleira, sem og þekkingu á sértækri meðferð fyrir hrumt eldra fólk og úrræði til að viðhalda vellíðan og sjálfstæði.
Þörf getur verið á aðstoð við að endurheimta og viðhalda virkni, heilsu og lífsgæðum.
Endurhæfing í heimahúsi er fyrir fólk sem hefur sótt um heimastuðning, stuðningsþjónustu eða heimahjúkrun og talið er að endurhæfing sé líkleg til árangurs.
Boðið er upp á endurhæfingu í heimahúsi á nokkrum stöðum, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og Árborg.
Í undirbúningi er hjá fleiri sveitarfélögum að veita þessa þjónustu.
Tilgangur bráðaþjónustu er að forða eldra fólki frá innlögn á bráðamóttöku og spítala vegna veikinda sem hægt er að meðhöndla heima. Þjónustan er tímabundin og varir meðan bráð veikindi vara.
Bráðaþjónusta heim til eldra fólks er tvenns konar í dag, það er Heimaspítali sem enn er aðeins þjónað frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og SELMA sem er verkefni Reykjavíkurborgar.
Heimaspítali
Heimaspítali er þjónusta við eldra fólk þar sem læknir og hjúkrunarfræðingur heimsækja skjólstæðinga sína með stuðningsmeðferð í heimahúsi. Þetta er ný þjónusta fyrir aldraða á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
SELMA
SELMA er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og verður fyrir skyndilegum veikindum eða versnun á heilsufari. Teymið er ráðgefandi bakland fyrir starfsfólk heimahjúkrunar. Um er að ræða vitjanir og símaráðgjöf.
Teymisstjóri heimahjúkrunar eða heimilislæknir getur óskað eftir vitjun frá SELMU sé talin þörf á því.
Endurhæfingarinnlagnir miða að því að fólk endurheimti andlega, líkamlega og félagslega færni. Þær eru veittar í kjölfar veikinda eða slysa, eða til að viðhaldi færni og fyrirbyggja frekari skerðingu.
Endurhæfing byggist á virkri þátttöku sjúklings og þverfaglegu samstarfi fagfólks. Endurhæfingarinnlagnir eldra fólks eru aðallega á hjúkrunarheimilum, endurhæfingarstofnun eða annarri heilbrigðisstofnun.
Hér eru nokkur dæmi um stofnanir þar sem eru endurhæfingarinnlagnir
Hvíldarinnlögn er tímabundin dvöl í hjúkrunarrými. Dvölin getur staðið yfir frá nokkrum dögum allt að átta vikum.
Víðast hvar eru það tiltekin hjúkrunarheimili sem taka á móti einstaklingum í hvíldarinnlagnir.
Markmiðið með hvíldarinnlögn er að gera fólki kleift að búa áfram á eigin heimili með tímabundinni endurhæfingu eða innlögn.
Hvíldarinnlögn getur líka verið veitt þegar nákominn einstaklingur sem stutt hefur viðkomandi þarfnast hvíldar eða forfallast. Þjónustuaðilar þurfa að tryggja einstaklingum næga virkni sem stuðlar að áframhaldandi færni.
Ekki er þörf á að vera komin með samþykkt færni- og heilsumat til að komast í hvíldarinnlögn.
Það getur komið að þeim tímapunkti í lífi fólks að það þurfi meiri aðstoð en hægt er að veita í heimahúsi. Áður en óskað er eftir dvöl á hjúkrunarheimili þurfa öll önnur úrræði að vera fullreynd.
Til þess að eiga kost á dvöl á hjúkrunarheimili þarf að sækja um færni- og heilsumat.
Eftir að umsókn um færni og heilsumat er skilað til færni og heilsumatsnefndar er umsóknin tekinn fyrir á fundi nefndarinnar. Færni og heilsufarsnefnd kallar eftir hjúkrunarbréfi, læknabréfi og félagsráðgjafabréfi áður en umsókn er lögð fyrir fund. Skriflegt svar frá nefnd berst í tölvupósti ef netfang hefur verið skráð á umsókn. Svar berst annars í bréfpósti á heimilisfang aðstandenda sem gefið er upp við útfyllingu umsóknar.
Á hjúkrunarheimilum er veitt sólarhrings hjúkrunarþjónusta. Einnig er boðið upp á læknisþjónustu, sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Upplýsingar um starfsemi hjúkrunarheimila veita heimilin sjálf.
Að leiða hugann að lífslokum sínum er mörgum fjarlægt og jafnvel eitthvað sem vakið getur óþægilegar tilfinningar. Þó svo að lífslokin séu ekki talin vera á næsta leiti getur verið mikilvægt að tekinn sé tími til að íhuga þau. Nánari upplýsingar um lífslok hér.