Fara beint í efnið

Að missa ástvin

Við andlát ástvinar verða þáttaskil sem marka spor í líf fólks. Sorg og önnur viðbrögð eru einstaklingsbundin og taka oft mið af aðdraganda andláts.

Efnisyfirlit

Andlát

Þegar andlát verður á heilbrigðisstofnun og aðstandendur eru ekki viðstaddir hefur læknir eða hjúkrunarfræðingur samband við þá eins fljótt og hægt er. Ef um slys er að ræða annast prestur eða lögreglumaður tilkynningu til aðstandenda.

Við andlát utan stofnana, eða þegar hinn látni hefur ekki notið umönnunar heilbrigðisstarfsfólks, er lögregla kvödd til auk sjúkraflutningamanna og læknis sem staðfestir andlátið. Lögregla rannsakar vettvang og ákveður í samráði við lækni hvort unnt sé að kveða upp úr um dánarorsök. Ef það er ekki hægt skal réttarkrufning fara fram samkvæmt lögum.

Þegar um banaslys er að ræða skulu fréttamenn og fulltrúar fjölmiðla leita samvinnu við presta eða lögreglumenn um það hvenær nafn hins látna er birt á opinberum vettvangi. Meginreglan er sú að nafn hins látna er ekki birt fyrr en náðst hefur í flesta eða alla nánustu ættingja.

Áföll á borð við andlát ástvina geta valdið miklu tilfinningalegu álagi. Áfallahjálp er gjarnan veitt þegar um slys er að ræða en annars standa ýmis úrræði til boða. Bráðaþjónusta er á Landspítala en sóknarprestar, sálfræðingar og geðlæknar veita einnig áfallahjálp. Þá er að auki hægt að fá góð ráð, upplýsingar og stuðning í hjálparsíma Rauða krossins 1717.

Um sorg og önnur viðbrögð á vef Sorgarmiðstöðvar

Áfallahjálp á vef Almannavarna

Hvað geri ég næst?

Eftir andlátið hafa aðstandendur samband við útfararstjóra, prest eða forstöðumann trú- eða lífsskoðunarfélags sem leiðbeina varðandi næstu skref.

Athuga þarf hvort hinn látni hafi skilið eftir sig sérstakar óskir varðandi meðferð við lífslok, en óskir hans ber að virða umfram óskir aðstandenda. Sérstaklega þarf að taka til óska um bálför. Verði prestur eða annar sem vitjar um sjúka og deyjandi þess áskynja að viðkomandi hafi skipt um skoðun varðandi útfararfyrirkomulag skal hann sjá til þess að gengið verði frá staðfestingu á vilja hins deyjandi, annað hvort skriflega eða að viðstöddum vottum.

Nánari upplýsingar fyrir aðstandendur

Líffæragjöf, líkskoðun og krufning

Í líffæragjöf felst að líffæri eða önnur lífræn efni eru fjarlægð úr látinni manneskju og grædd í sjúkling sem þarfnast þeirra.

Íslendingar eru sjálfkrafa skráðir líffæragjafar samkvæmt lögum. Þeir sem vilja breyta þeirri skráningu geta gert það á Heilsuveru eða fengið aðstoð heimilislæknis eða hjúkrunarfræðinga heilsugæslunnar við að skrá afstöðu sína. 

Líffæragjöf á vef Landlæknis

Með líkskoðun er átt við skoðun læknis til þess að athuga hvernig andlát bar að. Með réttarlæknisfræðilegri líkskoðun er átt við sameiginlega skoðun lögreglu og læknis.

Krufningar eru tvenns konar, krufning í læknisfræðilegum tilgangi og réttarkrufning.

Eftir líkskoðun má kryfja lík í læknisfræðilegum tilgangi hafi hinn látni veitt til þess heimild fyrir andlátið.

Réttarkrufning fer fram að frumkvæði lögreglu ef vettvangsrannsókn sýnir að dauðsfallið megi rekja til refsiverðrar háttsemi eða þegar ekki er hægt að ákvarða dánarorsök. Samþykki nánasta aðstandanda eða dómsúrskurð þarf fyrir réttarkrufningu.

Nánar um andlát á vef Landspítala

Dánarvottorð

Dánarvottorð er annars vegar tilkynning til Þjóðskrár um banamein og andlát viðkomandi og hins vegar tilkynning til sýslumanns um andlátið. Læknir ritar dánarvottorð. Að því loknu snúa aðstandendur sér til sýslumanns:

 1. Aðstandandi hins látna fær dánarvottorð hjá lækni.

 2. Aðstandandi afhendir sýslumanni dánarvottorðið.

 3. Sýslumaður afhendir aðstandanda staðfestingu á móttöku dánarvottorðs.

 4. Aðstandandi afhendir presti, forstöðumanni trúfélags eða útfararstjóra staðfestinguna. Án hennar getur útför ekki farið fram.

 5. Sýslumaður sendir dánarvottorð til þjóðskrár.

Ef hinn látni lést í útlöndum er dánarvottorð eða samskonar erlent vottorð afhent sýslumanni í því umdæmi þar sem útför verður gerð eða þar sem dánarbúinu verður skipt.

Ef barn fæðist andvana þarf ekki að rita dánarvottorð, heilbrigðisstofnun tilkynnir það á sérstöku eyðublaði til Þjóðskrár.

Tilkynning andláts á vef sýslumanna

Andlát erlendis

Við andlát ástvina erlendis þarf að hafa ýmis atriði í huga sem almennt koma ekki til skoðunar þegar aðili fellur frá á Íslandi, t.d. um það hvernig haga skuli samskiptum við erlenda útfararþjónustu og hvernig staðið sé að heimflutningi hins látna til Íslands.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins veitir ýmsa aðstoð þegar andlát á sér stað erlendis og hér á eftir er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um þjónustuna sem stendur til boða.

Borgaraþjónustan bendir sérstaklega á að útfararstofur erlendis búa iðulega yfir nákvæmustu og nýjustu upplýsingum um hvernig best er að bera sig að. Útfararstofur geta því veitt ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar í þessum efnum.

Andlát erlendis, upplýsingar á vef utanríkisráðuneytisins

Flutningur látinna milli landshluta/landa

Útfararþjónustur geta séð um flutning milli landshluta fyrir aðstandendur.

Ef flytja á látna manneskju úr landi skal aðstandandi afhenda sýslumanni í því umdæmi þar sem viðkomandi lést, dánarvottorðið. Sýslumaður afhendir þeim sem flytur líkið staðfest afrit dánarvottorðs og fylgir það líkinu.

Útfararþjónustur bjóða upp á að sjá um flutning milli landa og annað sem viðkemur flutningnum fyrir aðstandendur.

Tilkynningar í fjölmiðla

Æskilegt er að aðstandendur tilkynni öðrum skyldmennum og vinum hins látna um andlátið áður en dánartilkynning birtist opinberlega.

Andlát og útför er unnt að tilkynna opinberlega á þremur stöðum, í Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Minningar.is. Aðstandendur ættu að hafa í huga að nauðsynlegt er að hafa samband við fjölmiðla með góðum fyrirvara.

Andlátstilkynning birtist yfirleitt nokkrum dögum eftir andlát, en útfarartilkynning nokkru fyrir útför. Sumir kjósa að birta andlátstilkynningu og tilkynningu um útför saman.

Ef hinn látni hefur óskað eftir að útför sín fari fram í kyrrþey, er tilkynning ekki birt fyrr en að athöfn lokinni.

Útför

Útför getur ekki farið fram nema staðfesting sýslumanns á viðtöku dánarvottorðs liggi fyrir.

Útför getur verið tvenns konar:

 1. Greftrun/jarðarför. Að lokinni útfararathöfn er kistan borin til grafar og jarðsett í kirkjugarði eða óvígðum reit.

 2. Bálför. Að lokinni útfararathöfn er kistan brennd og aska hins látna sett í duftker sem ýmist er jarðsett í duftreit, ofan í leiði eða öskunni dreift.

Þegar útför fer fram í kyrrþey eru aðeins nánustu aðstandendur og vinir viðstaddir. 

Nánar um útfarir og legstaði, greftrun/bálför og dreifingu ösku

Dánarbú, réttindi og skyldur erfingja

Við andlát þarf að skipta dánarbúi. Dánarbú er lögaðili sem tekur við fjárhagslegum skyldum og réttindum sem bundin eru við persónu hins látna.

Erfingjum ber að hlutast til um skiptingu dánarbús innan fjögurra mánaða frá andláti. Fjórar leiðir koma þá til greina:

 1. Að dánarbúið sé eignalaust eða eignir dugi aðeins fyrir útfararkostnaði

 2. Maki fái leyfi til setu í óskiptu búi.

 3. Dánarbúi sé skipt einkaskiptum.

 4. Opinber skipti fari fram á dánarbúi.

Erfðaréttur byggist á frændsemi, ættleiðingu, hjúskap og erfðaskrá. Aðeins er hægt að ráðstafa þriðjungi eigna með erfðaskrá. Tveir þriðjungar skulu ganga til skylduerfingja, þ.e. maki og niðjar þess látna. Eigi maður ekki skylduerfingja getur sá hinn sami ráðstafað öllum eignum sínum með erfðaskrá.  

Ef engin erfðaskrá hefur verið gerð erfa lögerfingjar hinn látna. Lögerfingjar eru börn og aðrir niðjar, foreldrar og systkin, föðurforeldrar og móðurforeldrar og börn þeirra, og maki hins látna. Eignir hins látna renna til ríkissjóðs ef engir erfingjar eru til staðar.

Nánar um erfðamál