Fara beint í efnið

Erfðamál og dánarbú

Þegar einstaklingur deyr verður til dánarbú sem tekur við fjárhagslegum skyldum og réttindum látna. Tilkynna þarf andlát til sýslumanns eins fljótt og kostur er.

Sýslumaður fer með forræði á dánarbúi frá andláti þar til skipti á dánarbúinu hefjast. Á því tímabili getur hann einn gert ráðstafanir með eignir dánarbúsins. Erfingjum er ekki heimilt að gera ráðstafanir með eignir dánarbúsins, svo sem selja fasteign.

Þegar andlát hefur verið tilkynnt til sýslumanns gefur hann út heimild til erfingja til að greiða útfararkostnað af bankareikningum dánarbúsins og til að afla upplýsinga um fjárhag dánarbúsins.

Útför má ekki fara fram fyrr en prestur eða annar sá, sem hana annast, fær í hendur vottorð um að andlátið hafi verið tilkynnt sýslumanni. Aðstandandi framvísar vottorðinu hjá þeim sem annast útförina.

Dánarbússkipti

Erfingjar þurfa innan fjögurra mánaða frá andláti að taka ákvörðun um dánarbússkiptin og kemur eftirfarandi til greina:

  1. Að lýsa því yfir við sýslumann að dánarbúið sé eignalaust eða eignir dugi aðeins fyrir útfararkostnaði.

  2. Maki sækir um leyfi til setu í óskiptu búi.

  3. Erfingjar óski sameiginlega eftir leyfi til einkaskipta á dánarbúinu.

  4. Erfingjar krefjist opinberra skipta á dánarbúinu.

Ef erfingjar taka ekki ákvörðun um skipti á dánarbúi innan fjögurra mánaða frá andláti skal sýslumaður senda þeim áskorunarbréf. Verði erfingjar ekki við áskorunni getur sýslumaður lokað dánarbúinu ef það er eignalaust eða krafist opinberra skipta ef dánarbúið á eignir.

Erfingjar

Arfur skiptist milli erfingja eftir erfðalögum og/eða erfðaskrá.

Lögerfingjar geta verið maki, börn látna eða afkomendur þeirra, foreldrar látna, systkin látna eða afkomendur þeirra, afi og amma látna eða börn þeirra. Sama á við um kjörforeldra og kjörbörn sem hafa verið ættleidd.

Af lögerfingjum eru maki og börn látna eða afkomendur þeirra  skylduerfingjar samkvæmt erfðalögum. Sama á við um kjörbörn sem hafa verið ættleidd.

Bréferfingjar eru einstaklingar eða lögaðilar sem taka arf samkvæmt erfðaskrá.

Milli sambúðarfólks í óvígðri sambúð er ekki erfðaréttur. Sambúðarfólk getur arfleitt hvort annað með erfðaskrá. Ef börn eða aðrir afkomendur eru til staðar má einungis ráðstafa 1/3 hluta eigna með erfðaskrá.

Ef látni á enga erfingja á lífi og hefur ekki gert erfðaskrá renna eignir hans í ríkissjóð.

Höfnun arfs

Erfingi getur hafnað arfi að hluta eða öllu leyti. Skila þarf skriflegri yfirlýsingu um höfnun arfs sem erfingi undirritar í viðurvist tveggja votta. Erfingi getur ákveðið að höfnun arfs gildi einnig fyrir sína afkomendur sem myndu taka arf í hans stað ef hann væri látinn.

Erfðaskrár

Erfðaskrá er skriflegur, formbundinn löggerningur um ráðstöfun eigna eftir andlát eða með fyrirframgreiddum arfi.

Í erfðalögum eru ýmis skilyrði um arfleiðsluhæfi, form erfðaskrár og vottun á undirritun. Sýslumenn útbúa ekki erfðaskrár og mælt er með því að sá sem ætlar að gera erfðaskrá fái aðstoð lögmanns við gerð hennar. Sama á við ef arfleifandi ætlar að afturkalla erfðaskrá sem hann hefur gert eða breyta ákvæðum hennar. Hægt er að undirrita erfðaskrá hjá lögbókanda (sýslumanni) og verður erfðaskráin þá varðveitt hjá sýslumanni.

Ef einstaklingur á hvorki maka né afkomendur má hann ráðstafa hluta eða öllum eignum sínum með erfðaskrá. Ef maki eða afkomendur eru til staðar má einungis ráðstafa 1/3 hluta eigna með erfðaskrá.

Hjón geta ákveðið í erfðaskrá að það sem lengur lifir hafi heimild til að sitja í óskiptu búi svo lengi sem það óskar. Hægt er að ákveða í erfðaskrá að arfur, þar á meðal skylduarfur, skuli vera séreign í hjúskap erfingja.

Fyrirframgreiddur arfur

Einstaklingur (arfleifandi) sem vill fyrir andlát sitt ráðstafa hluta eða öllum eignum sínum til erfingja sinna getur gert það með fyrirframgreiðslu arfs.

Fylla þarf út erfðafjárskýrslu vegna fyrirframgreiðslu arfs og skila henni undirritaðri til sýslumanns þar sem arfláti á lögheimili. Bæði arfláti og erfingjar verða að undirrita skýrsluna.

Ef erfingi er ólögráða þarf lögráðamaður hans að fá samþykki yfirlögráðanda (sýslumanns).

Eftir að erfðafjárskattur hefur verið greiddur er hægt að fá áritun sýslumanns á erfðaskiptayfirlýsingu sem þarf til að skrá eignir á erfingja. Þinglýsing erfðaskiptayfirlýsingar vegna fasteignar fer fram hjá því sýslumannsembætti þar sem fasteignin er.

Afsal arfs

Erfingi getur afsalað sér arftökurétti í hendur þeim, sem hann á arfsvon að, að hluta eða öllu leyti. Yfirlýsing um afsal arfs þarf að vera undirrituð af arfleifanda og erfingja. Ef ekki er annars getið, skuldbindur afsal afkomendur þess, er afsalar sér arfi, eins og hann sjálfan.

Erfðafjárskýrsla og erfðafjárskattur

Við afhendingu á fyrirframgreiddum arfi eða lok skipta á dánarbúi þarf að fylla út erfðafjárskýrslu og skila til sýslumanns þar sem skiptin fara fram.

Erfðafjárskýrsla er eyðublað til að reikna út skattstofn erfðafjárskatts og erfðafjárskatt á erfingja. Eyðublaðið reiknar sjálfkrafa allar fjárhæðir þegar upplýsingar um dánardag, eignir, skuldir og arfshlutföll hafa verið fylltar inn.

Á erfðafjárskýrslu vegna fyrirframgreiðslu arfs á eingöngu að fylla út eignir sem er verið að afhenda með fyrirframgreiddum arfi.

Maki í hjónabandi greiðir engan erfðafjárskatt. Sama gildir um sambúðarmaka sem stofnað hefur til óvígðrar sambúðar við arfleifanda og tekur arf eftir hann samkvæmt erfðaskrá. Geta þarf um stöðu sambúðarmaka í erfðaskrá. 

Ekki er greiddur erfðafjárskattur af lífeyrissparnaði sem fellur til erfingja samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda greiðist tekjuskattur af lífeyrissparnaðinum við úttekt.

Ekki þarf að greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til félaga, sjóða og stofnana sem ekki reka atvinnu og hafa það eina markmið að verja hagnaði sínum til almannaheilla samkvæmt samþykktum sínum og eru skráðir á sérstaka almannaheillaskrá hjá Skattinum.

Aðrir erfingjar greiða erfðafjárskatt af þeirri fjárhæð sem er umfram skattfrelsismörk. Erfingjar njóta skattfrelsis í hlutfalli við arf sinn.

Ábyrgð á skuldum látna

Athygli er vakin á því að með því að fá leyfi til einkaskipta taka erfingjar að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku.

Ef dánarbú fer í opinber skipti þurfa erfingjar ekki að taka ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins.

Eftirlifandi maki sem fær leyfi til setu í óskiptu búi tekur persónulega ábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbúsins.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15