Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Erfðamál, upplýsingar um réttindi og skyldur erfingja

Við andlát þarf að skipta dánarbúi samkvæmt lögum. Dánarbú er lögaðili sem tekur við fjárhagslegum skyldum og réttindum sem bundin eru við persónu hins látna.

Dánarbú

Erfingjum ber að hlutast til um skiptingu dánarbús innan fjögurra mánaða frá andláti. Fjórar leiðir koma til greina:

 1. Að dánarbúið sé eignalaust eða eignir dugi aðeins fyrir útfararkostnaði.

 2. Maki fær leyfi til setu í óskiptu búi.

 3. Dánarbúi er skipt einkaskiptum.

 4. Opinber skipti fara fram á dánarbúi.

Aðkoma sýslumanns

Ef erfingjar sinna ekki skyldu sinni um skiptingu bús á sýslumaður samkvæmt lögum að hvetja þá til að hefjast handa. Verði erfingjar ekki við áskorun hans getur sýslumaður krafist opinberra skipta á dánarbúinu. Þá getur hver og einn af erfingjum einnig krafist opinberra skipta meðal annars ef erfingjar eru ekki sammála um skiptin.

Sýslumaður sem dánarbússkiptin heyra undir hefur einn ráðstöfunarrétt og svarar fyrir skyldur búsins þar til:

 • skiptum er lokið vegna eignaleysis hins látna,

 • eftirlifandi maki fær leyfi til að sitja í óskiptu búi,

 • erfingjar fá leyfi til einkaskipta,

 • dánarbúið er tekið til opinberra skipta.

Erfingjar mega ekki gera neinar ráðstafanir um hagsmuni dánarbúsins nema þeir hafi áður fengið leyfi sýslumanns til einkaskipta. Maki sem hefur leyfi til setu í óskiptu búi ræður þó einn yfir búinu.

Framtalsskylda dánarbús hvílir á erfingjum.

Erfðaréttur, erfðaskrá og skipti

Erfðaréttur byggist á frændsemi, ættleiðingu, hjúskap og erfðaskrá hins látna. Eignir hins látna renna til ríkissjóðs ef engir erfingjar eru til staðar.

Milli sambúðarfólks er ekki gagnkvæmur lögbundinn erfðaréttur. Sambúðarfólk getur arfleitt hvort annað með erfðaskrá.

Erfðaskrá er skriflegur, formbundinn löggerningur sem hver sá sem er andlega heill, orðinn 18 ára eða hefur stofnað til hjúskapar getur gert til að ráðstafa eignum sínum eftir andlát. Strangar reglur gilda um form erfðaskráa og um hvernig á að standa að vottun þeirra. Erfðaskrá kann að vera metin ógild ef ekki er eftir þeim reglum farið. Hægt er að breyta erfðaskrá eða auka við hana en við breytinguna verður að fylgja sömu reglum.

Ef fleiri en ein erfðaskrá eru til staðar og allar teljast gildar samkvæmt lögum er það sú yngsta sem fara skal eftir, ef þær stangast á.

Réttur skylduerfingja

Þau sem eiga maka, börn eða aðra niðja á lífi geta aðeins ráðstafað þriðjungi hluta eigna sinna með erfðaskrá. Tveir þriðjungar hlutar skulu ganga til skylduerfingja. Eigi einstaklingur ekki skylduerfingja, það er maka eða niðja á lífi getur sá hinn sami ráðstafað öllum eignum sínum með erfðaskrá.

Fyrirframgreiddur arfur er arfur sem maður á lífi greiðir erfingja sínum. Ganga þarf frá honum með formlegum hætti og greiða erfðafjárskatt.

Sá sem á arf í vændum getur afsalað sér honum og bindur afsalið einnig niðja hans nema annað sé tekið fram.

Lögerfingjar eru þeir sem erfa hinn látna ef engin erfðaskrá hefur verið gerð. Þeir eru:

 1. Börn hins látna og aðrir niðjar.

 2. Foreldrar hins látna og systkin.

 3. Föðurforeldrar og móðurforeldrar hins látna og börn þeirra.

 4. Maki hins látna.

Skylduerfingjar eru aðeins maki og niðjar hins látna, ekki aðrir lögerfingjar.

Kjörbörn taka arf á sama hátt og kynbörn. Fósturbörn og stjúpbörn hafa ekki lögerfðarétt eftir fósturforeldri eða stjúpforeldri.

Bréferfingjar eru þau sem taka arf samkvæmt erfðaskrá eða dánargjöf.

Eftirlifandi maki þarf ekki að leita eftir samþykki sameiginlegra afkomenda sinna og hins látna til að sitja í óskiptu búi. Ef hinn látni átti börn/niðja sem eru ekki börn/niðjar eftirlifandi maka þarf samþykki þeirra til setu í óskiptu búi. Gift fólk getur gert erfðaskrá sem breytir þessu. Maki sem situr í óskiptu búi ræður yfir búinu og ber einnig persónulega ábyrgð á skuldum hins látna.

Eftirlifandi sambýlingur getur ekki setið í óskiptu búi.

Erfingjar verða ekki sjálfkrafa ábyrgir fyrir skuldum hins látna.

Erfingjar sem eru sammála um hvernig búi skuli skipt og vilja taka á sig persónulega ábyrgð á skuldum hins látna geta skipt búi einkaskiptum. Sótt er um leyfi til einkaskipta hjá sýslumönnum.

Andlát og dánarbú á vef sýslumanna
Framtalsskylda dánarbúa á vef rsk.is

Erfðafjárskattur, eignir og skuldir

Eftirlifandi maki eða sambýlingur sem tekur arf samkvæmt erfðaskrá greiðir ekki erfðafjárskatt. Hins vegar greiða aðrir erfingjar erfðafjárskatt af því sem þeir fá í arf og verða þeir að fylla út erfðafjárskýrslu.

Eftir að erfðafjárskattur hefur verið greiddur geta erfingjar fengið áritun sýslumanns á skjöl sem þarf til að skrá eignir hins látna á þeirra nöfn.

Mat á verðmætum

Þegar eignir hins látna eru metnar vegna erfðafjárskatts skal miða við markaðsvirði þeirra á dánardegi. Fasteignir skulu taldar til eignar á fasteignamatsverði eins og það var skráð hjá Þjóðskrá Íslands á dánardegi. Ef markaðsverðmæti fasteignar er talið lægra geta erfingjar óskað eftir nýju mati. Verðbréf skráð á verðbréfamarkaði skulu teljast til eignar á kaupgengi eins og það var skráð við síðustu lokun markaðar fyrir andlát. Ef hlutbréf í félagi eru ekki skráð á verðbréfamarkaði skal miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð samkvæmt síðasta endurskoðaða ársfjórðungi eða árshlutareikningi félagsins.

Skuldir hins látna, þar með talið væntanleg opinber gjöld koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður. Einnig útfararkostnaður og nauðsynlegur kostnaður við búskiptin.

Bætur og lífeyrir

Eftirlifandi maki eða sambýlingur og börn innan 18 ára aldurs geta, að uppfylltum vissum skilyrðum, átt rétt á bótum og lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum og stéttarfélögum eða tryggingarfé frá tryggingafélögum. Eftirlifendur verða sjálfir að hafa frumkvæði að því að sækja um slíkt.

Eftirlifandi maki eða sambýlingur getur sótt um niðurfellingu eða lækkun á ýmsum sköttum og gjöldum hjá ríkisskattstjóra og heimasveitarfélagi.

Ýmis konar vottorð og gögn þurfa að fylgja öllum umsóknum og því mikilvægt að taka ljósrit af öllum opinberum pappírum.

Sjálfsagt er og jafnvel nauðsynlegt að leita eftir aðstoð sérfróðra þegar gengið er frá erfðaskrá og skiptingu dánarbúa.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir

Þjónustuaðili

Sýslu­menn