Erfingjum er heimilt að skipta dánarbúi sjálfir og kallast það einkaskipti dánarbús. Einkaskiptum þarf að vera lokið innan árs frá andláti. Við einkaskipti þurfa erfingjar, allir sem einn, að vera sammála um hvernig eignum, skuldum og skuldbindingum dánarbúsins verður skipt.
Náist ekki samkomulag geta erfingjar farið fram á opinber skipti dánarbúsins.
Kostnaður og skattur
Skiptagjald er 12.000 kr, greiðist í ríkissjóð samhliða greiðslu erfðafjárskatts
Erfðafjárskattur er 10%. Enginn skattur greiðist þó af fyrstu 5 milljónunum af skattstofni miðað við lög um erfðafjárskatt frá 1. janúar 2021. Frítekjumarkið var áður 1.5 milljónir.
Ferlið
Tilkynning um andlát
Fyrsta skref er að tilkynna andlát.
Við það fær aðstandandi heimild frá sýslumanni til þess að afla upplýsinga um dánarbúið. Erfingjum eru gefnir 4 mánuðir til þess að afla þessara upplýsinga.
Eignir og skuldir búsins
Það sem þarf að kanna er:
eignir á dánardegi, kannað með því að sækja skattframtal og fleira
skuldir samkvæmt skattframtali
staða á bankareikningum
var hinn látni ábyrgðarmaður á námslánum
var hinn látni líftryggður, líftrygging er hluti af búinu
borgaði hinn látni í séreignarsjóði
Í þeim tilfellum þar sem skuldir hins látna eru meiri en eignir þá geta erfingjar tekið yfir skuldirnar eða lýst yfir eignalausu búi.
Erfingjar geta afsalað sér arfi sem þeir eiga í vændum. Afsalið bindur þá einnig niðja hans nema annað sé tekið fram.
Beiðni um einkaskipti
Þegar eignir og skuldir liggja fyrir þarf að fylla út beiðni um leyfi til einkaskipta og skila inn til sýslumanns ásamt nauðsynlegum fylgigögn.
Sýslumaður fer yfir beiðnina og fylgigögnin. Hann athugar hvort að allir erfingjar hafi skrifað undir, sem og umboðsmenn eða málsvari. Ef ekkert vantar í beiðnina gefur sýslumaður út leyfi til einkaskipta. Frestur til að ljúka skiptum er eitt ár frá andláti.
Ráðstöfun eigna
Erfingjanum er þá heimilt að ráðstafa eignum og fjármunum dánarbúsins.
Ef fasteign í eigu dánarbús er seld þarf afrit af einkaskiptaleyfi að fylgja með sölugögnum.
Ef um ökutæki er að ræða þarf afrit af einkaskiptaleyfi að fylgja með eigendaskráningunni.
Lok einkaskipta
Innan árs frá andláti þarf að skila erfðafjárskýrslu til sýslumanns.
Fylgigögn með henni eru meðal annars:
yfirlit yfir innstæðu á bankareikningum á dánardegi
reikningar vegna útfararkostnaðar
3 síðustu skattframtöl
staðfestingar á sölu ef eignir hafa verið seldar úr dánarbúinu, til dæmis kaupsamningar eða tilkynningar um eigendaskipti
skiptayfirlýsingar fyrir eignir sem skipt er milli erfingja, ef hlutfall er misjafnt milli erfingja þarf að fylgja einkaskiptagerð
Sýslumaður skoðar erfðafjárskýsluna og leggur erfðafjárskatt á þegar við á.
Greiðsla skatts og skiptagjalds
Við lok einkaskipta á dánarbúi þarf að greiða skiptagjald til ríkissjóðs samhliða greiðslu erfðafjárskatts.
Sýslumenn
Sýslumenn