Fara beint í efnið

Stafrænt pósthólf

Einstaklingar og lögaðilar eiga sitt stafræna pósthólf. Þar eru birtar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til einstaklinga og fyrirtækja.

Efnisyfirlit

Listi yfir aðila og gögn sem þeir birta í stafræna pósthólfinu.

Mitt stafræna pósthólf

Stafrænt pósthólf - kynningarmyndband

Stafræna spjallið, myndband - Stafrænt pósthólf Ísland.is

Samkvæmt þriggja ára áætlun og lögum um stafrænt pósthólf er öllum opinberum aðilum skylt að bjóða uppá stafrænar birtingar eigi síðar en 1. janúar 2025. Með lögunum er fest í sessi sýn stjórnvalda um að meginboðleið samskipta við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað, gegnum Stafrænt pósthólf á Ísland.is.

Unnin hefur verið áætlun um innleiðingu stafræna pósthólfsins fyrir stofnanir sem miðar að því að árið 2025 geti einstaklingar og fyrirtæki nálgast öll helstu gögn frá hinu opinbera í pósthólfinu.

Stafræna pósthólfið er lokað svæði á Ísland.is. Þar eru birtar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til einstaklinga og fyrirtækja. Allir einstaklingar og fyrirtæki með íslenska kennitölu (líka kerfiskennitölu) eiga sitt pósthólf.

Hvernig opnar fyrirtæki sitt stafræna pósthólf?

Prókúruhafar fyrirtækja opna pósthólfið með sínum persónulegu rafrænu skilríkjum og skipta yfir á fyrirtækið á Mínum síðum Ísland.is. Prókúruhafi getur veitt öðrum í fyrirtækinu aðgang að pósthólfinu. Skatturinn sér um skráningu á prókúruhöfum.

Pósthólf fyrir einstaklinga

Af hverju stafrænt pósthólf?

Að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga og lögaðila.

Að meginboðleið stjórnvalda við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað.

Tegundir gagna

Opinberir aðilar skulu birta allt efni sem varðar sértæka hagsmuni einstaklings eða lögaðila, sem birta á fyrir viðkomandi, í pósthólfinu. Þetta á við um hvers konar gögn jafnt rituð sem í öðru formi, sem verða til við meðferð máls hjá stjórnvöldum, svo sem tilkynningar, ákvarðanir og úrskurði.  

Í pósthólfinu skal ekki birta auglýsingaefni eða annað efni sem ekki varðar með einhverjum hætti sértæka hagsmuni eiganda pósthólfsins. Þar er til að mynda vísað til upplýsinga um breyttan opnunartíma, fréttabréf, kannanir, áskoranir til almennings eða almennar ábendingar um fresti til að skila gögnum. 

Opinberum aðilum er heimilt að birta í stafrænu pósthólfi bæði almennar og viðkvæmar persónuupplýsingar einstaklinga eins og þær eru skilgreindar í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Réttaráhrif birtingar

Gagn í stafrænu pósthólfi telst birt þegar það er orðið aðgengilegt í stafrænu pósthólfi viðtakanda.

Gögn barna

Forsjáraðilar hafa aðgang að gögnum barna sinna í stafrænu pósthólfi að 18 ára aldri, að undanskildum gögnum er varða heilsu eða dómsmál. Þeim gögnum hafa forsjáraðilar einungis aðgang að til 16 ára aldurs.

Hvað með þá sem vilja ekki stafrænt?

Einstaklingar og lögaðilar geta óskað eftir því við opinbera aðila að fá gögn á annan hátt en í stafrænt pósthólf. Þeir sem vilja óska eftir því geta gert það með því að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á Mínar síður á Ísland.is eða óskað eftir því í persónu í þjónustumiðstöð sýslumanna. Gögnin verða þó áfram aðgengileg stafrænt.

Ávinningur fyrir stofnun

  • Notendavæn birting á miðlægu vefsvæði sem og í appi

  • Sparar pappírs og sendingarkostnað

  • Auka skilvirkni, hagkvæmni og öryggi gagna einstaklinga og lögaðila

  • Gagn í stafrænu pósthólfi telst birt þegar það er orðið aðgengilegt í stafrænu pósthólfi viðtakanda

  • Stuðla að því að meginsamskiptaleið stjórnvalda við þessa aðila verði stafræn

Hnipp

Hnipp er þjónusta sem skjalaveitum stendur til boða til að láta viðtakendur vita með tölvupósti að nýtt skjal bíði þeirra í pósthólfi.

Viðtakendur geta tekið afstöðu til hnipps í stillingum efst í hægra horni á mínum síðum/pósthólfi. Hnippt er með tölvupósti:

  • EF skjalaveita (sendandi) óskar

  • OG viðtakandi hefur ekki afþakkað hnipp.

Hvað þarf stofnun að gera?

  • Senda inn umsókn um samstarf á Stafrænt Ísland með upplýsingum um tæknilegan tengilið

  • Tengja skjalaveitu við Strauminn (x-road)

  • Stofnun ber ábyrgð á birtingu og hýsingu gagna og þarf því að tryggja þeim öruggt rekstrarumhverfi

Hlutverk Stafræns Íslands

  • Aðstoðar við tengingar skjalaveitu og þá forritun sem þarf til

  • Sér um rekstur pósthólfsins en geymir engin gögn

Spurt og svarað

Upplýsingar fyrir stofnanir

Upplýsingar fyrir einstaklinga

Þjónustuskilmálar

Fjármála og efnahagsráðuneytið er rekstraraðili stafræns pósthólfs. Með því að tengjast stafrænu pósthólfi gerast opinberir aðilar og aðrir aðilar sem til þess hafa leyfi samkvæmt reglugerð um stafrænt pósthólf, svokallaðir birtingaraðilar í því.

Lesa þjónustuskilmála stafræns pósthólfs