Vegvísir Stafræna pósthólfsins
Hér má finna vegvísi Stafræna pósthólfsins fyrir næstu 12 mánuði — stutt yfirlit yfir viðbætur og tæknilegar úrbætur sem við höfum áhuga á að innleiða. Fylgstu með framvindunni hér þegar hver áfangi verður að veruleika.
Verkefnum lokið
Yfirlit yfir þau verkefni sem eru kláruð.

Aðgerðir með skjali - Lokið haust 2025
Stofnanir geti skilgreint aðgerðir sem fylgja með skjölum sem send eru í Stafræna pósthólfið. Aðgerðirnar birtast notandanum ásamt skjalinu og geta falið í sér að beina notandanum á nánari upplýsingar, sækja annað viðhengi með skjalinu eða bregðast við með öðrum hætti. Þetta eykur gagnvirkni og dregur úr þörf á sérstöku erindi eða samskiptum í kjölfar sendingar.

Tölfræði stofnana í Stjórnborði Ísland.is - Lokið haust 2025
Tölfræði í Stjórnborði Ísland.is veitir stofnunum greinargóða innsýn í sínar skjalaveitur og innsendingar. Þar má meðal annars sjá fjölda sendra og opnaðra skjala per skjalaveitu, villur í sendingum og áætlaðan ávinning í krónum. Þessi gögn hjálpa stofnunum að fylgjast með árangri í birtingum skjala í Stafræna pósthólfinu.
Verkefni í vinnslu
Yfirlit yfir þau verkefni sem eru nú þegar í vinnslu.

Gagnvirk samskipti
Gagnvirk samskipti gera notendum kleift að svara eða koma á framfæri upplýsingum beint í gegnum Stafræna pósthólfið sitt – án þess að þurfa að heimsækja önnur vefsvæði. Þetta einfaldar samskipti milli stofnana og almennings, eykur skilvirkni og tryggir örugg og persónuleg samskipti í stafrænu umhverfi. Opinberar stofnanir sem hafa innleitt Þjónustukerfi Stafræns Ísland munu hafa möguleika á að stilla hvaða erindum í pósthólfinu verður hægt að svara.

Vefþjónustuaðgangur stofnana
Opinberar stofnanir munu geta fengið vefþjónustuaðgang að Stafræna pósthólfinu, sem gerir þeim kleift að samþætta eigin kerfi við pósthólfið með öruggum hætti. Með þessum aðgangi geta stofnanir sótt erindi beint í pósthólfið án þess að nota notendaviðmótið á Ísland.is. Þetta eykur sjálfvirkni, einfaldar ferla og sparar tíma fyrir stórar stofnanir sem fá mikið af opinberum erindum inn í pósthólfið.
Verkefni næst á dagskrá
Yfirlit yfir þau verkefni sem fara næst í vinnslu

Skipulag með möppum
Notendur geti búið til sínar eigin möppur í Stafræna pósthólfinu til að halda utan um skjöl á skipulagðan hátt. Þetta eykur yfirsýn, bætir notendaupplifun og auðveldar leit að eldri skjölum.

Sækja mörg skjöl
Notendur geta valið mörg skjöl í einu og hlaðið þeim niður með einni aðgerð. Þetta einfaldar vinnu þegar margir póstar þurfa að vera vistaðir, prentaðir eða varðveittir.
Ótímasett verkefni
Þörf verkefni sem hafa verið skilgreind en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvenær unnið verður að þeim.

Áframsenda skjal
Notendur geti áframsent skjöl úr Stafræna pósthólfinu til traustra viðtakenda með öruggum hætti. Þetta er gagnlegt þegar skjöl þarf að deila með öðrum einstaklingum eða fyrirtækjum án þess að gefa umboð að öllu pósthólfinu.
