Fara beint í efnið

Opinber skipti dánarbús

Opinber skipti eru þegar þriðji aðili er fenginn til að skipta eignum dánarbús. 

Þegar erfingjar sjá sjálfir um skiptin kallast það einkaskipti dánarbúa.

Opinber skipti eru gerð þegar

  • erfingjar aðhafast ekki við einkaskipti innan árs frá andláti.

  • erfingjar fara fram á opinber skipti búsins til dæmis vegna þess að eignir þess duga ekki fyrir skuldum, erfingjar treysta sér ekki til að taka ábyrgð á skuldum eða eru ekki sammála um skiptin

Hver erfingi fyrir sig á rétt á því að krefjast þess að opinber skipti fari fram og nægir að einn þeirra biðji um það.

Kostnaður og skattur

  • Þingfestingargjald fyrir opinber skipti er 19.000 krónur.

  • Laun skiptastjóra eru greidd af eignum dánarbúsins ef einhverjar eru.

  • Erfðafjárskattur er 10% af öllum eignum umfram frítekjumarkið sem er 5.255.000 krónur frá 1. janúar 2022. Af dánarbúum sem stofnuðust 1. janúar 2011 til 31. desember 2020 greiðist
    ekki erfðafjárskattur af fyrstu 1.500.000 krónum. Af dánarbúum sem stofnuðust 1. janúar 2021 til 31. desember 2021 greiðist ekki erfðafjárskattur af fyrstu 5.000.000 krónum

Ferlið

Áskorun um skipti dánarbús

Fjórum mánuðum frá andláti fá erfingjar áskorunarbréf um að hefjast handa við skipti dánarbúsins. Náist ekki samstaða um skiptin eða kjósi þeir af öðrum ástæðum að óska eftir opinberum skiptum er beiðni send til héraðsdómstóls í því umdæmi sem hinn látni átti síðast heima. Beiðnin er tekin fyrir og úrskurðað um hana.

Aðhafist þeir ekki innan árs frá andláti kallar sýslumaður eftir gögnum um eignir og skuldir búsins og tekur ákvörðun um hvort lýsa eigi yfir eignalausu búi eða fara fram á opinber skipti. 

Bú sem innihalda eignir og skuldir

Séu til eignir og skuldir í búinu gerir sýslumaður kröfu um opinber skipti og héraðsdómur skipar í framhaldinu skiptastjóra. Skiptastjóri sér um að gera erfðafjárskýrslu fyrir búið. Erfingjar geta mætt við þingfestingu máls í héraðsdómi og óskað eftir ákveðnum skiptastjóra. 

Skiptastjóri skoðar eignir og skuldir búsins og fundar með erfingjum eins og þörf krefur. 

  • Erfingjar geta afsalað sér arfi sem þeir eiga í vændum. Afsalið bindur þá einnig niðja hans nema annað sé tekið fram.

  • Erfingjar geta lýst yfir að þeir taki ekki ábyrgð á skuldbindingum búsins.

Ef erfingjar lýsa því yfir að þeir taki ekki ábyrgð á skuldbindingum búsins gefur skiptastjóri út innköllun sem birt er tvisvar sinnum í Lögbirtingarblaði. Í innköllun er skorað á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða frá því að innköllunin birtist í fyrra skiptið.

Skiptastjóri þarf samþykki allra erfingja á erfðafjárskýrslunni. Sé um fasteign að ræða í búinu gerir hann skiptayfirlýsingu með erfingjum.

Lok opinberra skipta

Opinberum skiptum getur lokið á tvenna vegu

Með úthlutun arfs til erfingja

Þegar skiptastjóri hefur lokið við að greiða allar kröfur á hendur dánarbúi eða tekið frá fjármuni til þess að mæta þeim getur hann lokið opinberum skiptum með úthlutun til erfingja og greitt erfðafjárskattinn. 

Án úthlutunar arfs

Hafi erfingjar lýst yfir að þeir taki ekki ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins við opinber skipti og það kemur í ljós að eignir búsins duga ekki fyrir skuldum þá fer fram úthlutun upp í kröfur eins og um þrotabú væri að ræða. Dánarbúið er þá meðhöndlað eins og gjaldþrotabú.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn