Fara beint í efnið

Eignalaust dánarbú

Yfirlýsing um eignalaust dánarbú

Dánarbú er eignalaust ef látni átti ekki eignir umfram útfararkostnað á dánardegi. Með eignum er átt við fasteign, ökutæki, bankainnstæður og fleira.

Einungis er horft á heildareignir dánarbúsins án tillits til skulda. Eignir látna verða notaðar til að greiða útfararkostnað.

Erfingi getur fengið heimild hjá sýslumanni til að afla upplýsinga um eignir og skuldir dánarbúsins svo sem hjá bönkum. Í skattframtali hins látna er að finna yfirlit yfir eignir.

Þegar dánarbúi er lokið sem eignalausu bera erfingjar ekki ábyrgð á skuldum látna.

Um staðfestingu eignaleysis

Erfingi eða tilkynnandi andláts þarf að fylla út yfirlýsingu hjá sýslumanni um eignaleysi dánarbús innan fjögurra mánaða frá andláti. Hér að ofan er hægt að fylla út yfirlýsingu og undirrita rafrænt. Skila þarf inn eftirfarandi gögnum sem staðfesta eignaleysi:

  • Yfirlit um stöðu bankareikninga á dánardegi.

  • Önnur gögn ef við á, til dæmis verðmat á bifreið. 

Þegar sýslumaður hefur móttekið yfirlýsingu um eignaleysi fer hann yfir hvort skilyrði eru til þess að ljúka skiptum á búinu sem eignalausu.

Ef dánarbúið á fasteign eða ökutæki með áhvílandi lánum þarf sýslumaður að meta sérstaklega hvort eignin verði framseld upp í útfararkostnað. Sá sem lýsir yfir eignaleysi þarf þá að taka ábyrgð á þeim lánum sem hvíla á eigninni.

Ef skilyrðin eru uppfyllt gefur sýslumaður út staðfestingu á eignaleysi. Sá sem lýsti yfir eignaleysi fær allar eignir dánarbúsins framseldar til að greiða útfararkostnað. Eftir það getur hann til dæmis selt ökutæki látna.

Staðfesting er send til erfingja í stafrænt pósthólf á Ísland.is.

Ekkert gjald þarf að greiða fyrir staðfestingu á eignaleysi dánarbús.

Hafi látni átt rétt á útfararstyrk er hægt að framvísa staðfestingu á eignaleysi hjá stéttarfélagi eða félagsþjónustu sveitarfélaga.

Hvað gerist ef sýslumaður samþykkir ekki yfirlýsingu um eignaleysi?

Ef sýslumaður telur verðmæti eigna vera meira en útfararkostnað þurfa erfingjar að gera eitthvað af eftirtöldu:

  1. Óska sameiginlega eftir leyfi til einkaskipta á dánarbúinu.

  2. Maki, ef hann er til staðar, að sækja um leyfi til setu í óskiptu búi.

  3. Krefjast opinberra skipta á dánarbúinu.

Yfirlýsing um eignalaust dánarbú

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15