Fara beint í efnið

Seta í óskiptu búi

Beiðni um leyfi til setu í óskiptu búi

Ef einstaklingur var í hjónabandi þegar hann lést, getur eftirlifandi maki hans sótt um leyfi til setu í óskiptu búi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Þá er því frestað að skipta eignum og skuldum hins látna á milli erfingja og eftirlifandi maki tekur við þeim. 

Leyfið felur í sér að eftirlifandi maki:

  • ræður einn yfir eignum sínum og hins látna

  • tekur á sig ábyrgð á öllum skuldum hins látna

  • þarf ekki að fá leyfi annarra erfingja til að ráðstafa eignum

  • á að gæta þess að rýra ekki eignir búsins

Seta í óskiptu búi samkvæmt erfðaskrá

Ef hjón hafa gert með sér erfðaskrá þar sem kemur fram að skipti á búinu eigi að fara fram að viðkomandi látnum, verður ekki veitt leyfi til setu í óskiptu búi. 

Ef maka er veittur réttur til setu í óskiptu búi samkvæmt erfðaskrá hins látna, þá þarf hann ekki samþykki stjúpbarna til þess að nýta sér þann rétt. 

Seta í óskiptu búi með börnum hins látna

Ef hinn látni og eftirlifandi maki áttu einungis sameiginlega afkomendur, þá á makinn rétt á að sitja í óskiptu búi með þeim og þarf ekki samþykki afkomenda til þess.

Ef hinn látni átti börn sem ekki eru börn eftirlifandi maka gildir eftirfarandi: 

Ef eftirlifandi maki fer með forsjá barna hins látna þá þarf hann ekki samþykki þeirra til setu í óskiptu búi. 

Ef eftirlifandi maki fer ekki með forsjá barna hins látna þarf samþykki lögráðamanna barnanna til setu í óskiptu búi. 

Ef börn hins látna eru fjárráða þarf makinn samþykki þeirra til setu í óskiptu búi.

Ferlið

Fylla þarf út beiðni um setu í óskiptu búi innan fjögurra mánaða frá andláti. Þar þurfa meðal annars að koma fram upplýsingar um eignir og skuldir búsins, en eignir þurfa að vera umfram skuldir svo hægt sé að veita leyfi til setu í óskiptu búi. 

Umsókninni þarf að fylgja samþykki barna hins látna ef það á við. 

Ef sýslumaður telur að skilyrði til setu í óskiptu búi séu fyrir hendi, gefur hann út svokallað búsetuleyfi til eftirlifandi maka. 

Makinn þarf að þinglýsa leyfinu á fasteignir og skip og færa allar aðrar eignir yfir á sitt nafn. 

Hvað getur komið í veg fyrir setu í óskiptu búi

Sambúðarmaki, það er einstaklingur sem var í sambúð með hinum látna en ekki hjónabandi, á aldrei rétt til setu í óskiptu búi. 

Hafi hjón gert með sér kaupmála og eignir hins látna verið séreignir hans þarf að koma fram í kaupmálanum að þær verði hjúskapareignir að öðru hjóna látnu svo sýslumaður geti veitt búsetuleyfi. Leyfi er ekki veitt ef makinn er gjaldþrota.

Ef makinn er sviptur fjárræði þarf samþykki sýslumanns fyrir leyfi til setu í óskiptu búi. 

Kostnaður

Ekkert gjald er tekið fyrir útgáfu leyfis til setu í óskiptu búi en greiða þarf fyrir þinglýsingu á leyfinu ef það á við.

Beiðni um leyfi til setu í óskiptu búi

Þjónustuaðili

Sýslu­menn