Eftirlifandi maki getur óskað eftir að fá leyfi til setu í óskiptu búi. Það á eingöngu við ef eftirlifandi maki og látni voru í hjónabandi.
Ætli eftirlifandi maki að setjast í óskipt bú þarf hann alltaf að sækja um það til sýslumanns.
Fylla þarf út umsókn hér að ofan. Eftirlifandi maki og eftir atvikum stjúpniðjar þurfa allir að vera með rafræn skilríki svo hægt sé að senda inn stafræna umsókn.
Mikilvægt er að fylla umsóknina út með réttum hætti. Í byrjun umsóknar eru talin upp þau gögn sem gott er að hafa við hendina þegar umsóknin er fyllt út. Upplýsingar í umsókn eru að hluta forskráðar. Nauðsynlegt er að yfirfara upplýsingar í umsókninni, lagfæra ef þær eru ekki réttar og bæta þeim við ef þær vantar.
Í umsókn þarf að skrá upplýsingar um:
alla erfingja (ekki bara maka),
hvort látni hafi gert erfðaskrá og/eða kaupmála,
allar hjúskapareignir látna og eftirlifandi maka á dánardegi, bæði á Íslandi og erlendis.
allar skuldir látna og eftirlifandi maka á dánardegi.
Ekki skal skrá séreignir látna né eftirlifandi maka í umsóknina. Ef látni átti séreignir þurfa skipti á þeim að fara fram áður en hægt er að gefa út leyfið.
Mikilvægt er að láta fylgja með öll gögn sem talin eru upp í lok umsóknar svo ekki þurfi að kalla eftir þeim sérstaklega frá umsækjanda áður en afgreiðsla umsóknar hefst.
Sýslumaður fer yfir umsóknina þegar allir hafa rafrænt undirritað umsóknina og gefur út leyfi séu skilyrði uppfyllt.
Leyfið er sent til maka í stafrænt pósthólf á Ísland.is og með bréfpósti ef leyfisbréf hefur verið þinglýst.
Ekkert gjald er tekið fyrir útgáfu leyfisins. Ef í búinu eru fasteignir, skip eða loftför þarf að þinglýsa leyfinu og greiða þinglýsingargjald, kr. 2.700. Einnig þarf eftirlifandi maki að færa allar aðrar eignir yfir á sitt nafn.
Athygli er vakin á því að útgáfa leyfis til setu í óskiptu búi felur í sér að eftirlifandi maki ber persónulega ábyrgð á skuldum látna.
Ef þú ert ekki með rafræn skilríki getur þú nálgast umsókn á PDF hér.
Leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar um leyfi til setu í óskiptu búi.
Kæruheimild
Ákvarðanir sýslumanns kunna að vera kæranlegar til héraðsdóms.
Þjónustuaðili
Sýslumenn