Vefþjónustustefna
Efnisyfirlit
Yfirlit
Gagnasamskipti í gegnum vefþjónustur eru forsenda stafrænna lausna og eru því nauðsynlegar til að bæta þjónustu ríkisins við einstaklinga og fyrirtæki.
Stofnanir ættu því að huga að því að útfæra vefþjónustur ofan á gögn sem þær bera ábyrgð á. Einnig ættu þær að skoða hvernig hægt er að auka sjálfvirkni með því að nýta sér vefþjónustur frá öðrum.
Nú þegar er búið að útfæra fjölmargar vefþjónustur sem er hægt að skoða í vörulista vefþjónusta.
Straumurinn
Straumurinn er opið gagnaflutningslag sem gerir stofnunum og fyrirtækjum kleift að skiptast á upplýsingum yfir internetið. Straumurinn byggir á X-Road sem er miðstýrt dreift gagnaskiptalag milli upplýsingakerfa. Stofnanir geta skipst á upplýsingum í gegnum netið með því að nota Strauminn til að tryggja trúnað, heilleika og samvirkni milli aðila sem eiga í gagnasamskiptum.
Strauminn auðveldar stofnunum og fyrirtækjum að aðgangsstýra sínum vefþjónustum en jafnframt fá aðgang að vefþjónustum annarra. Hægt er að veita aðgang að heilum vefþjónustum eða stökum endapunktum.
Til að setja upp Strauminn þarf að sækja um hjá Stafrænu Íslandi og fylla út umsókn um samstarf. Nánari tæknilegar upplýsingar má finna í tæknihandbók Straumsins.
Hönnun á vefþjónustum
Við mælum með að stofnanir útfæri vefþjónustur með “RESTful” högun sem byggir á einföldum HTTP og JSON fyrirspurnum. Stafrænt Ísland gefur út leiðbeiningar fyrir hönnun á vefþjónustum, en þar eru ráðleggingar um nafnavenjur, gagnatög, villumeðhöndlun, skjölun, útgáfustýringu og margt fleira.
Sérstaklega skal huga að því að skjala vefþjónustur vel með OpenAPI (e. Swagger). Það einfaldar að skrá vefþjónustuna í Strauminn, en skjölunin verður þá aðgengileg í vörulista vefþjónusta. Skjölunin er sérstaklega gagnleg fyrir forritara sem eru að innleiða vefþjónustuna, en með OpenAPI skjölun er hægt að búa sjálfkrafa til innleiðingakóða í flestum forritunarumhverfum.
Þegar kemur að útgáfustýringu þarf að gæta þess að breyta ekki vefþjónustum í raunumhverfi á þann hátt að þær brjóti innleiðingar. Breytingar á endapunktum eða eigindum sem eru ekki afturvirkar þarf að gefa út í nýrri útgáfu af vefþjónustunni á nýrri vefslóð.
Meiri upplýsingar má finna í leiðbeiningum fyrir hönnun á vefþjónustum.