Fara beint í efnið

Að fara á eftirlaun

Þegar hugað er að starfslokum er ýmislegt sem gott er að hafa í huga.

Eftirlaun og lífeyrir eldra fólks

Eftirlaun eða lífeyrir eldra fólks samanstendur af lífeyri lífeyrissjóða, ellilífeyri almannatrygginga, , viðbótarlífeyrissparnaði og öðrum sparnaði. Eftirlaun eru greidd til æviloka.

Greiðslur úr lífeyrissjóði geta skert greiðslur ellilífeyris almannatrygginga, því er mikilvægt að umsækjendur um ellilífeyri leiti ráðgjafar hjá Tryggingastofnun.

Lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar á sama hátt og launatekjur, því má einnig nýta ónýttan persónuafslátt maka.

Lífeyrir frá lífeyrissjóðum

Þau sem starfa á íslenskum vinnumarkaði ávinna sér rétt til ævilangs lífeyris með því að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð. Almenna reglan er að hægt sé að hefja töku lífeyris á aldrinum 62 til 70 ára. Lífeyrir er greiddur út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Lífeyrisaldur er ekki sá sami hjá öllum lífeyrisjóðum en flestir miða við 67 ár.

Sækja þarf um lífeyri hjá lífeyrissjóðum og er nægjanlegt að sækja um lífeyri til þess sjóðs sem greitt var til síðast eða hjá þeim sjóði, sem sjóðfélagi á mest réttindi hjá. Sjóðurinn sendir umsóknina áfram til annarra sjóða sé þess óskað.

Umsókn og réttindi er hægt að sækja á vef viðkomandi lífeyrissjóðs. Yfirlit yfir lífeyrissjóði er að finna hér

Ef einstaklingur er ekki með rafræn skilríki á Íslandi er hægt að senda fyrirspurn um réttindi til lifeyrir@greidslustofa.is

Lífeyrir frá Tryggingastofnun

Greiðslur almannatrygginga eru í hlutfalli við búsetu á Íslandi. Þau sem hafa dvalið eða starfað erlendis geta átt rétt á lífeyrisgreiðslum í viðkomandi landi.

Þau sem eru 65 ára og eldri og hafa átt lögheimili á Íslandi í minnst þrjú ár gætu átt einhvern rétt á ellilífeyri eða lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Sækja þarf um lífeyri hjá Tryggingastofnun til að greiðslur hefjist fyrsta dag næsta mánaðar eftir 67 ára afmælið. Áður en sótt er um lífeyri hjá Tryggingastofnun þarf að sækja um lífeyri hjá öllum lífeyrissjóðum sem greitt hefur verið í.

Athugið að lífeyrir frá Tryggingastofnun er tekjutengdur þannig að allar vaxtatekjur og lífeyrir frá lífeyrissjóðum hafa áhrif. Á vef Tryggingastofnunar er reiknivél þar sem hægt er að setja inn upplýsingar og sjá við hverju má búast.

Hægt er að sækja um hálfan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun á móti hálfum frá lífeyrissjóði.

Réttindi vegna búsetu erlendis

Ef samfelld dvöl erlendis er lengri en 6 mánuðir skal tilkynna um flutning lögheimilis úr landi til Þjóðskrár skv. 1. mgr. 13. gr. og tilgreina til hvaða lands er flutt. Við flutning frá Íslandi skiptir máli hvort flutt er til EES lands, Bandaríkjanna, Kanada og Sviss eða ekki og hvort samningur á sviði almannatrygginga sé til staðar á milli Íslands og viðkomandi lands. Nánari upplýsingar á vef Tryggingastofnunar.

Einstaklingar sem flytja til EES landa halda lífeyri sínum frá Tryggingastofnun en félagslegar greiðslur falla niður. Ef enginn samningur er til staðar á sviði almannatrygginga við viðkomandi land falla lífeyrisgreiðslur og aðrar greiðslur frá Tryggingastofnun niður.

Staðfesting á lífi

Á hverju ári þurfa þau sem búa erlendis og fá greiddan lífeyri frá íslenskum lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun að senda inn lífsvottorð eða staðfestingu á lífi.

Viðeigandi yfirvöld á hverjum stað; þjóðskrá, bæjarskrifstofur, skattstofa eða aðrir opinberir aðilar gefa út slíkt vottorð.

Skilafrestur er einu sinni á ári, en skoða þarf vefsíður sjóðanna til að finna út hvenær skilafrestur viðkomandi sjóðs er.

Skattur af lífeyri við búsetu erlendis

Skila þarf inn afriti af skattframtali erlendis til Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða.

Ef búið er í landi sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við og kveðið er á um að lífeyristekjur eigi að skattleggja í búseturíki, þarf viðkomandi að sækja árleg um undanþágu frá greiðslu skatta á vefsíðu Skattsins.

Lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ber að halda eftir staðgreiðslu nema samþykkt undanþága liggi fyrir.

Norðurlönd

Samkvæmt tvísköttunarsamningi Norðurlandanna skal lífeyrir skattlagður í því landi sem hann er greiddur. Allur lífeyrir sem greiddur er frá Íslandi til aðila sem búsettir eru á Norðurlöndunum er því skattlagður á Íslandi og aldrei gefnar út undanþágur.

Lífeyrir og greiðslur frá Tryggingastofnun

Þau sem fá lífeyri frá Tryggingastofnun mega ferðast til útlanda, en hámarks dvöl utan Íslands eru 6 mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.

Við flutning til annarra landa þarf að láta Tryggingastofnun vita af breyttu heimilisfangi auk breytingar á lögheimili í þjóðskrá. Greiðslur geta fallið niður ef ekki er tilkynnt um breytt heimilisfang í tíma.

Tryggingastofnun óskar eftir skattframtali frá búsetulandi árlega auk lífsvottorðs.

Tryggingastofnun sér um að millifæra greiðslur til viðskiptavina sem búa erlendis, sjá nánar á vefsíðu Tryggingastofnunar

Réttindi vegna starfa erlendis

Heimilit er að semja við önnur ríki og erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda er almannatryggingar veita. TR veitir nánari upplýsingar um réttindi erlendis og umsóknir um slíkar greiðslur. Einnig er vert að skoða upplýsingar Evrópusambandsins um eftirlaun.

Hægt er að flýta eða fresta lífeyrisgreiðslum

Með því að fresta töku ellilífeyris er hægt að hækka upphæðina um 0,5 prósent fyrir hvern mánuð sem frestað er, allt til 72 ára aldurs. Einnig er hægt að flýta töku til 65 ára, en þá lækkar upphæðin fyrir hvern mánuð sem flýtt er um.

Almennt hefja lífeyrissjóðir útborgun við 67 ára aldur, en nokkrir sjóðir miða við 65 ára aldur. Lífeyrissjóðir geta heimilað sjóðfélögum sínum að fresta töku lífeyris til 70 ára aldurs, greiðslur hækka þá eða lækka hlutfallslega.

Heimilisuppbót frá Tryggingastofnun

Eldra fólk eða lífeyrisþegar sem búa ein geta jafnframt sótt um heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Umsækjandi verður að vera einhleypur og búa einn. Einnig er heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega ef maki dvelur á hjúkrunarheimili.

Viðbótarlífeyrissparnaður

Viðbótarlífeyrissparnaður er frjáls sparnaður sem bætir hag eldra fólks og stuðlar að sveigjanleika við starfslok.

  • Töku viðbótarlífeyris má hefja þegar 60 ára aldri er náð. Hægt er að taka hann út í einu lagi eða skipta greiðslum.

  • Ef reikningseigandi á inni viðbótarsparnað eftir 67 ára aldur er val um að fá eftirstöðvarnar greiddar út með jöfnum afborgunum eða allar í einu.

Greiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði hafa ekki áhrif á lífeyrisgreiðslur. Sækja þarf um útgreiðslu á viðbótarlífeyri í séreign hjá þeim sjóði sem greitt er í.

Viðbótarsparnaður er greiddur lögerfingjum við andlát.

Nánari upplýsingar um viðbótarlífeyrissparnað á vefnum lifeyrismal.is

Skipting lífeyrisréttinda

Í lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem heimilar sjóðfélögum að semja við maka sína um gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna lífeyrisréttinda.

Lögin kveða á um þrjá möguleika í samningum hjóna og fólks í sambúð

  • a) að skipta áunnum lífeyrisréttindum,

  • b) að skipta framtíðarréttindum (iðgjaldinu) og

  • c) að skipta greiðslum þegar taka lífeyris er hafin.

Lífeyrissjóðir veita upplýsingar og ráðgjöf um skiptingu lífeyrisréttinda.

Fjármál og sérkjör fyrir eldra fólk

Með aldrinum minnkar færni margra til að sjá um fjármál sín sjálft. Þá er gott að hafa tímanlega gert ráðstafanir svo sem að veita umboð til að sjá um ákveðin mál.

Vert er að hafa í huga að rafræn skilríki þarf að endurnýja á 5 ára fresti

Ýmis sérkjör og afslættir eru í boði fyrir eldra fólk, svo sem lægri gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu, styrki Sjúkratrygginga og afslættir víða, sem vert er að kynna sér.

Algengt er að veittur sé aðgangur að heimabanka viðkomandi einstakling og prókúru á reikninga, skilum á skattaframtali, að mínum síðum hjá Tryggingastofnun og að sækja lyf í apóteki. Sá sem veitir umboð þarf að staðfesta það með rafrænni undirritun