Fara beint í efnið

Að fara á eftirlaun

Þegar hugað er að starfslokum er ýmislegt sem gott er að hafa í huga.

Efnisyfirlit

Almannatryggingar og lífeyrissjóðir

Eftirlaun samanstanda af ellilífeyri almannatrygginga, ellilífeyri lífeyrissjóða, viðbótarlífeyrissparnaði og öðrum sparnaði.

Greiðslur úr lífeyrissjóði geta skert greiðslur ellilífeyris almannatrygginga, því er mikilvægt að umsækjendur um ellilífeyri leiti ráðgjafar hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar á sama hátt og launatekjur, því má einnig nýta ónýttan persónuafslátt maka. Skila þarf inn skattkorti með umsókn til að nýta persónuafslátt.

Svona safnar þú lífeyrisréttindum

Greiðslur almannatrygginga eru í hlutfalli við búsetutíma hér á landi. Réttindi byrja að myndast við þriggja ára búsetu, en full réttindi eiga þau sem hafa búið hér í 40 ár á aldrinum 16–67 ára. Þau sem hafa dvalið eða starfað erlendis geta átt rétt á lífeyrisgreiðslum í viðkomandi landi.

Fólk sem hefur safnað lífeyrissparnaði um ævina fær eftirlaun greidd úr sínum lífeyrissjóði. Hægt er að sjá uppsöfnuð réttindi hjá lífeyrissjóðum í Lífeyrisgáttinni.

Meira um ellilífeyri á vefnum Lífeyrismál

Greiðsla lífeyris til þín hefst

Greiðslur ellilífeyris hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir 67 ára afmælið og er nauðsynlegt að sækja um ellilífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins og hjá einum lífeyrissjóði, ef það á við. Einnig er hægt að sækja um hálfan ellilífeyri hjá TR á móti hálfum frá lífeyrissjóði. Ellilífeyrir myndast sjálfkrafa hjá örorkulífeyrisþegum við 67 ára aldur.

Tryggingastofnun ríkisins sér um greiðslu lífeyris almannatrygginga og sendir tilvonandi lífeyrisþegum umsóknareyðublað skömmu áður en 67 ára aldri er náð.

Nánar um ellilífeyri á vef Tryggingastofnunar

Reiknivél lífeyris 2021 á vef Tryggingastofnunar

Hægt er að flýta eða fresta lífeyrisgreiðslum

Hægt er að hækka bótafjárhæð ellilífeyris almannatrygginga um 0,5% fyrir hvern mánuð sem frestað er, allt til 72 ára aldurs. Einnig er hægt að hefja greiðslur 65 ára, en þá lækka þær fyrir hvern mánuð sem flýtt er um.

Almennt hefja lífeyrissjóðir útborgun við 67 ára aldur, en nokkrir sjóðir miða við 65 ára aldur. Lífeyrissjóðir geta heimilað sjóðfélögum sínum að fresta töku lífeyris til 70 ára aldurs, greiðslur hækka þá eða lækka hlutfallslega.

Uppbætur ellilífeyris

Lífeyrisþegar geta átt rétt á barnalífeyri séu þeir með börn undir 18 ára aldri á framfæri sínu eða greiða meðlag með þeim.

Til að eiga rétt á heimilisuppbót verður umsækjandi að vera einhleypur og búa einn. Einnig er heimilt að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega ef maki dvelur á stofnun fyrir aldraða.

Lífeyrisuppbót er heimilt að greiða vegna umönnunarkostnaðar, lyfjakostnaðar, kaupa á heyrnartækjum, húsaleigu, dvalar á sambýli/áfangaheimili eða rafmagnskostnaðar vegna notkunar á súrefnissíu. Uppbætur eru skattfrjálsar og tekjutengdar.

Nánar um heimilisuppbót fyrir lífeyrisþega

Styrkir sem bætast við lífeyrisgreiðslur

Sækja má um styrk til kaupa og reksturs á bíl vegna hreyfihömlunar, fellur þá einnig niður bifreiðagjald. Vegna dvalar á sjúkrastofnun eða vistheimili greiðast dagpeningar falli lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar niður.

Afsláttarkort vegna heilbrigðisþjónustu er afgreitt gegn framvísun kvittana þegar árlegri hámarksupphæð er náð. Ellilífeyrisþegar fá 50–100% kostnaðar við tannlækningar endurgreiddan og geta sótt um endurgreiðslur ferðakostnaðar ef meðferð krefst langra eða ítrekaðra ferða til læknis eða á sjúkrastofnun.

Styrkur er veittur vegna kaupa á gleraugum og heyrnartækjum og Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða kaup á hjálpartækjum.

Nánar um réttindi vegna hjálpartækjakaupa í réttindagátt SÍ

Afslættir og sérkjör sem standa til boða

Víða er veittur afsláttur af vörum og þjónustu til ellilífeyrisþega. Síma- og fjölmiðlafyrirtæki veita mörg hver afslátt af áskrift og sum sveitarfélög veita afslátt af fasteignagjöldum.

Félagsmenn í félögum eldri borgara eiga kost á sérkjörum gegn framvísun félagsskírteina og innan stéttarfélaga eiga félagsmenn á eftirlaunum ýmis réttindi svo sem til styrkja úr símenntunar- og orlofssjóðum.

Viðbótarlífeyrissparnaður

Viðbótarlífeyrissparnaður er frjáls sparnaður þar sem launafólk getur lagt hluta af launum sínum til hliðar á sérstakan reikning og fengið mótframlag frá vinnuveitanda.

Útborgun getur hafist við 60 ára aldur eða síðar. Ef reikningseigandi á inni viðbótarsparnað eftir 67 ára aldur er val um að fá eftirstöðvarnar greiddar út með jöfnum afborgunum eða allar í einu.

Viðbótarsparnað má taka allan út eftir 60 ára aldur vegna örorku. Viðbótarsparnaður er greiddur lögerfingjum við andlát.

Nánari upplýsingar um viðbótarlífeyrissparnað á vefnum lifeyrismal.is