Ísland hefur gert samninga við fjölda landa til að tryggja að fólk geti flutt og starfað erlendis án þess að missa áunnin réttindi.
Þau sem hafa búið eða starfað erlendis hluta af starfsævi sinni geta því átt réttindi erlendis til viðbótar sínum íslenska lífeyri, til dæmis elli- og örorkulífeyri.
Mismunandi reglur gilda í samningslöndunum og því þarf réttur í einu landi ekki að skapa rétt í öðru landi.
Ákvæði ESB rg. nr. 883/2004, sbr. 29. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), gilda þegar einstaklingur flytur á milli EES-landa . Markmiðið að tryggja samræmda og samfellda beitingu mismunandi löggjafar aðildarríkjanna á sviði almannatrygginga og koma þannig í veg fyrir að sá sem flytur búsetu sína milli EES-landa tapi almannatryggingaréttindum sínum.
Dæmi: Einstaklingur sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna tapar þeim ekki þótt hann flytji til annars EES-lands. Áunninn réttur frá hverju landi fyrir sig greiðist út þegar lífeyrisaldri í viðkomandi landi er náð.
Í reglugerðinni eru samræmingarreglur um jafnræði, samlagningu búsetutímabila, réttindaávinnslu og um greiðslu lífeyrisréttinda milli landa.
Með EES-reglunum um almannatryggingar felst ekki að lífeyrisréttindi í einstökum aðildarríkjum skuli vera eins heldur eru þau einungis samhæfð með samræmingarreglunum.
EES-reglurnar taka til einstaklings sem heyrir/hefur heyrt undir löggjöf aðildarríkis og er EES-ríkisborgari, og aðstandenda þessa einstaklings.
EES-reglurnar taka til eftirtalinna flokka almannatrygginga:
Bætur vegna veikinda og meðgöngu og fæðingar.
Örorkubætur að meðtöldum bótum sem ætlað er að viðhalda eða auka möguleika á tekjuöflun.
Bætur vegna elli.
Bætur til eftirlifenda.
Bætur vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma.
Styrki vegna andláts.
Atvinnuleysisbætur.
Fjölskyldubætur.
EES-reglurnar taka til eftirtalinna greiðslna frá Tryggingastofnun
Bætur og greiðslur lífeyristrygginga skv. lögum um almannatryggingar, þ.m.t. ellilífeyrir, örorkulífeyrir, aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging, örorkustyrkur og barnalífeyrir.
EES-reglurnar taka ekki til greiðslna skv. lögum um félagslega aðstoð. Sama á við bætur og greiðslur í öðrum EES löndum sem teljast félagsleg aðstoð, en ekki almannatryggingar. Þá fellur meðlag ekki undir reglurnar.
Helstu meginreglur EES-reglnanna
Í rg. ESB nr. 883/2004 er að finna ákveðnar meginreglur um samræmda og samfellda beitingu löggjafar aðildarríkjanna:
Ríkisborgari eins aðildarríkis nýtur jafnræðis í öðru aðildarríki til jafns á við ríkisborgara þess ríkis.
Einstaklingur sem rg. ESB 883/2004 tekur til heyrir aðeins undir löggjöf eins aðildarríkjanna á hverjum tíma.
Taka skal til greina tryggingatímabil eða starfstímabil frá fyrra búsetulandi að því marki sem nauðsynlegt er til að öðlast tryggingaréttindi í landinu sem flutt er til.
Réttur til lífeyris ávinnst í hlutfalli við búsetutíma í hverju aðildarríki fyrir sig og skv. löggjöf þess lands.
Greiðslur þeirra bótaflokka sem rg. ESB 8883/2004 tekur til falla ekki niður þótt flutt sé til annars aðildarríkis.
Norðurlandasamningurinn gekk í gildi 1.mai 2014 (sbr. lög nr. 119/2013 ) og kemur í stað eldri samnings.
Aðilar að samningnum eru Ísland, Danmörk, Finnland (og Álandseyjar), Noregur og Svíþjóð. Færeyjar og Grænland eru aðilar að samningnum frá 1. maí 2015 en voru þann tíma sem leið frá því samningurinn tók gildi í hinum löndunum áfram aðilar að eldri samningi..
Markmið samningsins er að auðvelda flutning milli Norðurlanda og tryggja þeim sem það gera almannatryggingaréttindi.
Samningurinn tryggir að almannatryggingareglur EES samningsins taki einnig til þeirra sem búsettir eru á Norðurlöndunum en falla þó ekki undir EES reglurnar.
Hverjir falla ekki undir EES-reglurnar?
Þeir sem hafa ríkisborgararétt í landi sem ekki tilheyrir EES-svæðinu.
Þeir sem búa og eða starfa í Færeyjum, Grænlandi eða Álandseyjum (eru ekki hluti af EES-svæðinu).
Helsta atriði nýs samnings hvað Tryggingastofnun varðar er ákvæði um að löndin geri með sér tvíhliða samning um endurhæfingu og hvernig með þau mál eigi að fara
Í samningnum eru einnig nokkrar sérreglur t.d. varðandi samvinnu um endurhæfingu, heimflutning vegna veikinda, atvinnuleysistryggingar og útreikning fjölskyldubóta.
Gerður hefur verið framkvæmdasamningur með samningnum þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd hans. Í viðauka hans er m.a. að finna stutta lýsingu á helstu bótaflokkum Norðurlandanna.
Aðrir samningar
Ísland hefur gert samninga um almannatryggingar við eftirfarandi lönd utan EES.
Samningarnir eru ólíkir. Flestir fjalla aðeins um hvort þú haldir rétti til að safna lífeyrisréttindum á Íslandi á meðan þú starfar í útlöndum.
Samningur um almannatryggingar við Austurríki öðlaðist gildi 1. febrúar 1996. Ef ekki er annars getið í samningnum er gildissvið almannatryggingareglna EES samningsins rýmkað þannig að þær reglur taki einnig til allra sem heyra eða hafa heyrt undir löggjöf ríkjanna en sem EES reglurnar taka ekki til. Samningurinn hefur aðallega þýðingu fyrir ríkisborgara þriðju ríkja og einstaklinga utan vinnumarkaðar.
Samningur er til staðar á milli Íslands og Bandaríkjanna um lífeyrisgreiðslur milli landanna, þ.e. að lífeyrisréttindi tapist ekki vegna flutnings milli landanna tveggja.
Samningurinn gerir það að verkum að einstaklingur sem hefur fasta búsetu í Bandaríkjunum getur sótt um elli- og örorkulífeyri til Íslands í gegnum tengistofnun í Bandaríkjunum. TR áframsendir umsóknir til lífeyrissjóða sem einstaklingar eiga réttindi í hér á landi.
Tryggingastofnun sem tengistofnun við almannatryggingar í Bandaríkjunum sendir umsóknir um lífeyri þangað fyrir einstaklinga sem hafa fasta búsetu á Íslandi.
Ellilífeyrisþegar sem flytja til Bandaríkjanna halda greiðslum ellilífeyris.
Örorkulífeyrisþegar sem flytja til Bandaríkjanna halda grunnlífeyri og tekjutryggingu.
Greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar, t.d. heimilisuppbót og sérstök uppbót til framfærslu, eru ekki greiddar á milli landanna.
Skila þarf inn lífsvottorði og skattskýrslu árlega og hafa rétt heimilisfang.
Tilkynna þarf flutning til Þjóðskrár.
Samningur um félagslegt öryggi milli Íslands og Kanada öðlaðist gildi 1. október 1989. Megintilgangur hans er að tryggja félagslegt öryggi þeirra sem flytjast á milli Kanada og Íslands.
Samningurinn tekur til allra þeirra sem heyra eða hafa heyrt undir löggjöf samningsríkjanna, fjölskyldumeðlimi og eftirlifendur. Í samningnum eru ákvæði um jafnræði einstaklinga, greiðslu bóta úr landi, ákvæði um hvaða löggjöf skuli beita og útsenda starfsmenn, samlagningu réttindatímabila og fleira. Samningurinn tekur til hvað varðar Kanada til laga um öryggi aldraðra, kanadísku lífeyrislaganna og reglugerða skv. þeim, en hvað Ísland varðar tekur samningurinn til ákvæða almannatryggingalaga um elli- og örorkulífeyri og barnalífeyri. Þessi samningur hefur því einvörðungu þýðingu varðandi lífeyristryggingar.
Samningur um almannatryggingar við Luxemborg öðlaðist gildi 1. desember 2004. Ef ekki er annars getið í samningum er gildissvið almannatryggingareglna EES samningsins rýmkað þannig að þær reglur taki einnig til þeirra sem heyra eða hafa heyrt undir löggjöf ríkjanna en sem EES reglurnar taka ekki til. Samningurinn hefur aðallega þýðingu fyrir ríkisborgara þriðju ríkja og einstaklinga utan vinnumarkaðar.
Stofnsamningur EFTA sem gekk í gildi 2002 veitir einstaklingum að mestu leyti sömu réttindi í Sviss og þeir njóta gagnvart ESB ríkjunum á grundvelli EES samningsins.
Nýr stofnsamningur EFTA var undirritaður í Vaduz í Liechtenstein 21. júní 2001 og er oft kallaður Vaduz-samningurinn. Samningurinn öðlaðist gildi 1. júní 2002. Hann veitir íbúum og fyrirtækjum á Íslandi sams konar réttindi í Sviss og aðilar í ESB njóta samkvæmt tvíhliðasamningum Sviss og ESB. Svisslendingar öðlast jafnframt þessi réttindi á Íslandi.
Þessi réttindi eru í mörgum greinum hliðstæð við þau réttindi sem í gildi eru innan EES. M.a. geta Íslendingar notað Evrópska sjúkratryggingakortið í Sviss, krafist þess að tryggingar- eða starfstímabil frá Íslandi séu tekin til greina að því marki sem nauðsynlegt er til að fella niður eða ,,eyða” biðtíma í Sviss þegar byrjað er að vinna í Sviss eða flutt er til Sviss. Þá er hægt að fá greiðslur lífeyristrygginga greiddar úr landi til Sviss.
Þjónustuaðili
Tryggingastofnun