Fara beint í efnið

Sjúkratryggingar vegna atvinnu erlendis

Vinna í öðru EES landi

Þegar unnið er í öðru EES landi, Sviss eða Bretlandi eru það almannatryggingareglur EES samningsins sem kveða á um það undir hvaða almannatryggingalöggjöf launþeginn eða hinn sjálfstætt starfandi fellur. Einstaklingar eiga aðeins að heyra undir löggjöf eins aðildarríkis en ítarlega er fjallað um löggjöf hvaða aðildarríkis á að gilda í almannatryggingarlöggjöf EES samningsins.

  • Launþegi sem vinnur aðeins í einu EES landi, Bretlandi eða Sviss fellur yfirleitt undir almannatryggingalöggjöf starfslandsins.

  • Það gildir jafnvel þótt hann búi í öðru EES landi eins og Íslandi og einnig þótt vinnuveitandinn sé staðsettur í öðru landi en starfslandi. Sama gildir um sjálfstætt starfandi einstaklinga.

  • Sjómenn sem vinna um borð í skipi sem siglir undir EES fána, falla undir löggjöf fánalands skipsins.


Útsendir starfsmenn

Einstaklingur sem sendur er af vinnuveitanda hér á landi til að starfa tímabundið í öðru EES/EB landi getur sótt um að falla áfram undir íslenska almannatryggingakerfið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Tryggingastofnun gefur út A1 vottorð til staðfestingar á því að íslensk almannatryggingalöggjöf gildi áfram á útsendingartíma. Á grundvelli þess vottorðs á einstaklingur rétt á því að fá S1 vottorð (E-106) útgefið af Sjúkratryggingum Íslands.

Einnig er hægt að sækja um S1 vottorð fyrir maka og börn 17 ára og yngri sem flytjast með einstaklingnum erlendis.

Skilyrði fyrir útgáfu S1 vottorðs:

  • A1 vottorð frá Tryggingastofnun

  • Tryggingagjald greitt á Íslandi/skattgreiðslur á Íslandi frá íslensku fyrirtæki

  • Ríkisborgari frá EES/EB landi

Ekki er almennt gefið út S1 vottorð milli Norðurlanda.


Vinna í tveimur eða fleiri löndum til skiptis eða samtímis

Sjómenn sem ráðnir eru á skip sem siglir undir fána aðildarríkis EES og þiggja laun fyrir þá vinnu falla að öllu jöfnu undir löggjöf fánalandsins.

Einnig eru að finna margar aðrar sérreglur er varða sjómenn þó að fánalandsreglan sé hin almenna regla.

Opinberir starfsmenn

Opinberir starfsmenn falla undir sömu löggjöf og þau stjórnvöld sem þeir starfa fyrir. Íslenskir embættismenn sem starfa erlendis innan EES fyrir íslenska ríkið falla undir íslenskar almannatryggingar.

Vinna utan EES

Þegar unnið er erlendis í landi sem ekki er aðili að EES samningum og aðrir milliríkjasamningar eru ekki í gildi við viðkomandi land, getur einstaklingur sótt um að halda almannatryggingavernd sinni á grundvelli heimildar í almannatryggingalögunum.

  • Skilyrði eru meðal annars að viðkomandi starfi erlendis fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og tryggingagjald sé greitt hér á landi af launum hans.

Heimilt er að samþykkja tryggingarvernd samkvæmt þessu í allt að eitt ár. Að loknu fyrsta tímabilinu er heimilt að framlengja tryggingaskráninguna í allt að fjögur ár til viðbótar. Áður en það er gert verður að meta hvort skilyrðin séu áfram uppfyllt.

Sækja skal um staðfestingu á tryggingu þessari til Tryggingastofnun eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.

Útsendir starfsmenn

Einstaklingar sem vinna fyrir íslenskt fyrirtæki í landi utan EES/EB og milliríkjasamningur er ekki í gildi fá ekki útgefið S1 vottorð. Þeir sækja um að halda almannatryggingaréttindum sínum á Íslandi og fá þá útgefna Tryggingayfirlýsingu sem gefin er út í 1 ár og hægt að framlengja í 4 ár til viðbótar.

Skilyrði fyrir því að halda almannatryggingaréttindum á Íslandi:

  • Tryggingagjald greitt á Íslandi/skattgreiðslur á Íslandi frá íslensku fyrirtæki

  • Sækja um 4 vikum fyrir brottför

  • Tryggingastofnun setur frekari skilyrði

Þjónustuaðili

Sjúkra­trygg­ingar