Slysabætur
Einstaklingar sem lenda í bótaskyldu slysi geta átt rétt á slysabótum frá Sjúkratryggingum.
Slysabætur eru greiddar þeim sem uppfylla eftirfarandi:
Einstaklingur lendir í óvæntu slysi.
Einstaklingur er slysatryggður.
Slysið er bótaskylt samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga.
Slysið er tilkynnt tímanlega.
Slysabætur geta verið:
Fyrir útlögðum kostnaði vegna sjúkrahjálpar.
Slysadagpeningar vegna óvinnufærni.
Eingreiðsla örorku- eða miskabóta vegna varanlegs líkamstjóns
Dánarbætur vegna banaslyss
Aðrar bætur en bætur vegna varanlegs líkamstjóns greiðast tvö ár aftur í tíma frá því öll gögn bárust Sjúkratryggingum.
Slysadagpeningar greiðast einnig ef slysið leiddi til þess að viðkomandi varð ófær um að vinna.
Ef vinnuveitandi greiðir laun í slysaforföllum þá fer greiðslan til vinnuveitanda
Ef vinnuveitandi greiðir ekki laun í slysaforföllum þá fær sá sem slasaðist slysadagpeningana greidda
1. Fá nauðsynleg gögn
Áverkavottorð
Vottorðið þarf að vera frá þeim lækni eða heilbrigðisstarfsmanni sem fyrst var leitað til eftir slysið. Í því þurfa að koma fram upplýsingar um:
Fyrstu komu vegna slyssins.
Tímabil óvinnufærni.
Framhaldsmeðferð.
Ef farið var til Landspítala er hægt að skila bráðamóttökuskrá í stað áverkavottorðs (hægt að sækja á vefsíðu Landspítala).
Annað
Vegna banaslysa þarf að skila lögregluskýrslu ef hún er til.
Vegna sjóslysa þarf að skila launaseðlum vegna afgreiðslu slysalauna til útgerðar í tengslum við tekjutryggingu sjómanna.
2. Tilkynna slys
Atvinnurekandi eða sá slasaði þarf að tilkynna slysið til Sjúkratrygginga. Hinn aðilinn fær póst á Ísland.is um að slysið var tilkynnt, skráir sig inn með rafrænum skilríkjum og samþykkir slysið eins og því er lýst eða gerir athugasemdir.
Einstaklingur hefur 1 ár til að tilkynna slysið en Sjúkratryggingar mega gefa lengri tíma við vissar aðstæður (sjá: Hef ég rétt á slysabótum?).
Ef hinn slasaði er sjálfstætt starfandi eða ef slysið varð við heimilisstörf þá þarf sá slasaði að tilkynna slysið.
Sé um banaslys að ræða getur atvinnurekandi eða aðstandandi hins látna tilkynnt slysið.
3. Sjúkratryggingar fara yfir
Sjúkratryggingar fara yfir umsóknina og nauðsynleg fylgigögn hennar (sjá afgreiðslutími umsókna).
Ef Sjúkratryggingar þurfa ítarlegri gögn þá munu þau hafa samband og biðja um það sem vantar. Þetta getur tafið afgreiðslu umsóknar.
Berist umbeðin gögn ekki innan tilskilins tíma verður málinu frestað og umsækjanda tilkynnt um það.
Sótt er um endurgreiðslu á sjúkrakostnaði þegar slys er tilkynnt. Skila þarf reikningum fyrir sjúkrakostnaðinum.
Það þarf ekki frumrit reikninga.
Ef greiðslumáti kemur ekki fram á reikningi þarf einnig greiðslustaðfestingu.
Það má senda gögn rafrænt.
Hægt er að sækja um endurgreiðslu sjúkrahjálpar vegna slyss í allt að fimm ár frá slysdegi
Kostnaður sem var greiddur af stéttarfélagi, tryggingarfélagi eða öðrum aðilum er ekki endurgreiddur.
Þegar einstaklingur skrifar undir umsókn hjá Sjúkratryggingum staðfestir hann að allar upplýsingar séu réttar.
Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Ráðstafanir eru gerðar til að tryggja öryggi allra gagna og þau eru send í gegnum öruggar vefgáttir.
Málsgögn eru varðveitt í öruggu rekstrarumhverfi Sjúkratrygginga.
Frekari upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga hjá Sjúkratryggingum og persónuvernd er að finna í persónuverndarskilmálum Sjúkratrygginga.
Sjúkratryggingar fá upplýsingar frá eftirfarandi stofnunum:
Vinnumálastofnun: Upplýsingar um tímabil atvinnuleysisbóta og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Skattinum:
Upplýsingar um launagreiðslur/reiknað endurgjald.
Nafn og kennitölu launagreiðanda.
Upplýsingar um hvort heimilistrygging sé í gildi.
Tryggingastofnun:
Upplýsingar um örorku- eða endurhæfingarmat (stöðu).
Upplýsingar um greiðslur sem ekki má greiða samhliða bótum slysatrygginga (stöðu).
Þjóðskrá Íslands:
Upplýsingar um nafn, kennitala og heimilisfang.
Upplýsingar um börn og maka.
Í einstaka tilvikum getur verið nauðsynlegt að afla upplýsinga frá atvinnurekanda, íþróttafélögum eða námsstofnunum um slysið ef þær fást ekki frá þeim sem slasaðist.
Hverjir fá upplýsingar um umsóknina?
Sjúkratryggingar munu deila upplýsingum um niðurstöðu máls til atvinnurekanda, íþróttafélaga eða námsstofnunar.
Aðeins er deilt hvort að umsókn hafi verið samþykkt, neitað eða frestað.
Ástæðan er að umræddir aðilar gætu átt rétt á endurgreiðslu útlagðs kostnaðar og/eða slysadagpeningum ef greidd hafa verið laun í veikindaforföllum vegna slyssins.
Þessir aðilar fá aldrei afhentar heilsufars- eða sjúkraskrárupplýsingar.
Vinnueftirlit ríkisins og Rannsóknarnefnd samgönguslysa geta fengið afrit af umsókn ef þau biðja um afrit.
Tryggingastofnun fær upplýsingar um bótagreiðslur sem ekki greiðast samhliða bótum frá þeim.
Ef vinnuveitandi tilkynnir Sjúkratryggingum um slysið þá er hægt að biðja um upplýsingar um hvaða starfsmaður tilkynnti slysið.
Réttur á slysabótum
Greiðslur slysabóta
Réttur á slysabótum
Greiðslur slysabóta
Ef þú finnur ekki þær upplýsingar sem þig vantar þá geturðu sent Sjúkratryggingum fyrirspurn
