Sjúklingatrygging
Sjúkratryggingar greiða einstaklingum bætur ef þeir verða fyrir heilsutjóni vegna meðferðar eða rannsóknar í heilbrigðisþjónustu.
Ef tjónið varð árið 2025 eða síðar þá skiptir ekki máli hvort tjónið varð á opinberri heilbrigðisstofnun eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki.
Ef tjónið varð fyrir árið 2025 hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki þá þarf að sækja um bætur hjá vátryggingafélagi viðkomandi aðila.
Sótt er um bætur úr sjúklingatryggingu með því að skila inn útfylltri og undirritaðri umsókn í gegnum Gagnaskil einstaklinga.
Sjúkratryggingar sjá um að afla gagna vegna mála í sjúklingatryggingu. Ef réttur er til bótagreiðslna þá sjá Sjúkratryggingar einnig um matsferli.
Sjúkratryggingar senda umsækjanda ákvörðun um afstöðu til bótaskyldu. Ef réttur er til bóta má búast við að niðurstaða taki lengri tíma (sjá afgreiðslutíma umsókna).
Þarf aðstoð lögmanns til að sækja um?
Umsækjandi ræður hvort hann fái hjálp frá lögmanni.
Almennt þarf þess ekki þar sem Sjúkratryggingar sjá um að fá öll gögn og aðra vinnu.
Umsækjandi greiðir ekki fyrir vinnu Sjúkratrygginga en hann þarf að greiða sjálfur fyrir lögmann.
Eftirtaldir aðilar geta átt rétt á bótum:
Einstaklingur sem varð fyrir líkamlegu eða andlegu tjóni í sjúkdómsmeðferð eða rannsókn.
Maki og/eða börn einstaklings sem lést vegna tjóns í sjúkdómsmeðferð eða rannsókn.
Foreldrar/forsjáraðilar barns yngra en 18 ára sem lést í sjúkdómsmeðferð eða rannsókn ef atvik varð 2025 eða síðar.
Foreldrar/forsjáraðilar vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu eða andvana fæðingar eftir 22 vikna meðgöngu ef atvik varð 2025 eða síðar.
Tjónið þarf að hafa átt sér stað á einu af eftirfarandi:
Heilsugæslustöð, sjúkrahúsi eða öðrum heilbrigðisstofnunum hér á landi sem eru í eigu ríkisins, í heild eða hluta. Ef tjón varð árið 2024 eða fyrr.
Í heilbrigðisþjónustu hér á landi ef tjón varð 2025 eða síðar.
Í sjúkraflutningi innanlands.
Heilbrigðisþjónustu eða sjúkraflutningi erlendis ef verið var að sækja nauðsynlega meðferð sem ekki er í boði á Íslandi á vegum Sjúkratrygginga.
Einnig skal hægt að rekja tjónið til eins af eftirfarandi:
Meðferð var ekki hagað eins vel og hægt var miðað við þekkingu og reynslu.
Bilun eða galli varð í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem var notaður.
Fylgikvillar meðferðar ef að:
Hann er sjaldgæfur (sjaldnar en í 1-2% tilfella).
Er alvarlegur miðað við grunnsjúkdóminn sem meðferð átti að lækna.
Tjónið er meira en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust.
Slys varð vegna meðferðar eða rannsóknar.
Læknisfræðilegrar tilraunar sem var ekki vegna sjúkdómsgreiningar eða meðferðar.
Gjöf umsækjanda á líffæri, vef, blóði eða öðrum líkamsvökva.
Notkunar lyfs sem er ekki samkvæmt viðurkenndri ábendingu eða vegna notkunar lyfs sem er ekki með markaðsleyfi en heilbrigðisyfirvöld krefjast notkunar til að minnka líkur á skaða af völdum utanaðkomandi þátta.
Ef tjón var fyrir 2025 vegna þess að ekki var notuð önnur meðferðaraðferð eða tækni sem völ var á og hefði bæði:
Forðað tjóni frá að eiga sér stað.
Gert sama gagn og sú aðferð sem notuð var.
Bólusetningar með bóluefni sem heilbrigðisyfirvöld leggja til vegna tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri meðhöndlun þess, ef að:
Meðferð var ekki hagað eins vel og hægt var miðað við þekkingu og reynslu.
Tjónið er sjaldgæft og alvarlegt.
Bólusetning við COVID-19 á árunum 2020-2023 með bóluefni frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum ef að tjónið varð vegna:
Eiginleika bóluefnis.
Rangrar meðhöndlunar bóluefnis (eins og við flutning, geymslu, dreifingu, bólusetningu).
Hægt er að sækja um bætur vegna bólusetningar gegn Covid á eftirfarandi umsóknarblaði: Umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu vegna bólusetningar gegn COVID-19.
Ef eitt af ofangreindum skilyrðum er fullnægt þá meta Sjúkratryggingar bótarétt. Ef bótaupphæð er yfir lágmarksgreiðslu þá er umsókn samþykkt og Sjúkratryggingar greiða bætur.
Ef atvikið er bótaskylt eru eftirfarandi bótaflokkar skoðaðir:
Útlagður kostnaður vegna atviksins
Þjáningabætur
Greitt fyrir hvern dag frá tjónsdegi þar til heilsa er orðin stöðug.
Greiðslan er hærri fyrir þá daga sem umsækjandi er rúmfastur.
Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns
Greitt er fyrir tímabilið frá tjónsdegi þar til heilsa er orðin stöðug eða umsækjandi getur byrjað að vinna aftur.
Önnur laun í veikinda- og slysaforföllum eru dregin frá upphæð, til dæmis laun frá vinnuveitenda í veikinda- og slysaforföllum, greiðslur frá sjúkrasjóði og svo framvegis.
Varanlegur miski
Varanlegur miski er metinn þegar heilsufar umsækjanda er orðið stöðugt.
Bætur fara eftir aldri umsækjanda á tjónsdegi.
Varanleg örorka
Upphæð örorkubóta miðast við:
aldur umsækjanda
árslaun hans fyrir tjón
prósentustig örorku
Upplýsingar um lágmarks- og hámarksupphæðir bóta er að finna í gjaldskrá sjúkradagpeninga undir dagpeningar, slysabætur og kílómetragjald.
Ef þú finnur ekki þær upplýsingar sem þig vantar þá geturðu sent Sjúkratryggingum fyrirspurn
