Hluturinn sem einstaklingur greiðir fyrir lyf minnkar eftir því hversu mikið hann hefur greitt fyrir lyf á hverju 12 mánaða tímabili. Greiðsluþátttökuþrepin sem lækka kostnað einstaklingsins eru fjögur. Einungis lyf með greiðsluþátttöku teljast með í útreikningi greiðsluþátttökuþrepa.
Tólf mánaða greiðslutímabil byrjar við fyrstu lyfjakaup eftir að fyrra tólf mánaða tímabili lýkur.
Niðurgreiðsla Sjúkratrygginga miðast við lægsta hámarksverð samheitalyfja. Ef dýrara lyf er valið þá greiðir einstaklingur mismuninn. Sá kostnaður fellur ekki undir greiðsluþrep. Hægt er að sjá lyfjaverð inni á lyf.is
Lyfjastofnun ákveður hvaða lyf Sjúkratryggingar niðurgreiða.
Dæmi: Ef einstaklingur kaupir lyf í fyrsta skipti 10. apríl 2024 þá endar það 12 mánaða tímabil 9. apríl 2025. Ef hann kaupir næst lyf með greiðsluþátttöku 20. maí 2025 þá hefst nýtt 12 mánaða tímabil sem endar 19. maí 2026.
Almenn greiðsluþátttaka einstaklings:
Þrep: Einstaklingur greiðir 100% upp að 22.800 krónum.
Þrep: Einstaklingur greiðir 15% af verði lyfja upp að 32.430 krónum.
Þrep: Einstaklingur greiðir 7,5% af verði lyfja upp að 62.000 krónum (hámarksgreiðsla).
Þrep: Einstaklingur greiðir 0% af verði lyfja.
Aldraðir 67 ára og eldri, örorkulífeyrisþegar, börn og ungmenni yngri en 22 ára
Þrep: Einstaklingur greiðir 100% upp að 11.400 krónum.
Þrep: Einstaklingur greiðir 15% af verði lyfja upp að 17.900 krónum.
Þrep: Einstaklingur greiðir 7,5% af verði lyfja upp að 41.000 krónum (hámarksgreiðsla).
Þrep: Einstaklingur greiðir 0% af verði lyfja.
Greiðsluþrepin eiga bara við um lyf sem Sjúkratryggingar niðurgreiða (almennt eða vegna lyfjaskírteinis).
Sjúkratryggingar fá daglega upplýsingar um greiðslur einstaklinga í apótekum. Ef einstaklingur hefur greitt of mikið fyrir lyf eða ef réttindastaða hans hefur breyst á 12 mánaða tímabilinu þá endurreiknast greiðslustaða sjálfvirkt einu sinni í viku.
Endurgreiðsla er lögð inn á bankareikning einstaklingsins og hann fær tilkynningu í tölvupósti.
Lyfjaskírteini veita greiðsluþátttöku í lyfjum sem annars eru ekki með greiðsluþátttöku. Telji læknir að einstaklingur uppfylli skilyrði samkvæmt gildandi vinnureglum getur hann sótt um lyfjaskírteini rafrænt.
Ef lyfjaskírteinið er samþykkt þá er greitt sama hlutfall af því lyfi og öðrum lyfjum miðað við stöðu einstaklingsins í þrepakerfinu.
Alltaf er hægt að sjá upplýsingar um stöðu lyfjaskírteinis á Mínum síðum. Einnig er hægt að sjá lyfjaskírteini fyrir börn með því að skipta yfir á þeirra síðu í Mínum síðum.
Hvernig er ferlið?
Læknir sendir inn umsókn. Hægt er að sjá umsóknina á Mínum síðum.
Afgreiðsla tekur allt að 3 vikur.Ef það stendur „Nei“ og „Umsókn í vinnslu“ þá er ekki búið að ganga frá umsókninni.
Umsókn samþykkt. Ef umsókn er samþykkt þá þarf læknir að gefa út lyfseðil. Þegar lyfseðill er tilbúinn er hægt að kaupa lyfið með greiðsluþátttöku.
Ef það þarf að endurnýja lyfjaskírteini þá sendir læknir inn aðra umsókn.