Tannlækningar og tannréttingar
Lífeyrisþegar og börn geta sótt sér tannlæknaþjónustu til annara landa innan EES, Bretlands og Sviss og sótt í kjölfarið um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í tannlæknareikningunum.
Í vissum tilfellum þarf að liggja fyrirfram samþykkt umsókn áður en meðferð er veitt.
Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði vegna nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
Aðkeyptur tannsmíðakostnaður og rannsóknir greiðast saman í hlutfalli við vinnu tannlæknis að ákveðnu hámarki.
Ef um tannréttingar er að ræða er skilyrði að þjónustan sé veitt af sérfræðingi í tannréttingum.
Ef kjálkafærsluaðgerð er nauðsynleg vegna tannréttinga er skilyrði að sú meðferð sé veitt af sérfræðingi í munn- og kjálkaskurðlækningum.
Nauðsynlegt er að sækja um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga vegna þess áður en meðferð, önnur en bráðameðferð, hefst. Tannlæknar senda umsóknir til Sjúkratrygginga fyrir skjólstæðinga sína.
Tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla og sjúkdóma
Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði vegna nauðsynlegra tannlækninga, annarra en tannréttinga, vegna eftirtalinna atvika:
Meðfæddrar vöntunar einnar eða fleiri fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla, sbr. þó 12. gr.
Vansköpunar fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla sem leiðir til alvarlegra útlitsgalla eða starfrænna truflana tyggingarfæra.
Rangstæðra tanna, þ.m.t. endajaxla, sem tengdar eru meini (cystu eða æxli), kjálkabeindrepi eða vegna kjálkafærsluaðgerðar.
Tanna, annarra en endajaxla, sem líklegar eru til þess að valda skaða eða hafa valdið skaða á nærliggjandi fullorðinstönnum eða stoðvefjum þeirra eða hindra uppkomu þeirra.
Alvarlegra einkenna frá kjálkaliðum eða tyggivöðvum.
Alvarlegrar sýrueyðingar glerungs og tannbeins fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla.
Alvarlegs niðurbrots á stoðvefjum tanna framan við 12 ára jaxla.
Alvarlegra tannskemmda, framan við 12 ára jaxla sem leiða af varanlega alvarlega skertri munnvatnsframleiðslu af völdum geislameðferðar, Sjögrens-sjúkdóms eða lyfja.
Annarra sambærilegra alvarlegra tilvika.
Tannlækningar og tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla og sjúkdóma
Sjúkratryggingar greiða 95% af kostnaði vegna nauðsynlegra og tímabærra tannlækninga og tannréttinga vegna eftirtalinna tilvika samkvæmt gjaldskrá og með þeim takmörkunum sem þar koma fram:
Alvarlegrar tannskekkju vegna skarðs í efri tannboga eða klofins góms.
Heilkenna (Craniofacial Syndrome/Deformity) sem valda tannvanda sambærilegum við alvarleg tilvik sem falla undir fyrsta tölulið.
Meðfæddrar vöntunar einnar eða fleiri framtanna eða augntanna í efri gómi eða vöntunar tveggja samliggjandi fullorðinstanna framan við 12 ára jaxla.
Misræmis í vexti beina í höfuðkúpu og kjálkum sem hefur valdið tannvanda sambærilegum við alvarleg tilvik sem falla undir ofangreinda töluliði. Þá er það forsenda greiðsluþátttöku að kjálkafærsluaðgerð sé þáttur í meðferðaráætluninni og að aðgerðin feli í sér að bein séu tekin sundur og fest á nýjum stað í sömu aðgerð.
Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði samkvæmt gjaldskrá með þeim takmörkunum sem þar koma fram.
Ef tanntjón verður er mikilvægt að tilkynna það.
Hinn slasaði eða forráðamaður barns skal tilkynna vátryggingarfélagi sínu tjónið.
Tannlæknir sem sinnir einstaklingi fyrst eftir slys sendir Sjúkratryggingum áverkavottorð.
Fyrst skal leita bóta vegna tannskaða til vátryggingarfélags Ef hvorki vátryggingarfélag né slysatryggingar greiða bætur þá er hægt að sækja um að Sjúkratryggingar niðurgreiði tannlækningar.
Tannskaði vegna slysa
Ef tannskaði er bótaskyldur hjá Sjúkratryggingum greiða Sjúkratryggingar:
Börn yngri en 18 ára:
100% kostnaður.
18 ára og eldri:
80% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá með takmörkunum við tannlækningar (ekki tannréttingar).
Alvarlegur tannskaði vegna slysa
Alvarlegur tannskaði getur til dæmis verið ef 4 eða fleiri fullorðinstennur tapast.
Ef tannskaði er bótaskyldur hjá Sjúkratryggingum greiða Sjúkratryggingar:
95% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá með takmörkunum.
Tanntjón í vinnuslysum
Reglur slysatrygginga gilda um tanntjón í vinnuslysum. Í alvarlegum tilvikum er greitt kostnaður af gjaldskrá Sjúkratrygginga.
Tannskaði vegna líkamsárása
Tanntjón vegna líkamsárása greiðist ekki af Sjúkratryggingum. Bætur vegna þeirra skal sækja til árásarmanns eða bótasjóðs þolenda ofbeldis hjá dómsmálaráðuneytinu.
Kostnaður við meðferð
Tannlæknar eru aðilar að samningum við Sjúkratryggingar og þekkja reglur um endurgreiðslu. Þeir leggja mat á hvaða meðferð einstaklingur þarf og geta kannað greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga áður en meðferð hefst.
Ef um ræðir meðferð sem greidd er af Sjúkratryggingum þá vinna tannlæknar samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga.
Tannlækni ber skylda til að upplýsa einstakling um kostnað við meðferðina áður en meðferð hefst.
Endurgreiðsla frá Sjúkratryggingum
Ekki er um beina endurgreiðslu að ræða til einstaklings. Sjúkratryggingar greiða sinn hluta kostnaðarins beint til tannlæknis sem rukkar einstakling um það sem hann þarf að greiða.
Ef þú finnur ekki þær upplýsingar sem þig vantar þá geturðu sent Sjúkratryggingum fyrirspurn
