Tannlækningar
Sjúkratryggingar taka þátt í tannlæknakostnaði barna, lífeyrisþega og vegna meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
Sjúkratryggingar greiða 100% af tannlæknakostnaði fram að 18 ára aldri af bæði almennum tannviðgerðum og svæfingu í samræmi við samning um tannlækningar og með þeim takmörkunum sem koma þar fram.
Árlegt komugjald fyrir börn hjá tannlækni er 3.500 krónur.
Almennar tannlækningar eru meðal annars:
Skoðun.
Greining.
Röntgenmyndir.
Reglulegt eftirlit.
Tannviðgerðir.
Rótfyllingar.
Tannholdslækningar.
Úrdráttur tanna.
Sjúkratryggingar greiða ekki aðstöðugjald vegna tannviðgerða í svæfingu.
Heimilistannlæknir:
Barn þarf að vera skráð hjá heimilistannlækni.
Heimilistannlæknir sér til dæmis um:
Að boða börn í reglulegt eftirlit (að minnsta kosti á 2 ára fresti)
Að skrá ástand tanna og munnhols.
Sjá um forvarnir.
Að sjá um almennar tannlækningar.
Aðrir tannlæknar geta líka sinnt barninu.
Hægt er að skrá barn hjá heimilistannlækni á tannlæknastofu eða á Heilsugæslu á Mínum síðum.
Sjúkratryggingar greiða 100% af tannlæknakostnaði vegna nauðsynlegra meðferða vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa sem upp koma fyrir 18 ára aldur en er ekki hægt að sinna fyrr en eftir að fullum beinþroska er náð.
Heimild þessi gildir út 29. aldursár einstaklings.
Tannlæknir sendir Sjúkratryggingum umsókn rafrænt áður en meðferð hefst.
Sjúkratryggingar greiða hluta af kostnaði við úrdrátt endajaxla ef þeir valda eða eru líklegir til að valda alvarlegum vanda hjá einstaklingum 18 ára og eldri.
Lífeyrisþegar eru bæði þeir sem hafa yfir 75% örorku og einstaklingar 67 ára og eldri.
Sjúkratryggingar greiða 75% af tannlæknakostnaði fyrir almennar tannviðgerðir í samræmi við samning um tannlækningar og með þeim takmörkunum sem þar koma fram.
Almennar tannlækningar eru meðal annars:
Skoðun.
Greining.
Röntgenmyndir.
Reglulegt eftirlit.
Tannviðgerðir.
Rótfyllingar.
Tannholdslækningar.
Úrdráttur tanna.
Laust tanngervi.
Gervigómar
Sjúkratryggingar greiða 75% af bæði kostnaði tannlæknis og tannsmiðs vegna smíði gervigóma (heilgóma, plantagóma eða stálparta) lífeyrisþega á sex ára fresti. Einnig er greitt fyrir fóðrun góma á þriggja ára fresti.
Greiðist án umsóknar fyrir lífeyrisþega en annars aðeins að undangenginni samþykkt á umsókn.
Föst tanngervi og tannplantar í tenntan góm
Sjúkratryggingar taka þátt í að greiða kostnað lífeyrisþega vegna tannplanta eða annars fasts tanngervis í tenntan góm.
Tenntur gómur: Ein eða fleiri eigin tennur í efri góm eða neðri góm.
144.872 króna styrkur er veittur vegna tannplanta eða annars fasts tanngervis í tenntan góm framan við 12 ára jaxla á hverju 12 mánaða tímabili sem miðast við meðferðardag.
Ekki þarf að sækja um styrkinn. Tannlæknir lækkar reikninginn sem honum nemur.
Þeir einstaklingar sem fullnýtt hafa eldri styrk vegna smíði fastra tanngerva og tannplanta fyrir 1. júlí 2024 geta átt rétt á mismun á þessari fjárhæð og því sem þeir hafa áður fengið greitt, enda sé um nýja meðferð að ræða (á öðrum tönnum/tannstæðum en áður var styrkt) og sú meðferð veitt eftir 1. júlí 2024.
Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaði við endurgerð tannplanta eða fastra tanngerva ef minna en tíu ár eru liðin frá því að tannplanti eða fast tanngervi var sett á sömu tönn eða tannstæði.
Tannplantar í tannlausan góm
Sjúkratryggingar greiða 75% af kostnaði lífeyrisþega við ísetningu tannplanta í tannlausan góm til stuðnings tanngervi. Einnig er heimilt að taka þátt í kostnaði við fast tanngervi.
Tannlaus gómur: Engin eigin tönn í efri eða neðri góm.
Tannlæknir sækir um greiðsluþátttöku fyrir skjólstæðinginn og bíður eftir samþykki áður en meðferð hefst.
Ef umsókn er samþykkt niðurgreiða Sjúkratryggingar 2 fyrstu tannplanta í neðri góm og fyrstu 4 tannplanta í efri góm.
Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaði við ísetningu tannplanta í tenntan og tannlausan góm á sama 12 mánaða tímabili.
Sjúkratryggingar greiða 100% kostnað við almennar tannlækningar samkvæmt gjaldskrá þeirra sem falla undir skilgreiningu langveikra einstaklinga.
Til langveikra teljast öryrkjar og aldraðir sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum.
Langsjúkur er elli- eða örorkulífeyrisþegi sem hefur verið lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum og dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Sama á við ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða.
Sjúkratryggingar greiða 100% kostnað við almennar tannlækningar samkvæmt gjaldskrá þeirra sem eru 18 ára eða eldri og hafa greinst með andlega þroskahömlun.
Andleg þroskahömlun þarf að vera staðfest sem greininguna væg, miðlungs, alvarleg eða svæsin þroskahefting (F70-73 samkvæmt ICD-10 flokkunarkerfi heilbrigðisþjónustu).
Sækja þarf um aukna greiðsluþátttöku til Sjúkratrygginga vegna þeirra.
Ef þú finnur ekki þær upplýsingar sem þig vantar þá geturðu sent Sjúkratryggingum fyrirspurn
