Dagdvalir og dagþjálfun eldra fólks
Mikilvægur liður í því að geta búið áfram heima er að halda sér virkum. Víðast hvar eru reknar almennar dagþjálfanir eða dagdvalir. Þar fer fram fjölbreytt starfsemi en sótt er um til viðkomandi rekstraraðila eða heimilis sem býður úrræðið.
Eldra fólk sem býr heima en þarf reglulega umönnun getur sótt um að komast í dagdvöl eða dagþjálfun í einn eða fleiri daga vikunnar.
Almennar dagþjálfanir
Dagþjálfanir aldraðra er stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfa eftirlit og aðstoð til að geta búið áfram heima.
Í dagþjáfunum eldra fólks er meðal annars veitt:
Hjúkrunarþjónusta auk þjálfunar og læknisþjónustu
Tómstundaiðja
Félagslegur stuðningur
Fræðsla, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs
Þeim sem býðst virkni í dagþjálfun er séð fyrir akstri að og frá heimili.
Almennar dagþjálfanir/dagdvalir eru í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Þær eru oft reknar á sama stað og í samvinnu við þjónustumiðstöðvar sveitafélaganna. Hægt er að sækja þjónustuna daglega eða tiltekna daga vikunar. Greitt er hóflegt gjald fyrir hvern dvalardag.
Sérhæfðar dagþjálfanir
Einstaklingum með heilabilun stendur til boða að sækja virkniþjónustu í sérhæfðar dagþjálfanir þar sem leitast er við með fjölbreyttri virkni að hægja á framgangi sjúkdómsins.
Markmið sérhæfðra dagþjálfana eru að:
Viðhalda sjálfstæði einstaklingsins eins lengi og kostur er með því að styrkja líkamlega og vitsmunalega hæfni og stuðla þannig að því að hann geti búið sem lengst heima
Rjúfa félagslega einangrun og efla þátttöku í daglegum athöfnum
Létta undir með aðstandendum
Fylgjast með daglegu heilsufari
Efla sjálfstraust, draga úr vanlíðan og vanmáttarkennd
Lögð er áhersla á sveigjanleika í starfseminni og fjölbreytta virkni og afþreyingu. Sérhæfðar dagþjálfanir eru reknar um allt land þótt flestar séu á höfuðborgarsvæðinu.
Dagdvalir með sérhæfðri endurhæfingu
Í dagdvöl með sérhæfðri endurhæfingu felst dagþjálfun þar sem áhersla er lögð á líkamlega þjálfun og félagslega virkni.
Þjónustan er eingöngu fyrir eldra fólk þar sem endurhæfing er forsenda þess að viðkomandi geti áfram búið heima eða fyrir eldra fólk sem þarfnast endurhæfingar í kjölfar sjúkrahúslegu. Dagþjálfunin er 8-10 vikna úrræði 3-5 daga vikunnar og er enn sem komið er aðeins í boði á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Tvær dagdvalir á höfuðborgarsvæðinu bjóða þessi úrræði eða Múlabær og Hrafnista Laugarási.
Seiglan þjónustumiðstöð yngri greindra
Í Lífsgæðasetrinu á St.Jó. í Hafnarfirði er starfrækt þjónustumiðstöð fyrir einstaklinga sem eru stutt gengnir með heilabilunarsjúkdóm og því á stigi vægrar vitrænnar skerðingar.
Lengi hefur vantað úrræði fyrir þennan hóp sem segja má að hafi beðið heima eftir að verða nógu veikir til að eiga rétt á þjónustu í sérhæfðri dagþjálfun. Boðið er upp á fjölda þjónustutilboða í hverjum mánuði sem byggist á hugrænni, líkamlegri og félagslegri þjálfun.
Markmið Seiglunar er að viðhalda færni en í boði er hugræn-, líkamleg- og félagsleg þjálfun. Í Seiglunni er starfað eftir hugmyndafræði iðjuþjálfunar.
Taktur endurhæfing Parkinsonsamtakanna
Lífsgæðasetri St. Jó Hafnarfirði
Í Takti er boðið upp á fjölbreytta og faglega endurhæfingu fyrir fólk með Parkinson og skylda sjúkdóma og stuðning við aðstandendur. Þjónustan er miðuð að þeim hópi sem er í sjálfstæðri búsetu en hefur þörf fyrir þjálfun, ráðgjöf, leiðsögn og stuðning.
Boðið er upp á endurhæfingarmat og ráðgjöf hjúkrunarfræðings, fjölbreytta iðjuþjálfun og stuðningshópa eftir aðstæðum og þörfum hvers og eins. Endurhæfing er mikilvægur þáttur í meðferð við Parkinson og skyldum sjúkdómum til að draga úr einkennum og halda aftur af framgangi sjúkdómins og stuðla að sjálfstæði og aukinni vellíðan.
Í Takti er einnig aðgangur að fagfólki og sérfræðingum sem sinna ráðgjöf og meðferð einstaklinga, stuðningur við aðstandendur, námskeið og fræðsla. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðu Parkinsonsamtakanna. Einnig hægt að hringja í síma 552 4440 eða senda tölvupóst á parkinson@parkinson.is.