Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur skilgreint Félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. Félagsleg einangrun er líka mun algengari en fólk grunar.
Félagsleg einangrun eykur líkur á hjarta og æðasjúkdómum.
Félagsleg einangrun eykur líkur á heilabilun.
Einn af hverjum þrem fullorðinna er félagslega einangraður.
Félagsleg einangrun eykur líkur á þunglyndi og kvíða.
Félagsleg einangrun eykur líkur á ótímabærum dauða.
Vissir þú að þú getur hjálpað?
Algengur misskilningur um félagslega einangrun
Allir geta lent í því að einangrast félagslega.
Orsakir félagslegrar einangrunar eru fjölþættar. Talið er að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks. Andlát maka eða skilnaður, veikindi, vinslit, atvinnumissir og fleiri áföll geta allt verið orsakir þess að fólk dregur sig inn í skel eða missir tengsl við nærsamfélagið. Það getur komið fyrir hvern sem er.
Félagsleg einangrun er ekki það sama og félagsleg nægjusemi. Nær allar mannverur hafa þörf fyrir tengsl og einhvers konar nánd. Það að vera "út af fyrir sig” og að einangrast félagslega er það sama.
Fólk getur upplifað félagslega einangrun þó það sé í farsælu hjónabandi. Að ótalinni þeirri einangrun sem verður til þegar um ofbeldissambönd er að ræða. Ekki er óalgengt að annar aðilinn í sambandi sé hinum háður varðandi félagstengsl. Hann vanrækir jafnvel eigið tengslanet vegna ríkulegrar félagslegrar dagskrár makans.
Ýmis ráð eru í boði til að rjúfa félagslega einangrun. Bæði einstaklingurinn sjálfur og samfélagið í kringum hann hefur fjölda úrræða.
Við sjálf
Fyrsti varnarveggurinn gagnvart félagslegri einangrun erum við sjálf. Að vera meðvituð um eigin líðan, félagslega stöðu og heilsu og taka virka ábyrgð á að bæta stöðuna er lykilatriði í því að fyrirbyggja og takast á við félagslega einangrun.
Hefurðu nýlega flutt á nýjan stað þar sem þú þekkir fáa? Hefurðu nýlega misst einhvern nákominn? Hefurðu nýlega misst vinnuna eða látið af störfum vegna aldurs eða veikinda?
Hefurðu skerta heyrn eða hefur hún versnað undanfarið?
Býrðu við færniskerðingu sem hamlar þér í daglegu lífi?
Hefurðu sjúkdóm sem þér finnst vandræðalegt að ræða við aðra?
Áttu erfitt með að hefja samskipti við fólk sem þú þekkir lítið?
Hafir þú svarað einhverri þessara spurninga játandi er aukin hætta á félagslegri einangrun. Því fleiri spurningar sem passa við þig, því meiri er hættan.
Það þýðir þó ekki að allir sem svara þessum spurningum játandi einangrist, það þýðir bara að við þurfum að passa enn betur upp á tengsl okkar við annað fólk og jafnvel grípa til aðgerða til að sporna við einangrun.
Hér á eftir er fjallað meira um hvern þessara þátta og möguleg viðbrögð.
Félagsleg einangrun er lúmsk og laumast gjarnan aftan að fólki. Hún getur gerst skyndilega, en hún getur líka tekið völdin hægt og sígandi. Ákveðnir atburðir geta aukið líkur á félagslegri einangrun og sett af stað ferli sem valda því að hún ágerist. Það er því mikilvægt, eftir stórar breytingar að vera meðvituð um það hvort félagslegum tengslum eða tækifærum til þátttöku í félagslífi hafi fækkað. Þá er gott spyrja sig: „Hef ég færri tækifæri til samskipta en áður eða hef ég mig síður af stað til að sækja félagsskap en áður?”
Heyrnarskerðing Hvers kyns heilsubrestir geta valdið því að fólk veigrar sér við þátttöku í félagslífi. Heyrnarskerðing getur t.d. valdið því að fólki þyki óþægilegt að vera í margmenni og upplifi óöryggi í samskiptum. Stundum er fólk ekki meðvitað um heyrnarskerðingu, þar sem hún gerist mjög hægt og sígandi. Þannig er erfitt að negla niður þann tímapunkt sem heyrnarskerðing er farin að valda vandræðum. Það er einfalt að fara í heyrnarmælingu og jafnvel hægt að gera bráðabirgðamælingu með hjálp snjallsíma og heyrnartóla. Þá hefur nútímatækni gert það bæði mun einfaldara og ódýrara að takast á við heyrnarskerðingu á ólíkum stigum. Eins er mikilvægt að láta vita af heyrnarskerðingu. Fólk er alla jafna tilbúið til þess að sýna tillitssemi.
Slit eða meiðsl í stoðkerfi Slit eða meiðsl í stoðkerfi; baki, fótum, hnjám og mjöðmum geta haft mjög takmarkandi áhrif á þátttöku í félagslífi. Sársauki og eymsl við að koma sér milli staða geta dregið úr vilja til þess að sækja sér félagsskap. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þessu og nýta þá aðstoð sem í boði er, líkt og akstursþjónustu, hjálpartæki og hjálpsemi annarra.
Önnur veikindi Alls konar veikindi geta dregið dilk á eftir sér þegar kemur að félagslífi. Bataferli getur verið langt og strembið og dregið máttinn úr okkur, bæði líkamlega og andlega.
Ýmsar uppákomur í lífi okkar hafa áhrif á sjálfsmynd. Þetta geta verið atburðir allt aftur til bernsku líkt og einelti, félagslegir erfiðleikar fjölskyldu eða nýrri atburðir líkt og missir á félagslegri stöðu, dómsmál, erfið samskipti á vinnustað og margt fleira.
Veik sjálfsmynd hefur svo bein áhrif á það hversu örugg við erum í samskiptum við aðra og hvort við leitum í félagsskap annarra. Skömm okkar eða niðurrifstal gerir okkur viðkvæm fyrir gagnrýni eða einhverju sem við upplifum sem höfnun. Þetta eykur svo líkur á því að við drögum okkur í hlé.
Flutningur í nýtt umhverfi getur haft mikil áhrif á félagslega heilsu okkar. Þá er mikilvægara en nokkur sinni að taka stjórnina í eigin hendur. Sýna frumkvæði og ef þarf biðja um aðstoð til að rjúfa einangrun. Námskeið ýmiskonar og hópastarf er góð leið til að tengjast fólki með lík áhugamál og í öruggu umhverfi.
Ef þú býrð afskekkt getur tæknin hjálpað. Þó er mikilvægt að finna leiðir til að umgangast fólk í raunheimum líka. Það að fara á föstum tímum að hitta fólk gerir það líklegra að við látum verða af því. T.d. taka þátt í kórastarfi þó það sé ekki alveg í nágrenninu, taka þátt í félagsstarfi, eins og félagsstarfi eldra fólks sem krefst ekki mikillar viðveru en þar sem er föst viðvera.
Tæknin býður upp á mikilvæga viðbót við slík samskipti þar sem hægt er að eignast vini hvar sem er í heiminum. Þá er gott að leita uppi áhugamannafélög eða fræðasamfélög sem höfða til þíns áhugasviðs. Prófaðu þig áfram, ekki er víst að þú finnir þitt samfélag í fyrstu tilraun.
Samfélagsmiðlar geta auðveldað samskipti við vini og ættingja þegar um langan veg er að fara, en mikilvægt er að vera meðvitaður um það þegar samskipti á samfélagsmiðlum fara að koma í staðin fyrir samskipti í raunheimum.
Eins getur mikil viðvera á samfélagsmiðlum ýtt undir ósanngjarnan samanburð, aukið kvíða og skaðað sjálfsmynd. Allt þetta gerir okkur svo óöruggari út á við og ólíklegri til að hefja samskipti við kunningja eða ókunnuga.
Hvað get ég gert?
Mikilvægt er að taka stjórnina á eigin lífi, þó það geti verið erfitt. Til eru leiðir sem auka og auðvelda félagsleg samskipti.
Það er mjög gagnlegt að koma skipulagi á félagslíf og setja hluti í dagatalið. Bjóðum fólki í kaffi á ákveðnum tíma. Finnum ástæðu til að hittast. Fólk hittist ekki af sjálfu sér.
Það er mikilvægt að taka stjórnina á eigin lífi, þó það geti verið erfitt. Til eru leiðir sem auka og auðvelda félagsleg samskipti.
Það auðveldar samskipti við ókunnuga að sinna sameiginlegum áhugamálum. Auðveldara er að hefja samræður ef þær byggja á því sem þið eigið sameiginlegt t.d. útivist, handavinna, matreiðsla, lestur bóka eða hvað sem er annað. Kannaðu hvað er í boði í samfélaginu eða á netinu. Það að ganga í einhvers konar klúbba eða félög gefur gott tækifæri til að stækka kunningja hópinn.
Að mæta á viðburði í nærsamfélaginu gerir það líka að verkum að þú ert virkur án þess að það krefjist endilega mikilla samskipta. Gott er að byrja þar ef þú átt erfitt með samskipti við ókunnuga. Hænuskref eru líka skref.
Þetta geta t.d. verið viðburðir á næstu félagsmiðstöð, íþróttakeppnir eða tónleikar. Líklegt er að fólkið sem sækir tónleika eða íþróttaviðburði eigi ýmislegt sameiginlegt með þér.
Ráð sem auðvelda samskipti
Það hvernig við sjáum okkur sjálf hefur mikil áhrif á það af hversu miklu öryggi við nálgumst samskipti við annað fólk. Ef við höfum hugmynd um að öðrum finnist við leiðinleg, skrítin eða uppáþrengjandi er ólíklegra að við eigum upphaf að nýjum samskiptum.
Feimni eða félagskvíði getur ýtt undir og viðhaldið félagslegri einangrun.
Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga ef þú upplifir félagskvíða eða mikla feimni:
Það tekur tíma að kynnast nýju fólki eða endurvekja gamla vináttu. Fögnum hverju skrefi fram á við og pössum okkur á að gefa okkur og öðrum þann tíma sem þarf til að móta sambandið. Það er líka mikilvægt að vera jafn þolinmóður við sjálfan sig og annað fólk.
Við höfum öll mismunandi félagslegt úthald. Félagsleg einangrun getur valdið því að í fyrstu getur samvera við annað fólk hreinlega valdið þreytu. Rétt eins og þegar við viljum komast aftur í form eftir langa kyrrsetu er mikilvægt að sýna þolinmæði og ganga ekki fram af sjálfum okkur.
Jafnvel þó einhver virðist fullur sjálfstrausts vitum við ekkert um það hvernig honum líður í raun. Mögulegt er að fólk líti þannig á þig? Kvíði sést ekki alltaf utan á fólki.
Allir mismæla sig eða missa athyglina annað slagið. Það gerir þig ekki að verri viðmælanda. Við erum flest mun dómharðari á okkur sjálf en aðra.
Fæstir velta mikið vöngum yfir minni háttar klaufaskap annarra. Þá er mikilvægt að hafa í huga að sýna sjálfum okkur sömu mildi og við myndum sýna öðrum.
Flestir kannast við það að detta í sjálfsniðurrif eða veita „göllum“ sínum of mikla athygli. En á þessi innri gagnrýni við rök að styðjast? Myndum við segja svona hluti við annað fólk?
Gefðu þér tíma til að mótmæla og finna nýja túlkun á því sem þér finnst neikvætt eða hafa mistekist.
Dæmi 1: Þegar ég verð stressuð tala ég of mikið og það er vandræðalegt fyrir mig og aðra.
Möguleg jákvæðari túlkun: Kannski finnst fólki ég bara opin og einlæg
Dæmi 2: Fólk býður mér ekki að vera með í neinu vegna þess að því finnst ég leiðinlegur.
Möguleg jákvæðari túlkun: Fólk býður mér ekki með því það veit ekki að mig langar að vera með, kannski þarf ég að taka fyrsta skrefið?
Öndum djúpt áður en við förum inn í félagslegar aðstæður. Að anda djúpt nokkrum sinnum getur dugað til að draga úr kvíðatilfinningu. Hægt á hjartslætti og gert okkur kleift að bregðast við samskiptum á jákvæðari hátt. Ekki setja pressu á að segja eitthvað undir eins, það má líka staldra við og hlusta.
Það getur verið erfitt að taka þátt í samskiptum ef athyglin er stöðugt á eigin líðan og frammistöðu. Prófaðu að hugsa þér að þú ætlir að setja viðmælandann í kastljósið og einbeita þér að því sem þau segja eða gera. Það getur gefið hvíld frá sjálfsefasemdum og ritskoðun.
Skoðaðu viðmælandann, getur þú hrósað honum? Flottir skór, áhugavert umræðuefni?
Í stað þess að forðast félagslegar aðstæður hugsaðu um þær sem æfingu. Við þurfum ekki að slá í gegn í fyrsta skiptið frekar en í fyrsta skipti sem við prófum hástökk. Líkur eru á því að okkur fari fram og fáum aukið sjálfstraust í hvert skipti sem við prófum.
Spyrjum opinna spurninga til að leiða samtalið áfram og sýna áhuga á viðmælandanum
Aðstandendur og nærsamfélag
Hvort sem við erum fjölskylda, nágrannar, vinir eða aðrir aðstandendur, er eðlilegt að finna til ábyrgðar og vilja hjálpa fólkinu í kringum okkur. Aðstandendur eru í bestu stöðunni til að styðja við fólk sem er í áhættu á að einangrast félagslega eða að hjálpa þeim sem hafa þegar einangrast. Það er til mikils að vinna að grípa inn í eins fljótt og mögulegt er.
Ef við verðum þess áskynja að nágranni eða ættingi fari lítið sem ekkert út úr húsi er gott að athuga hvernig honum líður. Gott getur verið að hafa eitthvert erindi ef við treystum okkur ekki til að spyrja beint um líðan eða ástand. Til dæmis í fjölbýlishúsi er hægt að nýta jákvæð atriði húsfélagsins (s.s. ekki fara til að kvarta ef við höfum áhyggjur af nágranna) heldur bjóðast til að aðstoða við jólaskreytingar, spyrja álits á einhverju eða ítreka boð í pizzuveislu að loknum tiltektardegi.
Gott er að hafa hugfast að tengsl okkar við fólk eru ólík og krefjast ólíkra nálgana og samskipta. Ein stærð passar ekki öllum.
Að „hverfa inn í skelina“ er lúmsk og oft óræð þróun, sem erfitt er að koma orðum að eða benda á. Ólíklegt er að fólk sem er að einangrast félagslega láti vita að fyrra bragði. Treystum tilfinningu okkar og spyrjum frekar en að sleppa því. Ef enginn vandi er fyrir hendi er enginn skaði skeður.
Fólk getur verið mislengi að ná sér eftir ýmis konar áföll. Því lengri tíma sem batinn tekur, því erfiðara getur reynst að stíga aftur inn í samfélagið og tengja aftur við fólkið í kringum sig.
Við getum séð fjölda vísbendinga um félagslega einangrun í umhverfi okkar. Bifreiðar og reiðhjól geta staðið óhreyfð dögum eða vikum saman. Póstur hleðst upp í póstkassa.
Að sýna samhygð og umhyggju fyrir nágrönnum er ekki hnýsni. Í nútímasamfélagi verður sífellt brýnna að vinna gegn þessari tilfinningu. Félagsleg einangrun er vaxandi vandamál í öllum aldurshópum.
Hvað getum við gert?
Að finna ástæðu til að banka upp á hjá fólki getur verið hjálplegt. Leita ráða með eitthvað, fá lánað, spjalla um umhverfi og nágranna. Er hreinsunardagur framundan í húsinu? Er eitthvert verkefni framundan sem væri kjörið að leita ráða hjá þeim með? Má fá lánuð verkfæri eða búsáhöld? Það þarf ekki að leysa allt í fyrstu heimsókn. Bara að líta við og spyrja „hvernig ertu?“ Taka stutt kaffispjall. Svo má spyrja: „Er þér sama þó ég kíki við aftur bráðlega, bara til að tékka á þér?’’
Það getur verið hughreystandi fyrir fólk sem er að einangrast félagslega að finna að fólki er annt um það. Að hringja eða koma aftur í heimsókn getur gert heilmikið fyrir líðan þess og sjálfstraust. Það eykur líka traust og möguleikana á að manneskja treysti okkur fyrir stöðunni.
Ef samskipti eru stirð er gott að hafa einhver verkefni að leysa saman. Samræður um sameiginlega upplifun eru auðveldari en að finna eitthvað að ræða, sérstaklega ef við þekkjum einstaklinginn ekki vel.
Göngu- eða bíltúrar, sundferðir eða jafnvel „plokk“ geta skapað góðar aðstæður til að ræða saman. Sumum finnst auðveldara að ræða mál við einhvern sem gengur eða situr samsíða en einhvern sem situr beint á móti.
Mikilvægt að hafa í huga
Fólk einangrast ekki félagslega yfir nótt. Langvarandi einangrun hefur áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu. Oft þarf fólk á æfingu að halda áður en það er tilbúið að sinna félagslegum samskiptum að einhverju marki á ný.
Það eina sem þarf að gera er að hlusta! Gott er að hlusta með opnum hug, vandamál fólks eru allskonar og oft ólík okkar eigin.
Spyrjum opinna spurninga til að hvetja til nýrrar hugsunar. Hvað langar þig að gera núna? Hverju langar þig að breyta? Get ég hjálpað þér með eitthvað? Er eitthvað sem þig hefur alltaf langað til að prófa en ekki treyst þér?