Fara beint í efnið

P-merki, stæðiskort fyrir hreyfihamlaða

Umsókn um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða

Leiðbeiningar þessar eru gefnar út af sýslumönnum og eru til upplýsingar fyrir almenning um þau réttindi og skyldur sem gilda um stæðiskorta hreyfihamlaðra (P-kortin). Leiðbeiningarnar eru í samræmi við reglugerð nr. 1130/2016 um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða.

Notkun stæðiskorts

Stæðiskort hreyfihamlaðra veitir handhafa þess heimild til að:

  • Leggja ökutæki í P-merkt bifreiðastæði (stöðureit) sem er eingöngu ætlað hreyfihömluðum einstaklingum.

  • Leggja ökutæki í gjaldskylt P-merkt bifreiðastæði án sérstakrar greiðslu. Vakin er athygli á því að sérreglur kunna að gilda um um gjaldskyldu í þjóðgörðum.

  • Leggja ökutæki í samræmi við reglur um hreyfihamlaða í viðkomandi EES-ríki þar sem hann dvelur.

Korthafi þarf að gæta þess að hafa kortið staðsett innan við framrúðu ökutækis þannig að framhlið kortsins sjáist vel að utan. Ef lögreglumaður eða stöðuvörður sem annast eftirlit með P-stæðum (stöðureitum) krefst þess að sjá stæðiskortið ber handhafa þess skylda til að sýna stæðiskortið.

Öðrum er óheimilt að leggja í P-merkt bifreiðastæði nema korthafi sé með í för og hann ætli sér að fara í og/eða úr ökutækinu.  

Stæðiskort er bundið við handhafa þess (korthafa) en ekki bifreiðina sem korthafi notar.

Heimild annarra sem flytja hreyfihamlaða einstaklinga

Þegar ökutæki er sérstaklega útbúið fyrir flutning hreyfihamlaðra einstaklinga samkvæmt skráningarvottorði, hefur ökumaður ökutækis sömu heimild til að leggja í P-merkt bifreiðastæði eins og korthafinn sjálfur. Þetta á þó aðeins við þegar verið er að flytja hreyfihamlaðan einstakling.

Stofnanir eða heimili sem vista hreyfihamlaða einstaklinga og hafa fjárfest í eigið ökutæki vegna flutnings vistmanna geta sótt um sameiginlegt stæðiskort fyrir bifreiðina hjá sýslumanni.

Notkun kortsins við þessar aðstæður er ekki hugsuð til lengri tíma en sem tekur að aðstoða farþega í eða úr ökutækinu og eftir atvikum að því og frá. Kortið er ekki ætlað fyrir ökumann ökutækisins í öðrum tilgangi.


P-merkt stæði

Stæðiskorthöfum er ekki skylt að leggja í P-merkt stæði og eru hvattir til að nota almenn stæði þegar það hentar. Stæðiskorthafar þurfa ekki að greiða í gjaldskyld útistæði, en greiða þarf fyrir stæði í bílastæðahúsum. 

Stærstu P-merktu svæðin eru fyrst og fremst ætluð notendum lyftubíla. Ökumenn smábíla eru hvattir til að leggja í minni stæðin þegar hægt er. 

Lög og reglugerðir

Reglugerð nr. 1130/2016 um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða

Umsókn um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða

Þjónustuaðili

Sýslu­menn