Færni- og heilsumat
Umsókn þarf að berast færni- og heilsumatsnefndum á sérstöku eyðublaði.
Um færni- og heilsumat
Matið er faglegt, einstaklingsbundið mat á þörfum einstaklinga fyrir varanlega búsetu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Um er að ræða staðlað mat ásamt skilgreindum upplýsingum frá heilbrigðis- og félagsþjónustu og svæðisskrifstofu málefna fatlaðra auk læknabréfa frá læknum viðkomandi eftir því sem við á.
Metnar eru félagslegar aðstæður, heilsufar og andlegt ástand auk þess sem metin er færni í athöfnum daglegs lífs og gefur niðurstaða færni- og heilsumats til kynna hvort þörf er fyrir langtíma búsetu á hjúkrunar- eða dvalarheimilum.
Hvenær skal sækja um færni- og heilsumat?
Stefna heilbrigðisyfirvalda er að fólki sé gert kleift að búa á eigin heimili utan stofnana eins lengi og unnt er með viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Þegar aðstæður eru orðnar þannig að fólk getur ekki lengur búið heima þrátt fyrir stuðning heilbrigðis- og félagsþjónustu er tímabært að sækja um færni- og heilsumat. Þá þarf viðkomandi að vera tilbúinn að þiggja hjúkrunar- eða dvalarrými þegar það býðst.
Gildistími færni- og heilsumats, sem samþykkt hefur verið, eru tólf mánuðir frá staðfestingu þess. Hafi einstaklingi ekki boðist að flytja á hjúkrunar- eða dvalarheimili innan þess tíma þarf að endurnýja matið.
Lífeyrisgreiðslur
Ástæða er til að vekja athygli umsækjenda um færni- og heilsumat á því að þegar lífeyrisþegi flyst á hjúkrunar- eða dvalarheimili falla niður lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun (TR).
Frekari upplýsingar um þessi efni er að finna á vef TR
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis