Fara beint í efnið

Að stofna fyrirtæki

Helstu upplýsingar fyrir þá sem huga að stofnun fyrirtækis.

Til hvers að stofna fyrirtæki?

Þegar þú færir reksturinn inn í fyrirtæki eru skuldbindingar fyrirtækisins ekki þínar eigin, sé það rekið á sérstakri kennitölu, hluthafar bera þó ábyrgð eins og kveðið er á um í hlutafélagalögum.

Skattur af tekjum einkahlutafélaga og hlutafélaga er 20%, en skattur sameignarfélaga og samlagsforma er 36%. Sjálfstætt starfandi einstaklingar greiða 36,94% í lægra þrepi og 46,24% í efra þrepi.

Einkahlutafélög og hlutafélög greiða skatt af hagnaði sínum, ekki öllum tekjum. Að auki greiða þau skatt og gjöld af launum.

Nánar um stofnun fyrirtækis og skyldur launagreiðenda.

Get ég stofnað fyrirtæki?

Stofnendur fyrirtækja þurfa að hafa náð 18 ára aldri og vera lögráða. Þeir mega ekki hafa farið fram á né vera í greiðslustöðvun og bú þeirra má ekki vera undir gjaldþrotaskiptum.

Sérstök leyfi eða réttindi þarf til að stofna fyrirtæki í tiltekinni starfsemi, þá þarf í flestum tilvikum að uppfylla kröfur Vinnueftirlits eða aðrar sértækar kröfur eftir eðli starfseminnar.

Þú velur rekstrarform við hæfi

Einstaklingsrekstur er rekinn á kennitölu einstaklings og ber hann ábyrgð á rekstrinum með öllum eignum sínum. Slíkur rekstur ber ekkert skráningargjald og ekkert lágmarks stofnfé.

Félagsform eru rekin á sérstakri kennitölu fyrirtækisins. Munur milli félagsforma er varðandi ábyrgð, skattaumhverfi, hlutafé, bókhaldsreglur og skráningu. Algengustu formin eru:

Hægt er að sækja rafrænt um nýskráningu félags á vef Ríkisskattstjóra. Þar eru einnig nánari upplýsingar fyrir nýja aðila í rekstri.

Nafn fyrirtækis og lögheimili fyrirtækis

Þegar fyrirtæki er stofnað þarf að skrá nafn fyrirtækisins, svokallað firmaheiti. Einnig þarf að skila inn lögheimili og upplýsingum um stofndag félagsins. Firmaheiti má ekki vera of líkt öðru firmaheiti eða vörumerki annars félags.

Öllum þessum upplýsingum skilar þú inn til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Það getur þú gert rafrænt á sama tíma og þú stofnar fyrirtækið í fyrirtækjaskránni. Ef breytingar verða, t.d. á lögheimili, eigendum eða stjórn, getur þú einnig tilkynnt það rafrænt til fyrirtækjaskrár í gegnum þjónustusíður Skattsins.

Kostnaður og hlutafé við stofnun

Stofnun fyrirtækis krefst skráningar og vottorða sem greitt er fyrir hjá Skattinum.

Þegar einkahlutafélag eða hlutafélag er stofnað þarf einnig að útvega hlutafé. Það þarf annað hvort að leggja þá fjármuni inn á reikning sem stofnaður er í nafni félagsins eða hafa eignir sem metnar eru fyrir þeirri upphæð sem þarf að vera til staðar.

Upphæð hlutafjár eftir því hvort formið verður fyrir valinu. 

Upplýsingar um upphæð fyrir einkahlutafélög

Upplýsingar um upphæð fyrir hlutafélög

Gögn sem þarf að skila inn

Þegar fyrirtæki er stofnað þá þurfa mikilvæg gögn að fylgja með umsókninni. Ef félag er skráð rafrænt þá eru þessar upplýsingar inn í því ferli en ef sækja á um á pappír þá þurfa eftirfarandi gögn að fylgja skráningu:

  • Tilkynning um stofnun einkahlutafélags

  • Stofnsamningur eða stofnsamningar ef fleiri en einn er að stofna félagið

  • Samþykktir

  • Stofnfundargerð

Upplýsingar um fylgigögn má finna á vef Skattsins

Hagstofa Íslands safnar stundum gögnum frá fyrirtækjum í gegnum spurningaeyðublöð á vef. Þetta eru til dæmis gögn um vöruframleiðslu, birgðir, rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, landbúnað, ferðaþjónustu, nýsköpun, rannsóknir og þróun, upplýsingatækni, laun, skólamál, félagsþjónustu og fjármál sveitarfélaga.

Ráðning starfsfólks

Við ráðningu starfsfólks tekur atvinnurekandi/launagreiðandi á sig skuldbindingar sem snúa meðal annars að stéttarfélögum, lífeyrissjóðum og hinu opinbera.

Ráðningarsamningar er oftast byggðir á kjarasamningi. Þar er kveðið á um lágmarkskjör og ýmis réttindamál, svo sem laun, vinnutíma og orlof. Sem atvinnurekanda er þér skylt að sjá til þess að allur aðbúnaður, heilbrigði og öryggi á vinnustað sé í lagi í samstarfi við starfsmenn.

Fyrirtæki sem greiða laun þurfa að vera á skrá hjá launagreiðendaskrá hjá skattsstjóra.

Til viðbótar við þessar hefðbundnu skyldur launagreiðanda getur einnig verið að þú þurfir að aðstoða starfsfólk í öðrum aðstæðum. Það á til að mynda við þegar skila þarf vottorði og staðfestingu vegna umsóknar um fæðingarorlof, vottorði vinnuveitanda vegna umsóknar um sjúkradagpeninga og staðfestingu starfstímabils vegna umsóknar um atvinnuleysisbætur.

Bókhald og reikningsskil

Skylt er að færa bókhald fyrirtækisins, hvert sem rekstrarformið er. Skylt er að tilkynna sig hjá skattayfirvöldum og standa skil á greiðslu virðisaukaskatts eins og við á.

Fyrirtæki greiða tryggingagjald og önnur launatengd gjöld til ríkis, sveitarfélaga, stéttarfélaga og lífeyrissjóða eins og við á, sem og að standa skil á rekstrartengdum sköttum og gjöldum.

Fyrirtæki skila inn skattframtali árlega, rétt eins og einstaklingar. Skil eru í langflestum tilvikum rafræn og er opnað fyrir netframtal á þjónustusíðu Skattsins í byrjun febrúar ár hvert. Skilafrestur lögaðila er rýmri en skilafrestur einstaklinga en lokaskiladagur er 31. maí.

Öll hlutafélag, einkahlutafélög, samlagshlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri eiga að skila ársreikningum til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Ársreikningi skal skilað ekki seinna en mánuði efitr samþykkt eða átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Ársreikningi er skilað rafrænt á þjónustuvef Skattsins.

Virðisaukaskattur

Greiddur er virðisaukaskattur af öllum innlendum viðskiptum og við innflutning vöru og þjónustu. Almenn skattprósenta er 24% en ákveðnar vörur og þjónusta bera 11% virðisaukaskatt.

Fyrirtæki innheimta þennan skatt fyrir ríkissjóð hjá neytendum og standa skil á honum til ríkissjóðs í gegnum þjónustuvef Skattsins, vefbanka banka og sparisjóða eða beint úr bókhaldskerfum sem bjóða upp á rafræn skil. Virðisaukaskattur er almennt gerður upp á tveggja mánaða fresti. Frá því eru undantekningar, t.d. hjá einstaklingum sem eru nýir í rekstri og í landbúnaði. Því má segja að fyrirtækin séu í ákveðinni skattheimtu, en skattprósenta kemur fram á kvittunum fyrir vörum og þjónustu.

Ef reksturinn sem verið er að stofna til er virðisaukaskattskyldur þarf að tilkynna það til viðkomandi skattstjóra 8 dögum áður en starfsemin hefst. Fyrirtækinu þarf að úthluta virðisaukaskattsnúmeri áður en starfsemi hefst.

Almennt um virðisaukaskatt

Þarf þín starfsemi leyfi?

Huga þarf að því hvort þörf er á leyfum og/eða skráningum fyrir viðkomandi starfsemi.

Leyfi geta verið af ýmsum toga, sbr. sveins- eða meistarabréf, löggildingu, starfsleyfi vottun og þess háttar. Meðal aðila sem úthluta slíkum leyfum eru sveitarfélög, heilbrigðiseftirlit, Umhverfisstofnun, sýslumenn, Ferðamálastofa, Samgöngustofa og Vinnueftirlitið.

Meðal aðila sem hafa eftirlit með starfsemi eru Matvælastofnun, Matís, Vinnueftirlitið Umhverfisstofnun og Samgöngustofa.