Atvinnurekendur eiga rétt á að vita um fyrirhugað fæðingarorlof 8 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns, samkvæmt lögum.
Þegar sótt er um fæðingarorlof á Ísland.is fær atvinnurekandi tölvupóst. Þessi tölvupóstur er tilkynning um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs. Atvinnurekandi þarf ekki að samþykkja tímabil fæðingarorlofs strax heldur hefur tíma til að hugsa sig um eða koma með athugasemdir.
6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag
Í öllum tilfellum eru umsækjendur hvattir til að senda inn umsókn í það minnsta 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Afgreiðsla umsókna getur tekið 2-5 vikur.
Þegar barn er frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur er miðað við daginn sem barn kemur inn á heimili í stað áætlaðs fæðingardags.
Það tekur venjulega 2-5 vikur að afgreiða umsókn. Ef fylgigögn vantar getur afgreiðslutíminn lengst.
Staða umsóknar
Ef enginn tölvupóstur berst umsækjanda er enn verið að afgreiða umsóknina. Ef frekari upplýsingar vantar fær foreldri sendan póst um það.
Vinnslu lokið
Réttindabréf. Foreldri fær sent bréf í tölvupósti þegar vinnslu umsóknar er lokið. Í bréfinu eru niðurstöður útreiknings um rétt til fæðingarorlofs.
Greiðsluáætlun. Þegar barn hefur fæðst fær umsækjandi greiðsluáætlun í tölvupósti. Þar koma fram upphæðir sem greiddar verða í hverjum mánuði.
Greitt er síðasta virka dag mánaðar.
Dæmi: Foreldri sem byrjar í fæðingarorlofi í janúar fær greitt síðasta virka daginn í janúar.
Réttar greiðslur
Aðrar greiðslur sem foreldri fær á sama tíma og það er í fæðingarorlofi geta haft áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Það er mikilvægt að láta vita um breytingar á tekjum og greiðslur frá atvinnurekendum með því að senda tölvupóst til: faedingarorlof@vmst.is. Annars getur foreldri fengið of háar greiðslur í fæðingarorlofi sem þarf að greiða til baka með 15% álagi.
Launaseðlar eru í heimabanka undir rafrænum skjölum. Yfirleitt birtast launaseðlar í heimabanka 2 dögum fyrir greiðslu.
Það er hægt að breyta tímabili sem var búið að skrá og skrá nýtt tímabil fæðingarorlofs eftir að orlofið hefst, í samráði við vinnuveitanda.
Þetta er gert í sömu umsókn og var send til að sækja um fæðingarorlofið. Umsóknin er á Mínum síðum á Ísland.is, undir Umsóknir. Það á ekki að búa til nýja umsókn.
Hægt er að reikna út mögulegar greiðslur í fæðingarorlofi: Opna reiknivél
80% af meðaltali heildarlauna yfir ákveðið tímabil er mánaðargreiðsla í fæðingarorlofi.
700.000 krónur er hámarksgreiðsla á mánuði. Það getur enginn fengið hærri greiðslur en þessa upphæð í fæðingarorlofi, sama hversu há laun viðkomandi hafði.
222.494 krónur er lágmarksgreiðsla á mánuði til foreldris í 50-100% starfi.
Fæðingarorlof er hluti starfstíma þegar ýmis starfstengd réttindi eru metin. Dæmi um starfstengd réttindi eru réttur til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkun, veikindaréttur, uppsagnarfrestur og réttur til atvinnuleysisbóta.
Ráðningarsamband milli starfsmanns og atvinnurekanda helst óbreytt í fæðingarorlofi. Launafólk á rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að því loknu.
Sé þess ekki kostur skal viðkomandi eiga rétt á sambærilegu starfi hjá atvinnurekanda í samræmi við ráðningarsamning.
Það er óheimilt að segja upp starfsmanni vegna þess að viðkomandi hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs, eða er í fæðingarorlofi, nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Þá skal skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir barnshafandi foreldri og foreldri sem hefur nýlega fætt barn.
Fæðingarstyrkur
Foreldrar sem eru í námi, eru ekki í vinnu eða í minna en 25% starfshlutfalli geta átt rétt á fæðingarstyrk: