Fara beint í efnið

Umsókn um fæðingarorlof

Umsókn um fæðingarorlof

Á þessari síðu

Upphæðir og útreikningur

Almennar upplýsingar um útreikning fæðingarorlofs

Mánaðargreiðsla til foreldris í fæðingarorlofi er 80% af meðaltali heildarlauna yfir ákveðið tímabil.

Greiðslur verða þó ekki hærri en 700.000 krónur á mánuði. Það er hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði.

  • Fyrir börn sem fæðast á árinu 2025 verður hámarksgreiðsla 800.000 krónur.

  • Fyrir börn fædd á árinu 2026 verður hámarksgreiðsla 900.000 krónur.

Hvaða tímabil er miðað við?

Við útreikning er miðað við við 12 mánaða tímabil á íslenskum vinnumarkaði. Það má ekki miða við færri en 4 mánuði við útreikning.

Launafólk

Fyrir launafólk er skoðað 12 mánaða tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns.

Dæmi: Fæðingardagur barns er 1. desember 2024. Tímabil útreiknings er 1. júní 2023 - 31. maí 2024.

Sjálfstætt starfandi

Fyrir sjálfstætt starfandi er skoðað árið á undan fæðingarári, frá janúar til desember.

Dæmi: Fæðingardagur er 1. desember 2024. Tímabilið sem gildir við útreikning er 1. janúar 2023 - 31. desember 2023.

Bæði launþegi og sjálfstætt starfandi

  • Ef launþegi er í 50% eða hærra starfshlutfalli á réttindatímabilinu, sem eru síðustu 6 mánuðirnir fyrir fæðingu barns, er 12 mánaða viðmiðunartímabil launþega skoðað.

  • Ef launþegi er í minna en 50% starfshlutfalli á réttindatímabilinu, sem eru síðustu 6 mánuðirnir fyrir fæðingu barns, er 12 mánaða viðmiðunartímabil sjálfstætt starfandi skoðað.

Hvað er talið sem laun?

Til útreiknings koma laun og þóknanir af íslenskum vinnumarkaði, þar með talið reiknað endurgjald. Skilyrði er að það hafi verið greitt tryggingagjald af þessum greiðslum.

Þátttaka á vinnumarkaði

Fyrir utan laun og reiknað endurgjald eru greiðslur vegna annarrar þátttöku á vinnumarkaði líka teknar með í útreikning. Hægt er að sjá hvað telst til þátttöku á vinnumarkaði utan hefðbundinna starfa hér: Réttur til fæðingarorlofs, undir „Vinna“.

Frekari upplýsingar: Lög um fæðingarorlof, grein 22.

Lágmarksgreiðsla

  • 222.494 krónur á mánuði til foreldris í 50-100% starfi.

  • 160.538 krónur á mánuði til foreldris í 25-49% starfi.

Ef umsækjandi er í minna en 25% starfi getur viðkomandi sótt um fæðingarstyrk.

Upphæðirnar eiga við um foreldra barna sem eru fædd, ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2024.

Skattar, önnur gjöld og nýting persónuafsláttar

  • Allar greiðslur frá fæðingarorlofssjóði eru staðgreiðsluskyldar.

  • Það er skylda að greiða í lífeyrissjóð.

  • Foreldrar geta valið að borga í séreignarsjóð í fæðingarorlofi en mótframlag vinnuveitanda er ekki greitt.

  • Foreldrar geta valið að greiða í stéttarfélag. Það er gott að hafa í huga að réttindi hjá stéttarfélagi geta fallið niður ef greiðslurnar til þess stöðvast.

Nýting persónuafsláttar

Hægt er að nýta persónuafslátt á móti frádrætti vegna staðgreiðslu skatta.

Nám eða starf utan Íslands

Foreldrar sem hafa verið í meira en 10 ECTS námi og í minna en 25% starfi, eða starfandi erlendis, gætu átt rétt á því að fá mánuði undanskilda við útreikning og þannig hækkað greiðslur í fæðingarorlofi.

Best er að hafa samband við Vinnumálastofnun til að fá leiðbeiningar ef slíkar aðstæður eiga við: faedingarorlof@vmst.is.

Umsókn um fæðingarorlof

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun