Almennar upplýsingar um hvað getur haft áhrif á greiðslur
Það sem getur haft áhrif á greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi eru:
Greiðslur frá atvinnurekendum.
Breytingar á tekjum.
Breytingar á fyrirhugaðri töku fæðingarorlofs.
Aðrar greiðslur
Foreldri getur ekki fengið greiðslur fæðingarorlofs og þessar greiðslur á sama tíma:
Atvinnuleysisbætur.
Endurhæfingarlífeyri.
Slysadagpeninga frá Tryggingastofnun.
Sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun.
Foreldragreiðslur vegna langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.
Greiðslur vegna orlofs eða starfsloka.
Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil. Þessar greiðslur koma til frádráttar.
Of háar greiðslur
Upplýsingar um greiðslur til foreldra eru bornar saman við upplýsingar frá Skattinum mánaðarlega. Ef foreldri fær of háar greiðslur þarf að borga til baka upphæðina sem var ofgreidd með 15% álagi.
Bréf í tölvupósti
Ef það kemur upp misræmi milli greiðsluáætlunar og raunverulegra tekna fær foreldri sent bréf í tölvupósti. Þetta bréf heitir Tilkynning um upphaf máls. Þar er beðið um útskýringu á misræminu og stundum óskað eftir gögnum, eins og launaseðlum. Viðkomandi hefur 15 daga frest til að skila útskýringum og gögnum.
Hvað get ég gert til að koma í veg fyrir of háar greiðslur?
Það er mikilvægt að láta vita um breytingar sem verða á tekjum og fyrirhugaðri töku fæðingarorlofs. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við fæðingarorlofssjóð ef spurningar vakna. Það er betra að fá ráðgjöf um framhaldið um leið og möguleiki er á að um of háar greiðslur sé að ræða.
Það er hægt að senda tölvupóst á faedingarorlof@vmst.is, nota spjallmennið Vinný eða hringja í síma 515 4800 og velja 2 fyrir samband við Fæðingarorlofssjóð.
Að borga til baka
Leggja inn á reikning
Hægt er að leggja upphæðina inn á: Reikning númer: 0111-26-1800, kennitölu: 450101-3380.
Að fá 15% álag fellt niður
Foreldri getur fært rök fyrir því að ekki sé hægt að kenna þeim um annmarka er leiddu til ofgreiðslu. Vinnumálastofnun metur hvort 15% álagið skuli fellt niður eftir að rökstuðningur berst.
Of lágar greiðslur
Greiðslur geta verið of lágar miðað við upplýsingar frá Skattinum. Það getur líka verið að í kjölfar kæru á ákvörðun Vinnumálastofnunar komist úrskurðarnefnd velferðarmála að þeirri niðurstöðu að foreldri sem hafi verið synjað um greiðslur hafi átt rétt á þeim, eða að greiðslur hefðu átt að vera hærri.
Upphæð greidd ásamt vöxtum
Vinnumálastofnun greiðir upphæðina sem var vangreidd ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu fæðingarorlofssjóðs. Vextir eru í samræmi við ákvarðanir Seðlabankans. Ef ástæða of lágra greiðslna var skortur á upplýsingum frá umsækjanda falla vextirnir niður.
Lesa meira: Lög um vexti og verðtryggingu númer 38 frá 2001.
Inneign á rétti
Foreldri á mögulega inni rétt til fæðingarorlofs og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í kjölfar endurgreiðslu ef önnur skilyrði til þess eru uppfyllt, það er, samkomulag við vinnuveitanda um skipulag orlofsins.
Þetta á ekki við ef réttur til fæðingarorlofs féll niður vegna aldurs barns eða of langt er liðið frá því að barn kom inn á heimili við frumættleiðingu eða varanlegt fóstur.
Niðurstaða kærð
Ef það kemur upp ágreiningur um ákvörðun Vinnumálastofnunar er hægt að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Þjónustuaðili
Vinnumálastofnun