Fara beint í efnið

Fæðingarstyrkur námsmanna

Sækja um fæðingarstyrk fyrir foreldra í námi

Almennt um fæðingarstyrk

Foreldrar sem eru í námi geta átt rétt á fæðingarstyrk, í 6 mánuði fyrir hvort foreldri.

Heildarréttur tveggja foreldra er 12 mánuðir. 6 vikur eru framseljanlegar.

Báðir foreldrar geta hafið töku fæðingarstyrks frá 1. degi þess mánaðar sem barn fæðist í eða síðar.

Skilyrði

  • Foreldrar þurfa að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti 6 mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur, til að eiga mögulega rétt á fæðingarstyrk.

  • Foreldrar verða að hafa staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma.

  • Það er nauðsynlegt að vera með lögheimili á Íslandi.

Undanþágur frá skilyrði um lögheimili

Upphæð

Með reiknvélinni er hægt að sjá mögulegar upphæðir fæðingarstyrks.

222.494 krónur er mánaðarlegur styrkur til foreldris í fullu námi.

  • Fæðingarstyrkur er föst upphæð.

  • Tekin er staðgreiðsla af styrknum.

  • Þessi upphæð á við um styrki vegna barna sem eru fædd á árinu 2024.

Sækja um

Tímabil fæðingarstyrks

  • Hægt er að hefja töku styrks fyrsta dag mánaðar sem barn fæðist í.

  • Það má skipta greiðslutímabili fæðingarstyrks á fleiri en eitt tímabil en hvert tímabil má ekki vera styttra en 2 vikur.

  • Ef foreldri hefur verið í vinnu síðustu tvo mánuði fyrir fæðingu barns er heimilt að taka styrkinn í minnkuðu hlutfalli í samráði við vinnuveitanda.

Nám og vinna

Það gæti verið betra fyrir foreldri sem hefur unnið launuð störf í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði samhliða námi síðustu 6 mánuðina fyrir fæðingu barns að sækja um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði. Foreldrar eru hvattir til að kanna það hjá Fæðingarorlofssjóði. Netfang: faedingarorlofssjodur@vmst.is

Tekjumissir bættur af vinnuveitanda

Foreldri getur verið heimilt að fá tekjumissi bættan sem greiðsla fæðingarstyrks bætir ekki.

Þetta á aðeins við ef foreldri hefur unnið launuð störf í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði samhliða námi síðustu 6 mánuðina fyrir fæðingu barns.

Þá er miðað við að vinnuveitandi megi bæta mismun á greiðslu fæðingarstyrks og meðaltals heildarlauna síðustu 2 mánuði fyrir fæðingarmánuð barns.

Ef greiðslur eru hærri en sem nema þessu meðaltali er hætta á að foreldri fái of háan styrk greiddan miðað við réttindi. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við Fæðingarorlofssjóð til að vita hver upphæðin er sem ekki má fara yfir. Netfang: faedingarorlofssjodur@vmst.is

Sækja um fæðingarstyrk fyrir foreldra í námi

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun

Tengt efni