Umsækjandi getur ekki fengið fæðingarstyrk og þessar greiðslur á sama tíma:
Atvinnuleysisbætur.
Endurhæfingarlífeyri.
Slysadagpeninga frá Tryggingastofnun.
Sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun.
Foreldragreiðslur vegna langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.
Greiðslur vegna orlofs eða starfsloka.
Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil. Þessar greiðslur koma til frádráttar.
Aukinn réttur til fæðingarstyrks
3 mánaða sameiginlegur réttur foreldra til fæðingarstyrks bætist við fyrir hvert barn sem fæðist á lífi eftir 22 vikna meðgöngu. Hið sama gildir fyrir hvert barn umfram eitt sem er frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur á sama tíma.
Komi upp alvarleg veikindi hjá barnshafandi foreldri í tengslum við fæðinguna sem rekja má til fæðingarinnar sjálfrar, og viðkomandi hefur af þeim völdum verið ófær um að annast um barn sitt þann tíma sem fæðingarstyrkur var greiddur að mati sérfræðilæknis, er heimilt að framlengja fæðingarstyrkinn um allt að 2 mánuði.
Gögn sem þurfa að berast: Læknisvottorð vegna veikinda móður.
Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um allt að 7 mánuði ef um er að ræða alvarleg veikindi barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris.
Gögn sem þurfa að berast: Vottorð vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar barns.
Eitt foreldri færi aukinn rétt
Barnshafandi foreldri sem gengist hefur undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur frumættleitt barn eða tekið í varanlegt fóstur getur öðlast rétt í 12 mánuði.
Gögn sem þurfa að berast: Staðfesting á að foreldri hafi farið eitt í tæknifrjóvgun, ættleitt eða tekið barn í varanlegt fóstur.
Foreldri sem fætt hefur barn getur öðlast rétt í allt að 12 mánuði í þeim tilfellum þegar foreldrið er ekki fært um að uppfylla skyldu til að feðra barn sitt.
Gögn sem þurfa að berast: Niðurstaða feðrunarmáls frá sýslumanni eða dómstólum.
Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 24 mánaða aldri færist sá réttur sem það hafði ekki nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldrisins og verður að þeim réttindum sem eftirlifandi foreldrið hefur áunnið sér.
Ef foreldri er ófært að annast um barn sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess er því heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks sem það hefur ekki nýtt sér til hins foreldrisins.
Ástand foreldris skal staðfest með læknisvottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið sem og sé ástand þess með þeim hætti að því er ófært að veita samþykki sitt fyrir framsali réttinda.
Gögn sem þurfa að berast: Vottorð sérfræðilæknis og staðfesting á að viðkomandi foreldri vilji framselja rétt sinn.
Foreldri barns þar sem hitt foreldrið á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks hér á landi né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki getur öðlast rétt í allt að 12 mánuði.
Eigi hitt foreldrið rétt í öðru ríki dregst sá tími frá.
Gögn sem þurfa að berast: Staðfesting á rétti/réttleysi frá því ríki sem foreldri gæti átt rétt frá og fæðingarvottorð þar sem staðfest er að viðkomandi sé foreldri barnsins.
Ef foreldri er ófært að annast um barn sitt vegna afplánunar refsivistar á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess er því heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks sem það hefur ekki nýtt sér til hins foreldrisins.
Í tilviki frumættleiðingar eða varanlegs fósturs er miðað við 24 mánuði eftir að barnið kom inn á heimilið.
Ef foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu, hinu foreldrinu og/eða brottvísun af heimili og er af þeim völdum ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess færist réttur þess sem það hefur ekki þegar nýtt sér yfir til hins foreldrisins.
Gögn sem þurfa að berast: Staðfesting lögreglustjóra eða dómstóla um að foreldri sæti nálgunarbanni/brottvísun út þann tíma sem foreldri hefur til að taka fæðingarstyrkinn.
Ef fyrirséð er að forsjárlaust foreldri muni ekki annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu eða þann tíma sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur þar sem foreldrið hefur ekki umgengni við barnið á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla er heimilt að færa rétt forsjárlausa foreldrisins sem það hefur ekki þegar nýtt sér yfir á hitt foreldrið.
Hið sama gildir ef umgengni forsjárlausa foreldrisins er verulega takmörkuð, svo sem undir eftirliti á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla.
Gögn sem þurfa að berast: Staðfesting sýslumanns um að foreldri fari með fulla og óskipta forsjá og staðfesting um að forsjárlausa foreldrið hafi ekki umgengni á grundvelli niðurstöðu sýslumanns eða dómstóla/staðfesting á verulega takmarkaðri umgengni frá sýslumanni eða dómstólum.
Í tilviki frumættleiðingar eða varanlegs fósturs er miðað við 24 mánuði eftir að barnið kom inn á heimilið.
Forsjárlausir foreldrar
Forsjárlaust foreldri getur nýtt rétt sinn til fæðingarstyrks.
Samþykki fyrir umgengni
Forsjárlaust foreldri þarf að fá samþykki þess foreldris sem fer með forsjá barnsins um að það hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðslur fæðingarstyrks standa yfir.
Það er hægt að samþykkja umgengni þegar sótt er um fæðingarstyrk á netinu.
Viðurkenning á faðerni
Ef foreldrar eru ekki í hjónabandi eða skráðri sambúð þarf að feðra barnið, það er, faðernisviðurkenning verður að fara fram og fæðingarvottorð að berast útgefið af Þjóðskrá.
Faðernisviðurkenning getur farið fram hjá Þjóðskrá, sýslumanni eða fyrir dómara í dómsmáli til feðrunar barns.
Um forsjá og rétt til fæðingarorlofs
Sameiginleg forsjá
Ef foreldrar barns eru í hjónabandi eða skráðri sambúð við fæðingu barns eru foreldrar með sameiginlega forsjá.
Ef barnshafandi foreldri er ekki í hjónabandi eða skráðri sambúð við fæðingu barns fer það foreldri eitt með forsjá þess.
Endurúthlutun réttinda
Foreldri kann að eiga inni rétt til fæðingarstyrks í kjölfar endurgreiðslu.
Önnur skilyrði til fæðingarstyrks verða að vera uppfyllt. Það þýðir að að réttur til fæðingarstyrks má ekki hafa fallið niður vegna aldurs barns eða of langt vera um liðið frá því að barn kom inn á heimili við frumættleiðingu eða varanlegt fóstur.
Réttur fellur niður
Réttur til fæðingarstyrks fellur niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs. Í þessum tilvikum eiga kynforeldrar sameiginlegan rétt á greiðslu fæðingarstyrks í 2 mánuði eftir fæðingu barns.
Þá fellur réttur til fæðingarstyrks niður við andlát barns. Foreldri kann að eiga rétt til sorgarstyrks.