Að læra á bíl
Upplýsingar um þau skref sem þarf að taka til að læra á bíl og fá bílpróf. Ökunám til bílprófs getur hafist við 16 ára aldur og skynsamlegt er að ætla sér góðan tíma í ökunám.
Finna og velja ökukennara
Ökunemi velur sér ökukennara. Gott er að velja ökukennara sem býr nálægt lögheimili þínu.
Sækja um námsheimild
Um leið og búið er að velja ökukennara og áður en nám hefst þarf að sækja um námsheimild á Ísland.is. Þegar námsheimild er samþykkt stofnast stafræn ökunámsbók ökunema inn á Mínum síðum. Ökunámsbók heldur utan um allt sem viðkemur ökunáminu.
Nám í ökuskóla
Taka þarf verklega ökutíma og bóklegt nám í ökuskóla. Ökunemi velur ökuskóla til að taka bóklegt nám í ökuskóla. Bóklegt nám er tekið samhliða verklegum tímum með ökukennara. Bóklega námið skiptist í ökuskóla 1, 2 og 3.
Æfingaakstur með leiðbeinanda
Ökukennari staðfestir í ökunámsbók þegar ökunemi er reiðubúinn til að hefja æfingaakstur. Nauðsynlegt er að vera búinn að klára Ökuskóla 1 og að lágmarki 10 verklega ökutíma áður en æfingaakstur hefst. Leiðbeinandi þarf að sækja um leyfi til sýslumanns fyrir æfingaakstri.
Taka bóklegt próf
Bóklegt próf má taka mest tveim mánuðum áður en ökunemi verður 17 ára.
Prófið er krossapróf, skiptist í tvo hluta og er samtals 30 spurningar. Hámarks villufjöldi er 7, þó má villufjöldi í A hluta ekki vera meiri en 2.
Ef nemandi fellur í bóklega prófinu, þarf að bíða í eina viku þar til hægt er að taka prófið aftur.
Taka verklegt próf
Verklega prófið skiptist í munnlegt próf og próf í aksturshæfni:
Í munnlega prófinu er spurt um ýmislegt sem snertir bílinn sjálfan eins og ljós í mælaborði og stjórn – og öryggistæki sem tengjast viðhaldi bílsins.
Í prófi í aksturshæfni reynir á hæfni próftaka á götum í þéttbýli og utan þess við mismikinn umferðarþunga. Meðal þess sem metið er er vistakstur, þekking á umferðarreglum, undirbúningur aksturs og fleira.
Bráðabirgðaskírteini
Eftir að hafa staðist bæði bóklegt og verklegt próf er hægt að sækja rafrænt bráðabirgðaökuskírteini sem gildir í þrjú ár.
Fullnaðarskírteini
Sækja má um fullnaðarskírteini hafi ökumaður haft bráðabirgðaskírteini samfellt í 12 mánuði, lokið ökuskóla 3 og farið í akstursmat.