Að flytja
Góð ráð og hagnýtar upplýsingar þegar fólk flytur innanlands eða til og frá Íslandi.
Byrjaðu á að tilkynna flutning
Flutning skal tilkynna innan 7 daga eftir að flutt er með rafrænum hætti eða í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík eða á Akureyri gegn framvísun löggildra skilríkja með þeim fyrirvörum og skilyrðum sem fram koma í einstökum tilvikum hér fyrir neðan.
Lögheimilisflutning má skrá 14 daga aftur í tímann, en gegn framvísun gagna sem staðfesta búsetu þína má skrá búsetu að hámarki eitt ár aftur í tímann frá þeim degi sem beiðni er lögð fram.
Hafðu í huga að Pósturinn fær ekki sjálfvirkt tilkynningar um flutning, því þarf að muna að láta Póstinn vita um breytt heimilisfang.
Ég er að flytja innanlands
Ef þú hefur ákveðið að flytja milli sveitarfélaga getur verið gott að skoða þjónustu nýja sveitarfélagsins, t.d. skóla, frístundir og atvinnulíf. Það getur þú gert á vef hvers sveitarfélags fyrir sig. Samband íslenskra sveitarfélaga heldur úti upplýsingavef um sveitarfélög á Íslandi.
Eftir flutninginn þarf að tilkynna hann innan 7 daga. Það er gert með rafrænum hætti eða í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík eða á Akureyri gegn framvísun löggildra skilríkja. Einstaklingar 18 ára og eldri verða að tilkynna flutning sjálfir.
Einungis er heimilt að skrá lögheimili í íbúðarhúsnæði og þarf húsnæðið að vera komið á byggingarstig 4. Einstaklingum er þó heimilt að skrá lögheimili á viðeigandi stofnun eða búsetuúrræðum þegar það á við.
Tilkynna flutning eða breytt aðsetur innanlands
Þegar þú hefur tilkynnt flutning til Þjóðskrár er nýja heimilisfangið þitt sjálfkrafa komið til annarra stofnana, þar á meðal nýs sveitarfélags ef þú flytur milli landshluta. Það getur hins vegar verið gott að athuga skráningu á heilsugæslustöð. Í Heilsuveru getur þú séð á hvaða stöð þú og fjölskylda þín er skráð. Ef þú þarft að gera breytingar á skráningu getur þú gert þær í gegnum réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands.
Ég er að flytja heim frá útlöndum
Þegar þú flytur heim þarf að tilkynna flutninginn með rafrænum hætti innan 7 daga eftir komu til landsins. Í kjölfarið þurfa öll þau sem flytja heim að koma í eigin persónu í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík eða á Akureyri eða á skrifstofu lögreglustjóra og framvísa ferðaskilríkjum. Að því loknu er flutningur skráður.
Annað ferli er fyrir flutning frá Norðurlöndunum, en hann þarf að tilkynna á eyðublaði A-257 og í kjölfarið í eigin persónu hjá Þjóðskrá Íslands eða hjá skrifstofu lögreglustjóra.
Um erlenda ríkisborgara gilda ólíkar reglur eftir því hvort um er að ræða norræna ríkisborgara, ríkisborgara EES/EFTA eða ríkisborgara utan EES/EFTA.
Tilkynna flutning frá Norðurlöndunum til Íslands
Ég er að flytja til útlanda
Þegar þú flytur til útlanda þarf að tilkynna flutninginn til Þjóðskrár Íslands með rafrænum hætti innan 7 daga. Í tilviki hjóna eða sambúðarfólks þarf maki að samþykkja flutninginn.
Flutning milli Norðurlanda þarf að tilkynna í eigin persónu hjá skráningarskrifstofu þess lands sem flutt er til vegna færslu ýmissa réttinda milli landanna.
Lögheimili barnsins flutt
Flutningur barns í sameiginlegri forsjá er tilkynntur til Þjóðskrár Íslands með samþykki beggja forsjárforeldra. Sé barnið að flytja frá einu forsjárforeldri til annars þarf að fylgja samningur um breytt lögheimili barns frá sýslumanni.
Sé barn að flytja til þriðja aðila þarf að fylgja samþykki þess sem barnið á að tengjast og dugir þá samþykki annars forsjárforeldris, séu þeir í hjúskap eða skráðri sambúð.
Sé forsjárforeldri eitt dugir sú undirritun, en skylt er að upplýsa umgengnisforeldri um flutning lögheimilis með a.m.k. sex vikna fyrirvara.
Við flutning á milli landa (til eða frá Íslandi) þurfa forsjárgögn frá landinu sem barnið er frá að fylgja. Með því er hægt að skrá forsjá barns í nýju landi og einfalda aðrar skráningar sem varða barnið og hagi þess.
Nánari upplýsingar um flutning barna á vef Þjóðskrár
Nánari upplýsingar um flutning lögheimilis barns á vef sýslumanna
Lögheimili hjóna flutt
Sambúðaraðilar skulu hafa sama lögheimili. Hjónum er heimilt að skrá lögheimili hvort á sínum staðnum liggi samþykki beggja fyrir.
Sé skilnaður fyrirhugaður þarf að tilgreina það í athugasemdum flutningstilkynningar. Skilnaði er gengið frá hjá sýslumanni. Hafi lögskilnaður farið fram í útlöndum eru gögn þess eðlis lögð fram.
Taki fólk upp samvistir á ný eftir skilnað að borði og sæng þarf samþykki beggja aðila að liggja fyrir. Við sameiginlega lögheimilisskráningu falla niður réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng.
Tekið við nýjum rafmagns- og hitamæli
Við flutning úr húsnæði er skilað inn álestri á mælum rafmagns- og hitaveitu eftir því sem við á. Veitufyrirtæki bjóða upp á að hvort sem er nýr eða fráfarandi íbúi skrái stöðu mælis og flutning.
Til að flytja nettengingu á nýtt heimili þarf að senda flutningsbeiðni á viðeigandi fjarskiptafyrirtæki.
Fasteignagjöld, fráveitugjöld og sorphirða á nýju heimili
Fasteignagjöld eru ávallt greidd af eiganda íbúðarhúsnæðis. Þegar fasteign skiptir um hendur eru opinber gjöld alla jafna gerð upp við undirritun afsals. Fasteignagjöld eru reiknuð út frá fasteignamati og innifela meðal annars gjöld vegna sorphirðu, en þau eru ákvörðuð af sveitarfélagi. Vatns- og fráveitugjöld eru reiknuð út frá fastagjaldi að viðbættu fermetragjaldi.
Við flutning er því óhjákvæmilegt að bæði fasteignagjöld og vatns- og fráveitugjöld taki breytingum í samhengi við stærð eignar og álagningu á hverjum stað.
Flutningur barns á milli skóla
Þegar flutt er í nýtt skólahverfi sendir þú tilkynningu og umsókn á viðeigandi sveitarfélag fyrir leikskóla og grunnskóla eftir því sem við á.
Þjónusta dagforeldra er ekki veitt af hinu opinbera og því er það foreldra sjálfra að finna dagforeldri. Þegar barn hefur fengið vistun hjá dagforeldri er í kjölfarið hægt að sækja um niðurgreiðslu þjónustunnar.
Breytingar á húsnæði vegna fötlunar
Ef þú þarft að gera breytingar á húsnæðinu sem þú flytur í vegna skertrar starfsorku, fötlunar eða hreyfihömlunar veitir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sérstök lán til að fjármagna breytingarnar.
Sérþarfalán eru verðtryggð lán með föstum vöxtum til 5 ára í senn eða út allan lánstímann. Þegar þú sækir um sérþarfalán þarftu að sýna fram á að sérþarfirnar leiði til aukins kostnaðar við breytingar, viðbætur, byggingu eða kaup á íbúð. Umsókn þarf að fylgja staðfesting á áætluðum framkvæmdakostnaði og læknisvottorð. Síðar þarftu svo að skila staðfestingu á framkvæmdakostnaði til stofnunarinnar.