Fara beint í efnið

Beiðni um skilnað

Telji hjón eða annað hjóna sig ekki geta haldið hjónabandinu áfram geta þau óskað eftir skilnaði.
Leita má til sýslumanns og óska eftir skilnaði. Ef hjón eru ekki sammála um að skilja, getur annað hjóna höfðað dómsmál og krafist skilnaðar

Sótt um skilnað

Sótt er um skilnað hjá sýslumanni í því umdæmi sem viðkomandi hjón búa í en hjón geta einnig samið um annað umdæmi. 

Mælst er til þess að hjón sem óska eftir skilnaði, annað eða bæði, fylli út beiðni um skilnað en einnig má panta viðtalstíma hjá sýslumanni með því að senda tölvupóst eða í síma. Einnig er mælst til þess að fólk undirbúi sig og kynni sér, eins og kostur er, eftirfarandi atriði sem ákveða þarf við skilnað. 

Í beiðni um skilnað til sýslumanns þarf meðal annars að gera grein fyrir eftirfarandi:

Mælt er með því að leggja fram fjárskiptasamning ef slíkt liggur fyrir er beiðnin er útfyllt og lögð fram. Ef fjárskiptasamningur liggur ekki fyrir á þessu stigi verður aðilum gefinn kostur á að leggja hann fram síðar. 

Sá sem óskar eftir skilnaðinum fyllir beiðnina út og sendir til sýslumanns sem kynnir skilnaðarkröfuna fyrir hinu hjónanna og býður aðilum í viðtal, saman eða í sitthvoru lagi eftir óskum. 

Viðtal hjá sýslumanni vegna skilnaðar

Viðtalið er hjá fulltrúa sýslumanns sem er lögfræðingur. Hjón geta óskað eftir því að mæta saman eða í sitthvoru lagi í viðtal. Ef annað hjóna mætir í viðtalið, þá er hinn aðilinn boðaður í viðtal síðar. 

Viðtal getur farið fram í fjarfundabúnaði. 

Heimilt er að mæta með einhvern með sér í viðtalið en það athugast að ef bæði hjónin mæta til viðtals þá þurfa bæði hjónin að vera sammála um hverjir sitja fundinn. Sérstaklega er tekið fram að þetta á ekki við ef annað hjóna eða bæði mæta með lögmann. 

Hægt er að óska eftir því að viðtalið fari fram á ensku en ef þörf er á túlki í viðtalinu þá þarf aðilinn sjálfur að útvega túlk. 

Í viðtalinu er:

  • tekin afstaða til grundvallar skilnaðarins

  • tekin afstaða til forsjár, lögheimilis og framfærslu barna undir 18 ára aldri og ágreiningur afmarkaður ef einhver er

  • fjallað um fjárskipti

  • tekin afstaða til kröfu um lífeyri

  • veittar leiðbeiningar samkvæmt hjúskapar- og barnalögum

  • leitað um sættir milli hjónanna, til að kanna grundvöll að áframhaldi hjúskaparins

Ef hjón eru sammála um öll þau atriði sem ákveða þarf við skilnað í viðtali hjá sýslumanni er leyfi til skilnaðar allra jafna gefið út sama dag. 

Grundvöllur skilnaðarins

Oft er fyrst sótt um skilnað að borði og sæng og svo lögskilnað að lágmarki sex mánuðum síðar, en einnig má sækja um beinan lögskilnað. 

Skilnaður að borði og sæng

Hjón geta verið sammála um að óska eftir skilnaði að borði og sæng hjá sýslumanni. 

Annað hjóna getur einnig óskað eftir því að fá skilnað að borði og sæng en til að sýslumaður geti gefið út leyfi til skilnaðar þarf sá sem krafan beinist gegn að samþykkja skilnaðarkröfuna. 

Taki hjón, sem hafa fengið gefið út leyfi til skilnaðar að borði og sæng, upp samvistir að nýju áður en þau fá leyfi til lögskilnaðar, geta þau óskað eftir því við Þjóðskrá Íslands að réttaráhrif skilnaðarins falli niður og að þau verði skráð í hjónaband að nýju.

Lögskilnaður eftir skilnað að borði og sæng

Hægt er að sækja um lögskilnað eftir að skilnaður að borði og sæng hefur varað í sex mánuði.

Beinn lögskilnaður

Hjón geta óskað eftir lögskilnaði án þess að skilja fyrst að borði og sæng hjá sýslumanni ef: 

  • þau eru sammála um að skilja lögskilnaði

  • annað hjóna hefur haldið framhjá makanum

  • annað hjóna hefur beitt maka eða barn sem býr hjá þeim, ofbeldi og hefur gengist við broti sínu eða hlotið dóm fyrir það

  • hjón hafa ekki búið saman vegna ósættis í eitt ár eða meira

  • annað hjóna var þegar gift þegar til hjúskaparins var stofnað

Kostnaður

  • Útgáfa leyfis til skilnaðar að borði og sæng kostar 5.400 krónur. 

  • Útgáfa til leyfis til lögskilnaðar kostar 6.500 krónur.

Greiða má fyrir leyfið hjá gjaldkera en einnig má millifæra inn á reikning sýslumanns þess umdæmis sem hefur skilnaðarmál til meðferðar.

Tilkynnt um breytta hjúskaparstöðu

Sýslumaður sendir Þjóðskrá tilkynningu um skilnað, breytt heimilisföng aðila ef það liggur fyrir, hvernig forsjá barns er háttað og hjá hvoru foreldri það hefur lögheimili í kjölfar skilnaðarins. 

Ef skilnaður er veittur fyrir dómstólum sendir dómurinn tilkynningu um skilnaðinn til Þjóðskrá Íslands. Það sama á við um forsjá og lögheimili barna sem ákveðið er fyrir dómi. 

Aðilar geta þó þurft að tilkynna öðrum stofnunum um breytta hjúskaparstöðu til dæmis vegna greiðslu bóta eða lífeyris sem taka breytingum eftir hjúskaparstöðu.

Ef þú ert ekki með rafræn skilríki getur þú nálgast PDF eyðublað hér.

Samvinna eftir skilnað

Vakin er athygli á þjónustu SES, samvinna eftir skilnað barnanna vegna, sjá vefsíðuna www.samvinnaeftirskilnað.is. Um er að ræða námskeið fyrir foreldra og börn á vefsíðunni og einnig sérhæfða ráðgjöf af hálfu sveitarfélaga, m.a. vegna forsjár og umgengni.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15