Fara beint í efnið

Fjölskylda og velferð

Sáttameðferð í ágreiningsmálum vegna barna

Áður en foreldri krefst úrskurðar sýslumanns eða höfðar mál fyrir dómstólum um forsjá barns, lögheimili þess, umgengni, dagsektir eða aðför er báðum foreldrum gert að mæta til sáttameðferðar hjá sáttamanni.  

Markmið sáttameðferðar er að hjálpa foreldrum að gera samning sín á milli um þá lausn mála sem er barni fyrir bestu án þess að þurfa til þess úrskurð sýslumanns eða dómstóla. Foreldrar hafa meiri áhrif á niðurstöðu máls í sáttameðferð heldur en eftir öðrum leiðum og byggir samkomulagið sem næst á því sem þeir telja sjálfir viðunandi og sanngjarnt. 

Fyrirkomulag sáttameðferðar

Sáttameðferð getur farið fram hjá fulltrúa sýslumanns eða öðrum sem hafa sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna. Foreldrar mæta saman á sáttafund og leggja fram sínar tillögur um lausn mála. Sáttamaður stýrir meðferðinni á hlutlausan hátt og leitast við að draga fram þá hagsmuni sem leitt geta til sátta. 

Barn sem náð hefur nægum þroska á kost á að tjá sig við sáttameðferð nema talið sé að það geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Barninu er þannig gefinn kostur á að hafa áhrif á eigin aðstæður. 

Umfang og kostnaður

Umfang sáttameðferðar er breytilegt eftir umfangi málsins, en getur í mesta lagi verið 7 fundir á 12 mánaða tímabili.

Sáttameðferð hjá sýslumanni er foreldrum að kostnaðarlausu.

Þeir sem mega vera viðstaddir sáttameðferð eru:

 • Foreldrarnir - báðum foreldrum er skylt að mæta

 • Barnið/börnin - sáttamaður metur hvort þau eru boðuð

 • Túlkur

 • Aðrir - háð samþykki beggja aðila

Ef samkomulag næst í sáttameðferð er kominn á samningur milli foreldranna og ekki þörf á frekara inngripi.

Undirbúningur foreldra 

Það er mikilvægt fyrir foreldra að undirbúa sig vel fyrir sáttafundi til að fá sem mest út úr þeim. Þá er gott fyrir þau að spyrja sig:

 • Hvernig eru samskipti okkar foreldranna og hvað get ég gert til að bæta þau?

 • Hvað gengur vel? Hvað gæti gengið betur?

 • Hef ég heyrt viðhorf hins foreldrisins og tekið sanngjarna afstöðu til þess?

 • Hvað vill barnið? Hvernig líður því og hvað get ég gert til að því líði betur?

 • Hvernig stuðla ég að góðum tengslum barnsins við hitt foreldrið? Hvernig tala ég um hitt foreldrið fyrir framan barnið?

 • Hvað vil ég að ávinnist í sáttameðferðinni? Hef ég skýrar tillögur? Hvað tel ég viðunandi niðurstöðu?

Það er líka nauðsynlegt fyrir foreldrana að átta sig á hlutverki sínu í sáttameðferðinni:

 • Að ræða málin á sanngjarnan og yfirvegaðan hátt

 • Að koma með tillögur sem taka tillit til aðstæðna barnsins, meðal annars aldurs þess og þroska.

 • Að hugsa lausnamiðað til framtíðar

Samkomulag næst ekki

Ef samkomulag næst ekki í sáttameðferð, gefur sýslumaður út vottorð sáttamanns um að sættir hafi ekki náðst. Þar er gert grein fyrir því hvernig sáttameðferð fór fram, helstu ágreiningsatriðum og sjónarmiðum barnsins ef það á við.

Vottorðið er forsenda þess að foreldrarnir geti farið með ágreiningsmál sín fyrir dómstóla eða krafist úrskurðar sýslumanns. Það gildir í sex mánuði og þarf foreldri að leita réttar síns fyrir sýslumanni eða dómstólum innan þess tíma.

Ef ekki næst sátt um umgengni þá geta foreldrarnir krafist úrskurðar sýslumanns um hana. 

Um önnur ágreiningsmál til dæmis hvar lögheimili barnsins á að vera eða hver á að fara með forsjá þess, þurfa foreldrarnir að höfða mál fyrir dómstólum. 

Viðtal við barn

Í forsjár, lögheimilis- og umgengnismálum á niðurstaðan að ráðast af hagsmunum barnsins. Það hefur rétt á að tjá sig og koma afstöðu sinni á framfæri. 

Viðtal við barn fer fram á skrifstofu embættis sýslumanns. Sérfræðingur í málefnum barna, sem er félagsfræðingur eða sálfræðingur, ræðir einslega við barnið á meðan foreldrarnir bíða frammi í biðstofu.

Viðtalið getur varað allt frá fimm mínútum upp í eina og hálfa klukkustund.

Í viðtalinu er rætt um daglega líðan barnsins og hvort það hafi óskir eða væntingar um tilhögun á forsjá, lögheimili eða umgengni. Rætt er um upplifanir barnsins af samskiptum foreldranna og líðan þess í aðstæðum á heimili og í umgengni. 

Viðtalið er ekki bara hugsað til að leita upplýsinga heldur býðst börnunum líka ráðgjöf í tengslum við viðtalið á meðan á því stendur. 

Sérfræðingurinn skrifar skýrslu um viðtalið við barnið og ákveður í samráði við það hvaða upplýsingum á að miðla til foreldranna.

Eftir viðtalið er mikilvægt að foreldrarnir hrósi barninu og láti það vita að ef það vilji ræða um viðtalið, þá séu þeir tilbúnir að hlusta.

Undirbúningur barns

Mörg börn hafa áhyggjur af því að foreldrarnir verði leiðir eða reiðir vegna þess sem það sagði í viðtalinu eða reyni að hafa áhrif á hvað barnið eigi að segja og hvað ekki. 

Foreldrar geta undirbúið börn sín fyrir viðtalið með því að segja þeim.

 • Að fullorðna fólkið sé að vinna að því að finna lausn og þess vegna vilji þau gjarnan heyra afstöðu barnsins

 • Að viðtalið sé tækifæri barnsins til að koma skoðunum sínum á framfæri

 • Að barnið ákveði sjálft hversu mikið eða lítið það vilji segja

 • Að það sem barninu finnst mikilvægt og það sem það vill að foreldrarnir viti verði skrifað niður og kynnt fyrir þeim

 • Að sérfræðingurinn sé til staðar fyrir barnið, til að hlusta á það og aðstoða

 • Að mörg börn fari í svona viðtöl og flestum þeirra líði vel með að segja frá afstöðu sinni


Sýslumenn

Sýslu­menn