Fara beint í efnið

Sáttameðferð fer fram áður en krafist er úrskurðar sýslumanns eða höfðað mál fyrir dómstólum um forsjá barns, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför.

Markmið sáttameðferðar er að hjálpa foreldrum að gera samning sín á milli um þá lausn mála sem er barni fyrir bestu án þess að þurfa til þess úrskurð sýslumanns eða dómstóla.

Hvernig fer mál í sáttameðferð

Ef það kemur í ljós við meðferð máls hjá sýslumanni að foreldrar eru ósammála um forsjá, lögheimili eða umgengni, þá fer málið í sáttameðferð hjá sáttamanni á vegum sýslumanns. 

Foreldrar geta einnig ákveðið að fara í sáttameðferð hjá sjálfstætt starfandi sáttamanni.

Framkvæmd sáttameðferðar

Foreldrar mæta að jafnaði saman á sáttafund og vinna að sameiginlegri lausn. Sáttamaður stýrir samtalinu en foreldrarnir ráða niðurstöðu þess. Sáttamaður leitast við að leiða samtal foreldra þannig að þarfir og hagsmunir barns og foreldra komi fram og unnið sé að skipulagningu samskipta í framtíð og bættu foreldrasamstarfi. Lögð er áhersla á framtíðina en ekki fortíðina.

Barn á rétt á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í sáttameðferðinni. Bent er á upplýsingar um viðtal við barn.

Foreldri sem vill mæta eitt á sáttafund, getur komið þeirri ósk á framfæri við sýslumann og er þá boðað til viðtals með foreldrum sitt í hvoru lagi. Um leið og þetta er sagt er mikilvægt að taka fram að markmið sáttameðferðar er að deiluaðilar nái að ræða saman um mál sitt í öruggum aðstæðum með aðstoð sáttamanns og geti haldið því áfram eftir að sáttameðferðinni lýkur.

Viðtal getur farið fram í fjarfundabúnaði.

Ef bæði mæta til viðtals þarf að ríkja samkomulag um það hverjir aðrir geti verið með í viðtalinu. Með samþykki geta aðrir verið með á fundinum.

Hægt er að óska eftir því að viðtalið fari fram á ensku en ef þörf er á túlki í viðtalinu þá þarf aðilinn sjálfur að útvega túlk.

Undirbúningur foreldra

Til umhugsunar fyrir foreldra sem eru að hefja sáttameðferð:

  • Hvernig eru samskipti okkar foreldranna? Hvað get ég gert til að bæta þau?

  • Hvað gengur vel? Hvað gæti gengið betur?

  • Hef ég heyrt viðhorf hins foreldrisins og tekið sanngjarna afstöðu til þess?

  • Hvað vill barnið? Hvernig líður því og hvað get ég gert til að því líði betur?

  • Hvernig stuðla ég að góðum tengslum barnsins við hitt foreldrið? Hvernig tala ég um hitt foreldrið fyrir framan barnið?

  • Hvað vil ég að ávinnist í sáttameðferðinni? Hef ég skýrar tillögur? Hvað tel ég viðunandi niðurstöðu?

Hlutverk foreldra í sáttameðferðinni:

  • Að ræða málin á sanngjarnan og yfirvegaðan hátt

  • Að koma með tillögur sem taka tillit til aðstæðna barnsins, meðal annars aldurs þess og þroska.

  • Að hugsa um lausnir til framtíðar.

Þjónustuaðili

Sýslu­menn

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15