InterRAI (e. Resident Assessment Instrument) er yfirgripsmikið þverfaglegt tæki sem metur hjúkrunarþarfir og heilsufar íbúa á hjúkrunarheimilum og í heimaþjónustu, með áherslu á gæði og öryggi meðferðar.
Niðurstöður interRAI-mats eru notaðar við úttektir á hjúkrunarheimilum sem framkvæmdar eru af embætti landlæknis, til að fylgjast með hvort þjónustan uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma.
InterRAI-matstækið var þróað í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar og hefur verið þýtt og staðfært víða um heim í fjölþjóðlegu samstarfi sem nefnist inter-RAI.
InterRAI gæðavísar eru notaðir til að fylgjast með og þróa gæði í umönnun á hjúkrunarheimilum. Dæmi um interRAI-gæðavísa eru: Algengi byltna, þunglyndiseinkenna, þvagfærasýkinga, þyngdartaps, daglegra líkamsfjötra/öryggisútbúnaðar, lítillar eða engrar virkni og þrýstingssára.
Stöðluð gæðaviðmið eru til fyrir einstaka gæðavísa sem taka mið af aðstæðum á Íslandi og byggja á vísindalegri þekkingu. Embætti landlæknis hefur beint þeim tilmælum til stjórnenda hjúkrunarheimilanna að þau nýti sér þessi viðmið til að fylgjast með gæðum þjónustunnar og grípa til umbóta á grunni þeirra. Sjá nánar: InterRAI-gæðavísa.
Lyfjagæðavísar eru fyrir hendi á hjúkrunarheimilum og nýtast til innra og ytra eftirlits og umbótastarfs. Lyfjagæðavísar snúa að öryggi lyfjameðferðar, gagnsemi lyfja, heildarnotkun ákveðinna lyfja og hagkvæmni meðferðar. Sjá nánar upplýsingar um lyfjagæðavísa.
Gæðaviðmið fyrir einstaka gæðavísa eru sýnd í töflunni hér að ofan. Þar koma fram bæði efri og neðri gæðaviðmið hvers gæðavísis. Viðmiðin eru skilgreind á eftirfarandi vegu:
Lélegt gæðaviðmið (efri mörk) er það viðmið sem talið er lýsa vandamáli sem er til staðar varðandi umönnun og meðferð íbúans. Þetta viðfangsefni þarf að kanna frekar og þarfnast umbóta.
Gott gæðaviðmið (neðri mörk) er það viðmið sem talið er lýsa góðri eða framúrskarandi umönnun og meðferð. Þar þarf að vinna að því að viðhalda þeim gæðum og ef unnt er að bæta þau enn frekar.
Gæðaeftirlit
Í tengslum við gæðaviðmiðin hefur verið unnið hjálparskjal þar sem hægt er að setja inn upplýsingar úr interRAI-gæðavísunum þannig að hægt er að sjá í fljótu bragði hvar heimilin standa varðandi íslensku gæðaviðmiðin.
Í skjalinu eru sett upp línurit fyrir alla 20 gæðavísana sem notaðir eru á Íslandi. Í fyrirsögn línuritanna er hver gæðavísir merktur með númeri sem er það sama og í RAI-forritinu. Sumir eru einnig stjörnumerktir, en það eru þeir gæðavísar sem taldir eru vera bestir til að bera saman á milli hjúkrunarheimila.
Aðeins einn gæðavísir er á hverri síðu og er nafn hans og númer á flipanum fyrir síðuna. Vakin er athygli á því að á fyrstu síðunni eru leiðbeiningar um notkun skjalsins.
Embætti landlæknis hefur beint þeim tilmælum til stjórnenda hjúkrunarheimila að þau nýti sér þessi viðmið til að fylgjast með gæðum þjónustunnar og grípi til umbóta á grunni þeirra.
Einnig notar embættið þessi viðmið til að fylgjast með gæðum þjónustu á hjúkrunarheimilum.
Rafræn skráning við interRAI-mat
Til að tryggja gagnaöryggi og persónuvernd eru öll gögn dulkóðuð í tölvusamskiptum. Með því að safna gögnunum í miðlægan gagnagrunn er hægt að fá heildarmynd af heilsufari og aðbúnaði aldraðra á öllum hjúkrunarheimilum á landinu. Hver stofnun hefur aðeins aðgang að sínum gögnum.
Notagildi interRAI-mats er ótvírætt:
Það stuðlar að einstaklingsbundinni meðferðaráætlun og markvissari hjúkrunarmeðferð.
Það gefur möguleika á að fylgjast með gæðum þjónustunnar og vinna umbótastarf ef þörf krefur.