Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Að leigja

Að leigja íbúðarhúsnæði felur bæði í sér réttindi og skyldur. Hér finnur þú upplýsingar fyrir leigjendur og leigusala ásamt upplýsingum um húsaleigusamninga og skráningu í Leiguskrá HMS. Þá er hér að finna fróðleik um húsnæðisbætur.

Það geta verið stór skref bæði fyrir leigusala og leigjanda að leigja íbúðarhúsnæði sem felur bæði í sér réttindi og skyldur. Leigusalinn er að afhenda fasteign sína til útleigu og leigjandinn er jafnvel að leigja íbúðarhúsnæði í fyrsta skipti.

Nánari upplýsingar um réttindi og skyldur varðandi leigu íbúðarhúsnæðis má finna á vef Leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna.


Leigjandi íbúðarhúsnæðis

Við leigu á íbúðarhúsnæði gilda lögbundnar skyldur og réttindi leigjanda sem mikilvægt er að kynna sér áður en leigusamningur er gerður.

Skyldur leigjanda

Leigjandi ber ríkar skyldur gagnvart leigusala og leiguhúsnæðinu. Þær varða meðal annars að:

  • greiða leigu á réttum tíma

  • gæta vel að eigninni

  • tilkynna bilanir eða tjón eins fljótt og unnt er


Réttindi leigjanda

Leigjandi nýtur jafnframt réttinda samkvæmt lögum. Þau varða einkum að:

  • fá skriflegan og skýran leigusamning

  • fá upplýsingar um leigufjárhæð og breytingar á henni á leigutíma

  • fá íbúð afhenta í íbúðarhæfu ástandi

  • tryggingafé sé varðveitt á sérgreindum óbundnum reikningi með eins háum vöxtum og hægt er

  • fá tryggingaféð greitt til baka með ávöxtun við lok leigusambands (ef ekki hefur verið reynt á greiðslu til leigusalans)

  • sækja um húsnæðisbætur

Hér finnur þú nánari upplýsingar fyrir leigjendur.

Húsaleigusamningur

Húsaleigusamningur er grundvallarskjal leigusala og leigjanda. Samkvæmt lögum skal leigusamningur vera skriflegur og skráður í Leiguskrá HMS.

Nauðsynlegt er að gera skriflegan leigusamning til að auðvelda lausn ágreiningsmála og vernda málsaðila ef uppkoma vandamál eða misskilningur á síðari stigum.

Að undanskildum grunnupplýsingum um aðila leigusamnings og fasteign þarf að koma fram hvort:

  • um herbergja eða íbúðaleigu er að ræða

  • hann sé tímabundinn eða ótímabundinn

  • kostnaður eins og hiti eða rafmagn sé innifalinn

  • setja skuli tryggingu og með hvaða hætti

Þá þarf leigufjárhæð, greiðsludagur og greiðslufyrirkomulag einnig að koma fram ásamt úttekt á ástandi húsnæði og brunavarnir.

Lestu nánar um gerð og skráningu leigusamninga fyrir íbúðarhúsnæði. Hér eru einnig upplýsingar um uppsagnir og riftanir leigusamninga.


Leigusali íbúðarhúsnæðis

Við útleigu á íbúðarhúsnæði gilda lögbundnar skyldur og réttindi leigusala. Mikilvægt er að kynna sér þau áður en útleiga hefst.

Skyldur leigusala

Leigusali ber skyldur gagnvart leigjanda og leiguhúsnæðinu. Þær varða meðal annars:

  • viðhaldsskyldu á húsnæði og búnaði sem fylgir eigninni, svo sem pípulögnum, rafmagni, gluggum, hurðum og tækjum

  • að húsnæðið sé í íbúðarhæfu ástandi við afhendingu

  • að veita skýrar og tímanlegar tilkynningar, til dæmis um forgangsrétt, uppsögn og breytingar á leigufjárhæð


Réttindi leigusala

Leigusali nýtur einnig réttinda samkvæmt lögum, þar á meðal að:

  • fá leigu greidda á réttum tíma

  • fá aðgang að íbúð til nauðsynlegra viðgerða, að höfðu samráði við leigjanda

  • krefja leigjanda um bætur eða viðgerðir ef tjón verður af hans völdum

  • fá húsnæðinu skilað í sama eða sambærilegu ástandi, að teknu tilliti til eðlilegs slits

Hér finnur þú nánari upplýsingar fyrir leigusala.

Húsnæðisbætur

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur frá HMS sem ætlaðar eru til að aðstoða fólk sem leigir íbúðarhúsnæði.

Fjárhæð húsnæðisbóta fer eftir fjölda íbúa á heimili, tekjum, eignum og leiguverði.

Hér getur þú lesið nánari upplýsingar um umsóknarferli, skilyrði, sérstakar húsnæðisbætur og nálgast reiknivél sem áætlar fjárhæð húsnæðisbóta.

Skráning leigusamninga

Frá og með 1. janúar 2026 þurfa allir leigusalar að skrá húsaleigusamninga í Leiguskrá HMS. Skráin inniheldur meðal annars upplýsingar um tegund húsnæðis, staðsetningu, leigufjárhæðir og gildistíma samninga.

Gátlisti fyrir húsaleigusamninga

Við gerð leigusamninga er mikilvægt að fyrir liggi:

Hver gerir hvað?

Leigusali

Leigjandi

Leigusamningur

Gerir skriflegan, lögmætan samning sem inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar og skráir í Leiguskrá HMS.

Á rétt á skýrum samningi; ósamræmi skýrist í hag leigjanda.

Ástand húsnæðis við afhendingu

Ber ábyrgð á að húsnæði sé í löglegu, öruggu og heilnæmu ástandi.

Á rétt á húsnæði sem er íbúðarhæft og gallalaust, nema annað sé skýrt tiltekið í samningi.

Viðhald og viðgerðir

Sér um stærri viðhaldsverkefni og varanlegar viðgerðir (þak, lagnir, rafmagn, og slíkt).

Annast smávægilegt viðhald og tilkynnir galla strax.

Viðbragð eða afleiðingar vanrækslu

Getur þurft að gefa afslátt af leigu, annast viðgerðir, eða sæta riftun.

Getur krafist afsláttar, óskað eftir að viðgerð fari fram á kostnað leigusala, eða rift samningi.

Tryggingar

Má krefjast tryggingar; verður að varðveita á sérstökum reikningi; má aðeins ráðstafa með rökstuddri kröfu.

Á rétt á endurgreiðslu innan 4 vikna ef engin lögmæt krafa berst.

Leigugreiðslur

Má aðeins innheimta lögmæta leigu samkvæmt samningi. Greiðir skatta og gjöld af leigutekjum.

Ber að greiða leigu á réttum tíma; á rétt á skýrri sundurliðun kostnaðar.

Aðgangur að húsnæði

Má skoða húsnæði með fyrirvara og í hófi; neyðartilvik undanþegin.

Á rétt á friðhelgi; má hafna óþarfa truflun.

Framleiga

Getur samþykkt eða hafnað framleigu húsnæðis ef rökstudd ástæða er til.

Má óska eftir að framleigja húsnæðið; þarf yfirleitt samþykki.

Skil húsnæðis og úttektir

Skoðar, gerir kröfur og endurgreiðir tryggingu innan frests.

Skilar húsnæði í sambærilegu ástandi (miðað við eðlilegt slit).

Uppsögn eða riftun

Má segja upp eða krefjast útburðar við brot; þarf að fylgja löglegri málsmeðferð.

Má segja upp eða rifta samkvæmt samningi ef húsnæði er hættulegt eða leigusali brýtur samning stórlega.

Ráðgjöf

Getur leitað til leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna eða Húseigendafélagsins.

Getur leitað til leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna.