Færni- og heilsumat
Umsóknarferli
Ferli við mat á umsókn um færni- og heilsumat
Sá eða sú sem í hlut á, eða einhver nákominn, fyllir út umsókn um færni- og heilsumat. Ef þörf krefur geta félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar eða heimilislæknir aðstoðað við gerð umsóknar.
Umsóknina skal senda til færni- og heilsumatsnefndar í því heilbrigðisumdæmi þar sem viðkomandi á lögheimili. Umsóknin felur í sér heimild fyrir nefndirnar til að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga, m.a. hjá heilbrigðis- og félagsþjónustu hafi umsækjandi notið þeirrar þjónustu.
Þegar umsókn hefur borist viðkomandi færni- og heilsumatsnefnd fer ákveðið ferli af stað.
Til þess að matsnefndin geti komist að niðurstöðu þarf hið eiginlega færni- og heilsumat að liggja fyrir en það framkvæmir heilbrigðisstarfsfólk sem þekkir til viðkomandi. Þar að auki er byggt á ákveðnum skilgreindum upplýsingum frá heilbrigðis- og félagsþjónustu, hlutaðeigandi læknum eða sjúkrastofnunum, eftir því sem við á.
Færni- og heilsumatsnefnd ber ábyrgð á að afla þessara gagna. Alla jafna er miðað við að ekki líði meira en fjórar vikur frá því að nefndinni berst beiðni um færni- og heilsumat þar til að niðurstaða liggur fyrir.
Niðurstaða færni- og heilsumats er kynnt umsækjanda skriflega og afrit er sent til heimilislæknis, heimahjúkrunar, félagsþjónustu og svæðisskrifstofu málefna fatlaðra ef við á.
Áður en til flutnings á hjúkrunar- eða dvalarheimili kemur þarf að liggja fyrir beiðni um færni- og heilsumat, færni- og heilsumatið sjálft, umsókn um hjúkrunar- eða dvalarheimili og úthlutunin sjálf.
Athugið: Sætti viðkomandi einstaklingur sig ekki við niðurstöðu færni- og heilsumatsnefndar getur hann skotið niðurstöðunni til ráðherra, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis