Mannauðstorg ríkisins: Ráðningar
Skipunarbréf og erindisbréf fyrir embætti
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um hver skuli ráðinn skal ganga skriflega frá skipun eða setningu í embætti.
Taka skal fram frá hvaða degi viðkomandi er skipaður eða settur í embættið, vísa í starfsmannalögin og eftir atvikum lög um hlutaðeigandi stofnun eða starfsemi.
Fjallað er um skipun og setningu í embætti í V. kafla starfsmannalaga.
Fylgiblöðin um skipunarkjör embættismanna eru tvenns konar.
Hið fyrra er vegna þeirra embættismanna sem taka laun og önnur starfskjör samkvæmt lögum.
Hið síðara er vegna þeirra stétta embættismanna sem taka laun skv. kjarasamningum, en það eru lögreglumenn, tollverðir og fangaverðir.
Ný fylgiblöð væntanleg
Rétt er að huga að því hvort setja eigi viðkomandi fyrirmæli um framkvæmd starfans í sérstöku erindisbréfi. Að jafnaði skal setja embættismanni slík fyrirmæli óski hann þess, hvort sem það varðar starf hans almennt eða afmarkaða hluta þess. Sjá nánar 2. málsgrein 8. grein starfsmannalaga.
Skylt er að setja erindisbréf sé um embætti forstöðumanns að ræða. Skal þá tilgreina helstu markmið í rekstri stofnunar og verkefni hennar, til lengri og skemmri tíma. Sjá nánar 1. mgr. 38. grein starfsmannalaga.
Valdið eða heimildin til að setja embættismanni erindisbréf er hjá því stjórnvaldi sem skipar eða setur í embættið.
Embættismaður skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, sbr. 20. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
Hægt er að framkvæma slíkan eið eða drengskaparheit með því að afla undirritunar embættismanns á skjal þess efnis.
Embættismenn skuli skipaðir tímabundið til fimm ára í senn nema annað komi fram í sérákvæðum laga um hlutaðeigandi stofnun eða starfsemi. Skipunartíminn framlengist sjálfkrafa um önnur fimm ár hafi viðkomandi embættismanni ekki verið tilkynnt með að minnsta kosti sex mánaða fyrirvara að til standi að auglýsa embættið laust til umsóknar. Sjá nánar 23. grein starfsmannalaga.
Þegar um venjulega skipun til fimm ára er að ræða þykir rétt að tilgreina ekki skipunartímann sérstaklega enda fer um hann, eins og önnur réttindi og skyldur sem embætti fylgja, að hann fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.
Hægt er að setja embættismann til reynslu áður en hann er skipaður í embættið. Setning til reynslu getur verið til eins árs í senn en þó aldrei samfellt lengur en í tvö ár. Sjá nánar 24. grein starfsmannalaga.
Verði síðar breytingar á skipunarkjörum embættismanns umfram það sem leiðir af lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða kjarasamningum, skal staðfesta breytingarnar með skriflegum hætti. Sjá nánar 4. gr. reglna um skyldu til að upplýsa embættismenn um skipunarkjör.
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.