Fara beint í efnið

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eru fyrir fólk sem getur ekki unnið eða stundað nám vegna sjúkdóms, slyss eða áfalls.

Almennt

Sjúkra- og endurhæfingagreiðslur taka við af endurhæfingarlífeyri 1. september 2025.

Það er nýjung að hægt er að fá greiðslur á meðan einstaklingur er í viðurkenndri meðferð, er á bið eftir meðferð eða endurhæfingu, getur ekki sinnt endurhæfingu vegna veikinda og er í atvinnuleit eftir að endurhæfingu lýkur.

Einstaklingar með endurhæfingarlífeyri 31. ágúst 2025

Öll sem eru með samþykkt endurhæfingartímabil lengur en til 31. ágúst 2025 fá sjúkra- og endurhæfingargreiðslur frá og með 1. september 2025. Það þarf hvorki að sækja um né senda inn ný gögn.

Greitt verður út gildistíma þess endurhæfingartímabils sem samþykkt var fyrir 1. september 2025.

Öll sem eru með endurhæfingarlífeyri 31. ágúst munu fá nánari upplýsingar um stöðu sína í nýju kerfi þegar nær breytingunum dregur.

Fyrir hverja

Þú getur fengið sjúkra- og endurhæfingargreiðslur ef þú býrð við langvarandi eða alvarlegan heilsubrest, eða fötlun sem talin er geta haft áhrif til frambúðar á getu til virkni á vinnumarkaði og ef þú:

  • ert í viðurkenndri meðferð eða endurhæfingu

  • bíður eftir að meðferð eða endurhæfing geti byrjað

  • getur ekki sinnt endurhæfingu vegna heilsubrests

  • ert í atvinnuleit eftir endurhæfingu

  • hefur átt lögheimili á Íslandi í 12 mánuði samfellt fyrir upphaf töku sjúkra- og endurhæfingargreiðslna nema milliríkjasamningar kveði á um annað.

  • hefur fullnýtt veikindarétt frá vinnuveitanda og greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags 

Tímabil

Hægt er að fá sjúkra- og endurhæfingargreiðslur í hámark 60 mánuði.

Einstaklingar í viðkvæmri stöðu og með fjölþættan vanda sem þurfa meiri endurhæfingu geta sótt um framlengingu að hámarki í 24 mánuði.

Einstaklingar skráðir í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun eftir endurhæfingu geta haldið greiðslum í 3 mánuði.

Frítekjumörk

Almennt frítekjumark vegna sjúkra- og endurhæfingargreiðslna er 40.000 krónur á mánuði og sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna er 160.000 krónur á mánuði.

Aldursviðbót

Þau sem fá sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eiga ekki rétt á aldursviðbót.  

Þjónustuaðili

Trygg­inga­stofnun