Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur frá 1. september 2025

Athugið - Milli kl. 15:30 og 16:30 fimmtudaginn 4. desember fara fram uppfærslur í kerfum Tryggingastofnunar

Þetta getur valdið því að ekki er hægt að klára umsóknarferli um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur.

Vinsamlegast reyndu aftur síðar ef þú lendir í að villa kemur upp.

Umsókn um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eru fyrir fólk sem getur ekki unnið eða stundað nám vegna sjúkdóms, slyss eða áfalls.

Við viljum minna á alltaf þarf að fylla út umsókn um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, hvort sem það er fyrsta umsókn eða umsókn um áframhaldandi greiðslur. Sjá hvaða gögnum þarf að skila til að hefja ferli sjúkra- og endurhæfingargreiðslna.

Almennt

Sjúkra- og endurhæfingagreiðslur taka við af endurhæfingarlífeyri 1. september 2025.

Það er nýjung að hægt er að fá greiðslur á meðan einstaklingur er í viðurkenndri meðferð, er á bið eftir meðferð eða endurhæfingu, getur ekki sinnt meðferð eða endurhæfingu vegna veikinda og er í atvinnuleit eftir að endurhæfingu lýkur.

Fyrir hverja

Þú getur fengið sjúkra- og endurhæfingargreiðslur ef þú býrð við langvarandi eða alvarlegan heilsubrest, eða fötlun sem talin er geta haft áhrif til frambúðar á getu til virkni á vinnumarkaði og ef þú:

  • ert í viðurkenndri meðferð eða endurhæfingu í allt að 12 mánuði í senn

  • bíður eftir að meðferð eða endurhæfing geti byrjað í allt að sex mánuði í senn

  • getur ekki sinnt endurhæfingu sökum heilsubrests í allt að sex mánuði í senn

  • ert í atvinnuleit eftir að endurhæfingu lýkur í allt að þrjá mánuði

  • hefur átt lögheimili á Íslandi í 12 mánuði samfellt fyrir upphaf töku sjúkra- og endurhæfingargreiðslna nema milliríkjasamningar kveði á um annað

  • hefur fullnýtt veikindarétt frá vinnuveitanda og greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags 

Heildargreiðslutímabil sjúkra- og endurhæfingargreiðslna eru 60 mánuðir en hægt er að framlengja um aðra 24 mánuði ef þú ert í viðkvæmri stöðu, með fjölþættan vanda og í þörf fyrir áframhaldandi endurhæfingu.

Þjónustuaðilar

Aðilar sem eiga samstarf um þjónustu í tengslum við endurhæfingu einstaklinga eru:

  • Félagsþjónustur sveitarfélaga

  • Vinnumálastofnun

  • Heilbrigðisstofnanir

  • VIRK starfsendurhæfingarsjóður

Frítekjumörk

Almennt frítekjumark vegna sjúkra- og endurhæfingargreiðslna er 40.000 krónur á mánuði og sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna er 160.000 krónur á mánuði.

Í reiknivél örorkulífeyris, sjúkra- og endurhæfingargreiðslna frá 1. september 2025 er hægt að reikna út mögulegar sjúkra- og endurhæfingargreiðslur.

Aldursviðbót

Þau sem fá sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eiga ekki rétt á aldursviðbót. 

Heimilisuppbót

Skilyrði um heimilisuppbót haldast eins í nýju kerfi.

Heimilisuppbót er tekjutengd og lækkar samanlögð fjárhæð lífeyris og heimilisuppbótar ef við á um 45% af tekjum lífeyrisþega umfram frítekjumörk, uns hún fellur niður.  

Barnalífeyrir

Greiðslur barnalífeyris haldast eins í nýju kerfi. Barnalífeyrir er greiddur ef foreldri eða framfærandi fær greiddan örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslur. Barnalífeyrir er ótekjutengdur.

Atvinna samhliða endurhæfingargreiðslum

Þátttaka á vinnumarkaði að hluta sem stuðlar að aukinni starfshæfni umsækjanda, getur talist vera liður í endurhæfingu eða viðurkenndri meðferð. Þó skal ætíð horft til þess að þátttaka á vinnumarkaði sé ekki svo umfangsmikil að ekki gefist svigrúm til að sinna þeim endurhæfingarúrræðum eða viðurkenndri meðferð sem tekur á heilsufarsvanda.  

Nám samhliða endurhæfingargreiðslum

Nám verður að vera líklegt til að auka líkur á endurkomu á vinnumarkað. Heimilt er að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljist ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna.

TR er þó heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljist ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna.

TR er einnig heimilt að meta fjölda eininga sérstaklega þegar einstaklingur er með staðfesta fötlunargreiningu og er á sérnámsbraut eða starfsbraut enda sé námið að jafnaði ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna.

TR leggur mat á hvort nám samræmist endurhæfingu á grundvelli staðfestingar frá skóla.

Þjónustuaðili

Trygg­inga­stofnun