Fara beint í efnið

Nýtt - hlutaörorka og virknistyrkur

Almennt

Nýr hlutaörorkulífeyrir frá 1. september 2025 er fyrir þau sem eru metin með 26 til 50% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati.

Hlutaörorkulífeyrir er ætlaður þeim sem hafa getu og möguleika á að vera á vinnumarkaði þar er frítekjumark vegna atvinnutekna 250.000 krónur á mánuði.

Fyrir hverja

Einstaklinga sem eru metnir með 26 - 50% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests eða fötlunar. Hlutaörorkulífeyrir er ætlaður þeim sem hafa getu til að vera í hlutastarfi á vinnumarkaði. Hann er varanlegur, en ef aðstæður breytast er geta til virkni á vinnumarkaði endurmetin.

Upphæð hlutaörorkulífeyris

Upphæð hlutaörorkulífeyris er 82% af fullum greiðslum örorkulífeyris hverju sinni. Við almenna 100.000 krónur frítekjumarkið bætist við 250.000 krónu frítekjumark vegna atvinnutekna á mánuði. Sjá upphæðir hér.

Einstaklingur með hlutaörorkulífeyrir getur því verið með allt að 350.000 krónur í tekjur á mánuði án þess að það hafi áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun. Áhrif tekna er 45% til lækkunar af tekjum yfir frítekjumörkum.

Aldursviðbót

Þau sem eiga rétt á örorku- eða hlutaörorkulífeyri geta fengið greidda aldursviðbót að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Aldursviðbót er ekki greidd þeim sem hafa rétt á sjúkra- eða endurhæfingargreiðslum.

Full aldursviðbót að upphæð 30.000 krónur greiðist þeim sem eru 18 til 24 ára þegar annað hvort skilyrði endurhæfingarlífeyris voru fyrst uppfyllt eða þegar örorkumat var fyrst samþykkt. Það á við hvort sem fyrsta örorkumatið átti sér stað fyrir 1. september 2025 eða eftir. Fjárhæðin lækkar um 5% frá og með 25 ára aldri fram að 44 ára aldri og er ekki greidd þeim sem eru eldri en 43 ára við fyrsta örorkumat.

Dæmi: Ef einstaklingur fær samþykkt mat í fyrsta sinn 25 ára fær viðkomandi 95% af fullri aldursviðbót og heldur þeirri greiðslu.

Dæmi: Ef einstaklingur fær samþykkt mat í fyrsta sinn 43 ára fær viðkomandi 5% af fullri aldursviðbót og heldur þeirri greiðslu.

Aldursviðbót er tekjutengd og lækkar samanlögð fjárhæð lífeyris, heimilisuppbótar og aldursviðbótar ef við á um 45% af tekjum lífeyrisþega umfram frítekjumörk, uns hún fellur niður.

Hlutaörorkulífeyrir og virknistyrkur

Þau sem eiga rétt á hlutaörorkulífeyri geta fengið greiddan virknistyrk frá Vinnumálastofnun í allt að 24 mánuði á meðan einstaklingur er í virkri atvinnuleit með aðstoð Vinnumálastofnunar. Samanlögð fjárhæð hlutaörorkulífeyris og virknistyrks nemur samtals fjárhæð fulls örorkulífeyris.  

Virknistyrkur

Virknistyrkur er greiddur til þeirra sem eiga rétt á hlutaörorkulífeyri og eru í virkri atvinnuleit. Hann er greiddur af Vinnumálastofnum sem veitir einstaklingsmiðaðan stuðning við atvinnuleit. Hann er ekki tekjutengdur.

Heimilisuppbót

Núgildandi skilyrði um heimilisuppbót, breytast ekki í nýju kerfi.

Heimilisuppbót er tekjutengd og lækkar samanlögð fjárhæð lífeyris, heimilisuppbótar og aldursviðbótar ef við á um 45% af tekjum lífeyrisþega umfram frítekjumörk, uns hún fellur niður. 

Barnalífeyrir

Það verða ekki breytingar á barnalífeyri. Barnalífeyrir er greiddur ef foreldri eða framfærandi fær greiddan örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslur. Fjárhæð barnalífeyris er föst fjárhæð.

Þjónustuaðili

Trygg­inga­stofnun